mánudagur, september 17, 2012

Drama

Það fylgdi því furðanlega lítið drama að klambra saman einu stykki drama í sumar. Sýnt verður brotabrot af afrakstrinum í kvöld í Þjóðleikhúskjallaranum kl. 19:30 (ásamt 10 öðrum verkum).

Búin að dvelja undanfarið inni í hausnum á Birnu sem hleypur í fyrsta skipti hálfmaraþon með ýmsum skemmtilegum afleiðingum. Reyndar kom smá stífla í skrifin í júlí og ágúst og þá fór mín bara út að skokka til að komast í burtu frá tölvunni. Var alvarlega farin að hugsa um að prufa að skrifa sveitt í hlaupagallanum, en það stig örvæntingar varð aldrei að veruleika. Á það bara inni.

Hef annars verið að glugga í bókina Tóma rýmið eftir Peter Brook og heilluð af skemmtilegum pælingum og vangaveltum. Hér er smá brot af bls. 60:

,,Leiklistin er líklega erfiðust allra miðla, eða ætti að vera það sé hún stunduð af alvöru. Hún er miskunnarlaus og leyfir ekki mistök eða að eitthvað fari til spillis. /.../ Tvær klukkustundir eru stuttur tími en jafnframt heil eilífð. Mikil list felst í því að geta eytt tveimur klukkustundum af tíma almennings. Samt sem áður er listin, sem einkennist af þessum skelfilega vanda, mestmegnis unnin í kæruleysi. Í hættulegu tómarúmi er ekki hægt að læra raunverulega list leikhússins víða, þannig að við hneigjumst að leikhúsi sem býður ást í stað vísinda." o.s.frv.

Lærdómurinn sem ég dreg af þessu öllu er að vissan er falskur vinur þegar kemur að leikhúsinu. Óvissan er föst breyta. Ég er alveg viss um það og þar af leiðandi á stöðugum villigötum, hlaupandi í hringi. Æ það hefur svo margt viturlegt og flott verið sagt um leikhús - best að hlusta bara og njóta.

mánudagur, september 10, 2012

Adieu

Fyrir rúmlega viku síðan skilaði ég lyklunum að íbúðinni í Engihjallanum. Það er óneitanlega furðuleg tilfinning að eiga ekki lengur erindi í Kópavoginn og vera ekki lengur brunandi eftir Nýbýlaveginum oft á dag. Núllpunkturinn hefur færst úr stað.

Þrátt fyrir það sem margir halda (já fordómarnir leynast víða) þá er alveg hreint yndislegt að búa í Engihjallanum, sérstaklega í þessari númer ellefu. Útsýnið út að Keili og nágrannarnir hver öðrum ljúfari og indælli. Abdesselam í A íbúðinni lagaði fyrir mig brotna Palesander borðið hennar ömmu og Guðrún í C var alltaf að bjóða mér í kaffi. Sómahjónin í númer C voru líka stöðugt að hleypa mér inn til sín þegar ég læsti mig úti og fékk að prufa smá loftfimleika og klifra á milli svala til að komast inn til mín. Þá jesúsaði hún sig alltaf á svölunum og varð guðslifandi fegin þegar ég komst yfir heil og höldnu. Svo er Rósa oft á svölunum í næsta húsi og þá var hægt að spjalla með því að kalla á milli eða bara skutlast yfir.

Þegar maður lítur út um gluggann í Engihjallanum er alltaf einhver að koma eða fara, öskrandi barnahópar og ólgandi orka. Eins og er þá er líka skemmtileg blanda af ungu fólki, gömlu fólki, frumbyggjum, drykkjuhrútum og góðtemplurum og alls konar öllu mögulegu.

Og þegar maður mætti á viðburði eins og þegar kveikt var á jólatrénu í Hamraborgðinni þá var skemmtilega þorpsleg stemning þar sem örfáar hræður mættu og allir virtust þekkja alla (nánast).

Það var sem sagt fröken verðtrygging sem sparkaði mér út, því miður auk þess sem endurstillingar á núllpunktum eru stundum nauðsynlegar.

