Hér hefur verið rólegt að undanförnu. Upp úr jólapökkum gægðust tvær mjög góðar bækur sem ég las af áfergju yfir hátíðirnar. Fyrst las ég söguna um Bíbí og las hana eins og hverja aðra spennusögu fram á nótt. Síðan tók við Þúsund bjartar sólir og þegar ég lauk lestrinum fylltist á miklu þakklæti til þýðandans að koma þessum fjarlæga heimi til mín á íslensku. Þýðingar eru lífsnauðsynlegar fyrir menningu okkar og þýðendur eins og huldufólk sem laumar gulli í vasa fólks. Fyrir jólin náði ég að næla mér í Sandárbók Gyrðis Elíassonar á bókasafninu - bókin er rosalega góð og góð áminning um að framvinda og flókin flétta eru ekki alltaf nauðsynleg.
Síðasta laugardag prufaði ég að fara í svokallað "svett" með vinkonu minni (sjá lýsinguna hjá Sollu jöklasól) sem var einstök upplifun. Við sátum sem sagt í 3 klst. í tjaldi þar sem vatni var ausið á rauðglóandi steina og maður svitnaði heilu úthafi í fimm lotum. Þetta væri ég alveg til í að gera aftur, kannski svona einu sinni á ári.
Hversdeginum var tekið fagnandi í gær og framundan heil vinnuvika og lífið komið í gamla taktinn sinn. Framundan er mikil vinna þar sem enn eina ferðina er ég að álpast í fjarnám með fullri vinnu og öllum þeim pakka. Nú er ég að rýna í Færeyingasögu og mun velta mér upp úr öðrum eins kræsingum næstu mánuðina.