Fór til Finnlands í byrjun mánaðarins. Fór í alvöru sauna, heimsótti Porvo, skoðaði Helsinki, naut þess að sitja alþjóðlega og andlega styrkjandi ráðstefnu og heimsótti síðan Tallin daginn áður en haldið var heim. Yndisleg ferð í alla staði!
Ég var vart komin með tærnar inn fyrir heima þegar hælarnir áttuðu sig á endalausum blaðamannafundum forsætisráðherra. Fer ekki frekar út í þá sálma.
Á meðan krónan veikist styrki ég mig með því að hlaupa um bæinn og hlusta á Gus Gus. Endorfin og adrenalín eru vinir mínir þessa dagana. Hlaupahópur Bibbu hefur orðið til þess að hlaupin verða leikur einn.
Ljóðabækurnar streyma frá Nykri þessa dagana og fljótlega fer Þórðarbók í prentun en sú bók hefur átt hug minn allan undanfarið - nánar um það síðar.
Þar fyrir utan þykist ég vera að undirbúa B.A. ritgerð sem fjallar um tónlist í ljóðum - efnið er þokukennt eins og er en vonandi skýrast línur eftir lestur á eins og 3-5 bókum. Það er freistandi að gera allt annað en að lesa og þess vegna hef ég frestað skilum til næsta vors.
Um fram allt er skemmtilegast af öllu að spjalla við dótturina sem er að uppgötva heiminn og alla hans flóknu en í senn einföldu þræði.