þriðjudagur, júlí 14, 2015

Afskrift er styrkur er hugtak er orð er skilgreiningaratriði er jarm

Svei mér þá, þegar ég les fréttir um Lánasjóð íslenskra námsmanna (LÍN) verð ég oft svo hissa og langar helst að kynna mér þetta allt í þaula, setjast niður og lesa reglurnar fram og til baka og reyna að skilja þetta en síðan minni ég mig á að orkan mín vill komast annað, þar sem er meira súrefni og óvænt fegurð. Örstutt frétt um afstöðu menntamálaráðherra til sjóðsins vakti með mér hroll:

http://www.visir.is/illugi-vill-endurskoda-lanakerfi-lin/article/2015707149959

Hann segir fullum fetum að það að afskrifa lán sé það sama og styrkur. Ég hef aldrei áður séð þá frumlegu skilgreiningu. Eru þá allar afskriftir bankanna í kjölfar hrunsins og almennt afskriftir íbúðalánasjóðs og annarra sjóða kallaðar ,,styrkir"? Hefur styrkjakerfið í atvinnulífinu þá ekki orðið einum of mikið undanfarin 10 ár? Hafa þessar afskriftir verið settar í samhengi við aðrar afskriftir annarra sjóða? Reyndar rek ég núna augun í sömu ,,styrkjahugsun" í formála famkvæmdastjóra sjóðsins í ársskýrslu 2014 :-(

Síðan kemur fram sú sorglega staðreynd að ungir námsmenn séu helst í vanskilum við lánasjóðinn. Það er greinilega vilji hjá þeim sem stjórna sjóðnum að breyta honum og þá vonandi til hins betra. Vonandi verða þessi vanskil skoðuð í stærra samhengi - hvað veldur því að ungir námsmenn eiga erfitt með að borga af lánum sínum? Hvernig spilar þetta allt saman? Nýlega spratt upp einkarekinn lánasjóður sem sýnir vel að einhver góðavon er í því að lána námsmönnum. Þegar stjórnendur LÍN barmar sér yfir vanskilum og ,,styrkjum" vekur slíkur lánasjóður mikla furðu.

Mér finnst sjálfsagt að setja skuldaþak og skoða heildrænt hvernig bæta megi aðstöðu til náms. Síðan væri hugmynd að afburðanámsmenn fengju skuld sína fellda niður við útskrift að hluta eða í heild. Þeir námsmenn sem setja á stofn stöndugt, arðvænlegt nýsköpunarfyrirtæki gætu fengið láninu umbreytt í styrk inn í fyrirtækið eða niðurfellingu.

Námsmenn sem taka námslán og fjármagna þannig að fullu námið sitt eru ekki byrði á þjóðfélaginu, þeir eru vaxtasprotar.

Læt þetta duga í bili - næst kemur miklu meiri óvæntfegurðartjáning og eitthvað um hringina, hvernig allt fer í hring. (Myndin tengist efni bloggsins þráðbeint)

Engin ummæli: