mánudagur, mars 24, 2008

Af tónum



Allt of sjaldan fer maður á tónleika en það sem af er þessum mánuði hef ég farið á tvenna. Fyrst var það kammerverkið "Quator pour la fin du temps" eftir Messiaen - en 10. desember næst komandi verða 100 ár liðin frá fæðingu hans (þ.e.a.s. höfundarins, ekki kvartettsins).

Um páskana voru það síðan tónleikar með öllum helstu lögum Bítlanna - þar slógu KK og Daníel Ágúst í gegn. Daníel virðist hafa ótrúlega mikla hæfileika á ýmsum sviðum tónlistar.



Undanfarna daga hef ég síðan verið að endurnýja kynnin við "Second coming" Stone Roses - hér er upphafslag disksins, algjör snilld.

fimmtudagur, mars 20, 2008

Stokkhólmur - Ísafjörður - Helsinki

Framunda er heimsókn til kumpánlegra samstarfsfélaga hjá STIM í Stokkhólmi. Í sumar er stefnan tekin á Ísafjörð (því við höfum aldrei komið þangað, ótrúlegt en satt) með stuttri heimsókn til frænda á Flateyri (hinn frægi Grétar á Gröfunni). Hann veit reyndar ekki ennþá að við erum væntanleg en vonandi getum við kríað út eins og einn kaffibolla. Með haustinu verður síðan Helsinki skoðuð og skundað á áhugaverða ráðstefnu.

Eftir mikla páskafræðslu í sunnudagaskólanum síðasta sunnudag sagði sú 4 ára við mig: ,,Veistu á sunnudaginn langa þá breyttist Jesús í krossfisk"

sunnudagur, mars 09, 2008

Brautruðningur


Í vetrarhörkunni um daginn datt mér í hug hve dásamlega gaman það gæti verið að vinna hluta úr degi (eða heilan dag) á litlu snjóruðningstæki sem ryður gangstíga. Það hlýtur að vera þakklátasta starfið að ryðja öðrum braut.