Þá er ég mætt í Reykjavíkina sem ég er byrjuð að kalla Biðlistaborgina en það virðist vera raunin að öll grunnþjónusta er ódýrari í Reykjavík en en á móti kemur að skólabörn fá ekki öll pláss á frístundaheimilum og lenda á biðlista. Hvort ætli sé betra?

Hér er síðan hægt að lesa um fræga Engihjallaveðrið sem allir eru ennþá að tala um: http://www.skjaladagur.is/2010/101-01.html

Nú þarf ég bara að vera dugleg að bruna Nýbýlaveginn til að snapa mér kaffi í gamla hverfinu mínu og kynnast síðan nýjum nágrönnum á nýjum stað - spurning að banka upp á og biðja um kaffisopa :-)

þriðjudagur, ágúst 14, 2012

Örnefnaskrá hin nýja

Þegar síðsumarið læðist að manni í vaxandi hauströkkrinu birtist ný örnefnaskrá sem minnir á liðið sumar.

Suður af eldhúsvaskinum eru þurrkuð birkilauf í dalli sem minna mig á Birkitrén við Engihjalla.

Í hánorður út frá eldhúsborðinu eru tvær krukkur í skáp. Önnur er með Blóðberg frá Hamarsfirði og hin með Vallhumal frá Eggertsgötu. Sunnan við það kúra kartöflur frá Kjarrhólmanum í ísskáp en enn lengra í suður þar af situr þurrkaður þari í vasa sem hefur ferðast alla leið úr fjörunni við bæinn Urðarteig.

Þegar ég fór í fótabað í sumar við Maríuhöfn flæktist þari í peysunni minni sem nú prýðir baksýnisspegilinn í bílnum (sko þarinn, ekki peysan) og þess vegna hugsa ég svo oft um fótabað við aksturinn.

Svona ætla ég að taka sumarið með mér inn í veturinn og leyfa nýjum örnefnum að vekja minningar.

sunnudagur, ágúst 05, 2012

Solanum tuberosum

Krækti mér (bókstaflega) í nokkur jarðepli úr kartöflugarðinum áðan. Ég er ekki frá því að kærleikskveðjurnar sem útsæðið fékk í vor áður en moldinni var sópað yfir séu að skila sér.

Ef ég væri hagfræðingur mundi ég eflaust finna það út að kílóverðið á þessum kartöflum væri mun hærra en út úr búð. En það verður að taka með í reikningsdæmið ánægjuna sem hlýst af vappi um kartöflugarða. Að fara átta ferðir með vatnskönnuna eftir stígnum í grasi sem nær bráðum mjöðmum og sjá kvöldsólina leika við dansandi tré. Og lyktin...maður lifandi.

Henti alls konar í pott og úr varð svo góður réttur að hér fáið þið drög að uppskrift:

Slatti nýjar kartöflur
Ein stór gulrót (í bitum)
Hvítkál (í bitum)
Smá engifer
Slatti af pastaslaufum

Allt soðið í vatni
Vatninu helt af þegar soðið.

Kartöflurnar stappaðar í pottinum.
Slatti af kryddsmjöri
Meiri engifer
Smá karrý
Hálf dós af Sólskinssósu (fæst tilbúin í Bónus)

Gott að gúffa í sig yfir Ólympíuleikunum í sjónvarpinu!!

Bon appetit!

fimmtudagur, ágúst 02, 2012

Af Krísuvíkurleið

Stundum langar mann bara að tjá sig. Beint inn í tómið á þessu loftþétta neti. Þá biður egóið um eitthvað flott, eitthvað djúpt, eitthvað sniðugt og krassandi. En stundum (bara stundum) nær maður að dempa þetta freka egó, pakka því ofan í tösku og senda í næsta flug til Grænlands. En það kemur alltaf aftur. Taskan dúkkar alltaf uppi við útidyrahurðina og egóið laumar sér yfir þröskuldinn. Hefur ekki einu sinni fyrir því að sýna vegabréfið.

