sunnudagur, júní 24, 2007
Að hlaupa út í buskann
Danmerkurförin var yndisleg í alla staði fyrir utan höfuðverkinn yfir öllum nýju verkefnunum í vinnunni þar sem hringitónar, niðurhal og DVD koma við sögu. Veðrið var einstaklega gott og fyrsta daginn varð ég þess heiðurs aðnjótandi að vera líklega eina konan á Strikinu sem var bæði í sokkum og í ullarkápu. En síðan áttaði ég mig á veðrinu og fór að þora út peyslulaus.
Hápunktur ferðarinnar var óvænt þátttaka í kvennahlaupi Alt for damerne þar sem 18000 konur hlupu á þremur kvöldum.
Á kvöldskokkinu í gærkvöldi silaðist ég framhjá pollum í fótbolta og þá fór ég að rifja upp fótboltaárin mín. Ég byrjaði að æfa fótbolta með Reyni Sandgerði í fyrsta stelpuflokknum þegar ég var 10-12 ára (man ekki alveg hvaða ár). Í nokkur ár var ég haldin miklu fótboltaæði og reyndi ítrekað að ná valdi á boltanum. En skankarnir flæktust alltaf jafn mikið fyrir mér og ég náði mestum árangri sem markvörður í innanhúsfótbolta - þá gátu skankarnir náð út um allt. Á þessum tíma hóf ég markvisst að hrækja út um allt (ekki reyndar innanhús) og það passaði flott að labba lúin á takkaskónum frá malarvellinum og hrækja hægri vinstri.
Á fyrstu æfingunni vorum við um 15-20 stelpur að elta einn bolta (bókstaflega). Fyrsti leikurinn við Keflavík fór 15-0 ef ég man rétt (fyrir þeim auðvitað) en á nokkrum árum náðum við yfirhöndinni og urðum Reykjanesmeistara (eða var það Suðurnesjameistarar?) - þökk sé Malla sem öskraði, hoppaði og stappaði í okkur stálinu.
Hefði ég fengið að ráða þá hefði ég æft hástökk og frjálsar en ekkert slíkt var í boði í sjávarþorpinu og því varð fótboltinn ofan á. Seinna sneri ég baki við þessu óþarfa hoppi, lagðist í bóklestur, píanóspil og ómarkvisst gítarplokk. Hef ekki átt afturkvæmt í boltann.
sunnudagur, júní 17, 2007
Skollaleikur
er saga sem birtist í smásagnahefti Nýs Lífs. Eldsnemma í fyrramálið verður það Kaupmannahöfn og lærlingsstörf hjá Nordisk Copyrigt Bureau. Við heimkomu komast Fjallvegirnir vonandi, vonandi í prentun.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)