Það var ekki þetta sem ég vildi segja. Opnaði þetta til að tjá mig um Krísuvíkurleið. Mér finnst svo skemmtilegt hvað sú leið hefur náð að lauma sér inn í orðatiltæki og vona svo heitt og innilega að Vegagerðin geri þessa leið ekki auðvelda yfirferðar (kannski hefur það gerst nú þegar, hvað veit ég sem fer of sjaldan út af mínum slóða).

Um daginn sá ég fólk tjá sig á netinu um það hvað fólk er mikil fífl. En ég vildi segja ykkur, fólk er ekki fífl. Fólk er undursamlega fallegt. Fólk er nóg, núna. Við förum bara svo skemmtilegar Krísuvíkurleiðir í samskiptum. Og erum svo undursamlega skapandi þegar við flækjum þetta einfalda líf. Þá hafið þið það! (Ætlaði að setja inn mynd af draumkenndum fjöllum frá Krísuvík en Annie Hall heimtaði pláss)

miðvikudagur, ágúst 01, 2012

mánudagur, júlí 23, 2012

Villieldur


Hef meðal annars nýtt sumarið í að glugga í gegnum hina stórmerkilegu bók „Fjarri hlýju hjónasængur“ eftir Ingu Huld Hákonardóttur sem kom fyrst út árið 1992. Þrátt fyrir afar þungt og flókið efni þá er bókin mjög aðgengileg og auðveld aflestrar. Þarna er merkilegt sjónarhorn á afkima Íslandssögunnar þar sem ástin og greddan er í raun aðalefnið og það hvernig yfirvöld hafa í gegnum aldirnar reynt að hamla, hefta og stjórna þessum óstýrilátu kröftum í mannseðlinu.

Hvað varðar aftökur almennt eins og drekkingar og hálshöggvanir þá kom mér á óvart að í raun fóru þær ekki alfarið fram á Þingvöllum á 18. öld heldur líka að miklu leyti heima í héraði. Þetta veldur því að núna lít ég landið öðrum augum. Öll þessi saklausu og fallegu vötn fá á sig einhvern hrollkaldan og dimman blæ og ég spyr mig óneitanlega: Getur verið að konu hafi verið drekkt í þessu vatni? Í bókinni eru nokkuð þögull hópur sem vakti forvitni mína en það eru sjálfir böðlarnir. Hverjir gerðust böðlar og hvernig ætli þeim hafi liðið? Við lesturinn varð ég líka óendanlega þakklát fyrir að vera konutetur á 21. öld en ekki örvasa vinnukona á þeirri átjándu gagntekin af óæskilegri ást.

Það er mín niðurstaða eftir lesturinn að það hefur verið óttalegt basl að lifa af í þessu landi í gegnum aldirnar. Óbifanleg harka og ofbeldi hefur einkennt margt og hún viðist enn blunda í okkur. En harkan síast vonandi út með komandi kynslóðum.

Mér finnst ótrúlega flottur kjarni í þessum orðum Ingu Huldar á bls. 31 (í umfjöllun um Ágústínus og Miðaldakirkjuna):

Í raun reyndu stjórnendur að staðla og einfalda ástina, þetta margslungna undur sem ýmist hefur á valdi sínu að skapa beiska kvöl eða botnlausa sælu. Þegar hún læsir sig eins og villieldur um líkama og sál streyma áður ókunnar orkulindir fram úr djúpum sálarinnar, dularöfl losna úr læðingi og einstaklingurinn skynjar sinn sanna kjarna. Heit ást logar jafnt í huga sem hjarta og brennir bæði líkama og sál. Því má segja að ofstækisfull siðvendni og óhamið lauslæti séu tvær hliðar á sama fyrirbrigði: flóttanum frá einlægum og hlýjum tilfinningatengslum.

miðvikudagur, júní 20, 2012

Hinar fjörlegu hugsanir annarra


Um daginn var ég að bugast undan dómhörku annars fólks. Gagnrýnisraddirnar voru háværar og sligandi. Þangað til ég uppgötvaði að raddirnar voru einungis í höfðinu á mér.

Ég hef af mikilli elju náð að uppræta djúpstæða sjálfsfyrirlitningu en ræturnar eru greinilega lengri en ég hélt og lauma sér um moldina í kaldri þögn. Það er alltaf gaman að hreinsa til og reyta arfann úr höfðinu.

Þegar ég þykist vita hvað aðrir hugsa er ég komin inn á svæði sem ég þarf að koma mér út af. Komin inn á eitthver kargaþýft tún með óvæntu mýrlendi og gaddavírsgirðingum. Eitt allsherjar arfabeði. Þá skiptir engu máli þó að ég rispi mig á girðingunni, ég þarf að komast heim til míns hjarta og hanga frekar í túninu heima.

Það er gott að hafa fjörugt ímyndunarafl en öllu má nú ofgera :-)

föstudagur, júní 15, 2012

Hversu mikið er nóg þegar það er komið nóg?


Hversu mikið er nóg af mat, af plássi, af menntun, af vinnusemi, af tjáningu, af hlustun, af öllu? Hversu mikið er nóg að peningum (sem ég gef og þigg), hversu mikil athygli er nóg (sem ég veiti og leita uppi logandi ljósi eins og þetta kjaftasnatt hér ber glöggt vitni)? Hversu mikið súrefni er  nóg? Til hvers er þetta líf? Hvar er leiðbeiningabæklingurinn með þessu lífi? Er ekki til staðall? Gefið mér bækling. Gefið mér staðal! Helst í tölusettum liðum!

Sá sem veit svörin hefur í hendi sér brotabrot af hinni rokgjörnu hamingju :-)

mánudagur, júní 11, 2012

Slitrur frá Eyrarbakka


Ég á hálfan dag og eina nótt eftir í pínulitlu húsi hér á Eyrarbakka. Er búin að skrifa slatta, mest eitthvað bull sem aldrei stóð til. Hef líka slípað til eldri myndir og bætt við tónum. En mikið svakalega er þetta einmanalegt. Sérstaklega eftir að rafhlaðan í símanum kláraðist. Einu tengslin við umheiminn eru netið og fjandans fésbókin. Og auðvitað kjörbúðin á bensínstöðinni. Ég mundi ekki halda það út í margar vikur að sitja ein á afskekktum stað og skrifa. Fólkið á næstu bensínstöð fengi nóg af mér.

Það er búið að vera vindasamt frá því ég kom. Einn daginn var glaðasólskin en hífandi rok. Hina hefur verið meira gjóla eða andvari. En fullt af sól, nóg af sól. Ætli sé við öðru að búast? Lyktin er skemmtileg blanda af sveitalykt og fjörulykt. Lykt af þara er svo himnesk að það mætti tappa henni á flöskur

Þegar ég kem í svona lítil og gömul hús þá byrja ég ósjálfrátt að beygja mig undir dyrakarma en síðan er reglulega eins og ég detti úr takti og fæ bylmingshögg á ennið. Til að sjá andlitið í spegli þarf ég að taka djúpa hnébeygju. Og þegar ég lít út um gluggann og eitthvað kvikt ber við augun þá skerpist athyglin til muna og maður fer að rýna, spá og spekúlera.  Túlka og oftúlka.

Áðan var verið að slá í nálægum garði og sláttuvélin hefur verið af einhverri sérstakri sort því þetta hljómaði eins og suð í risaflugu. Það er ekki óvanalegt að traktorar keyri framhjá á Túngötunni (einni af tveimur aðalgötum þorpsins). Áðan vappaði hani framhjá. Síðan kemur fyrir að maður sér hjónakorn í gönguferð þar sem konan tifar fimm skrefum á undan bóndanum sem stígur þung og ólundarleg skref.

Ég skokkaði lítinn hring um þorpið í gær og hljóp til baka eftir brimvarnargarðinum með þorp á hægri hönd og sjó á vinstri. Mæli með því! Annars fannst mér merkilegt að sjá hvað grunnskólinn er nálægt Litla Hrauni. Hvernig ætli það sé að ganga í skóla sem er nokkur hundruð metrum frá stærsta öryggisfangelsi landsins?

Næsta hús er lítið og sætt eins og þetta en rautt og garðurinn í órækt. Ég get ekki séð að nokkur búi í húsinu. Hvernig ætli það sé að búa í húsi með garði? Hvernig ætli það sé að vera með hól í garðinum (eins og í næsta garði)? Eða álfastein? Hvernig ætli það sé að búa í appelsínugulu húsi? Öll þorp eru með að minnsta kosti eitt appelsínugult hús.

Í fyrradag steig ég út og fór að mæna í kringum mig. Þá allt í einu sá ég ungan mann sitja á hólnum í næsta garði. Mér sýndist hann kjamsa á stráum. Mér brá svo að ég rauk aftur inn. Og læsti. Var ekki viss hvort þetta var draugur eða huldumaður. Í gær var þessi sami ungi maður að vökva stærðarinnar garð með vini sínum. Ég lá á glugganum. Er það eðlilegt að ungir menn vökvi kartöflugarða á sunnudagsmorgni? Er ungum mönnum almennt umhugað um kartöflugrös? Eru þeir kannski að rækta eitthvað annað undir svörtu plastpokunum? Hann var með lopahúfu og sólgleraugu. Er ég kannski bara uppfull af fordómum í leit að tilbreytingu í þessu fátæklega hoki mínu í þessu húsi?

Í morgun þegar ég vaknaði var ekkert heitt vatn. Þannig áskotnaðist mér einhver tilbreyting, frí frá orðunum og ég keyrði (hér keyra allir, að sjálfsögðu) út að bensínstöð sem er líka kjörbúð og spurði út í vatnið. Þar reyndist líka heitavatnslaust  og engar upplýsingar. Þetta er ráðgáta. Vonandi kemur vatnið á seinnipartinn svo ég geti endurtekið leikinn á brimvarnargarðinum. Ég skolaði af bílnum og gömlu tebollurnar í kjörbúðinni náðu ekki að heilla mig.

Á leiðinni til baka sá ég tvo unglingsstráka mála bekk. Annar var lítill, horaður og grettinn á meðan hinn var þybbinn og fýldur og ég hugsaði „Þetta er unglingavinnan“ – en varla það hljóta að vera fleiri unglinga hérna.

Hér er fallegt. Lítil krúttleg hús, stór og stirðbusaleg hús og engu minna krúttleg og allt þar á milli. Hér rétt hjá eru nokkrir skúrar og þar af tveir ryðgaðir. Hvað er þetta með ryðgaða skúra? Af hverju finnast mér þeir svona ótrúlega heillandi? Og garðar í órækt þar sem puntstrá, njólar og hvannir vaða upp um allt. Gefið mér bara ryðgaðan skúr og garð í órækt, þá er ég alsæl! Er þorpið smækkuð mynda af heiminum? Kallar þorpið fram rómantíska óra í hugum borgarbúa? Óra sem eiga lítið skylt við raunveruleikann. Veit ekki, en þeir eru skemmtilegir, þessir órar.

sunnudagur, júní 10, 2012

Vísir að kirkjugarðsrómantík


Þegar maður hlustar á tregafullt lag sem er fullt af sögu langar mann að segja sig úr samfélagi manna – stimpla sig út – og sitja með útsýni út að úfnu hafi og lægðum sem lækka flugið og steypa sér niður að ætinu. Horfa á hafið í sjónum og reyna að sjá sjóinn í hafinu.

Ætla að taka „Walzing Mathilda“ með Tom Waits með mér í gröfina – verður á endalausu replay í tónhlöðunni og eyrun munu bráðna yfir heyrnatólin.

Fyrir áhugafólk um kirkjugarðsrómantík þá skrifaði Thomas Gray ljóðið "An Elegy Wrote in A Country Church Yard" á 18. öld. Ég ætla ekki að þykjast hafa lesið það en það er á dagskránni. Þangað til set ég lög á eyrað eins og kuðung og hlusta á úthafið.