sunnudagur, október 14, 2012

Gildra fyrir sokkaskrímsli



Það hangir sokkur í löngu bandi fram af svölunum mínum. Dótturinni var mikið niðri fyrir þegar hún útskýrði nauðsyn þess að festa hann. Sokkurinn á að veiða sokkaskrímslið sem hefur ákveðið að koma til jarðarinnar því það frétti að á jörðinni væri svo mikið af sokkum. Hún sá sokkinn hreyfast í dag og taldi að vindurinn hefði ekki verið þar að verki.

Vonandi hefur fólkið á neðri hæðinni umburðarlyndi gagnvart sokknum sem hangir núna við stofugluggann hjá því. Vonandi gera þau sér grein fyrir mikilvægu hlutverki þessa sokks.

Ímyndunaraflinu eru engar skorður settar en ef svo er - þá er það bara ímyndun. 

Þið sem eigið sokka getið sofið örugg í nótt!

laugardagur, október 13, 2012

Haustlauf



Hér er allt að fyllast af gulum laufblöðum og það rignir. Getur verið að fyrri hluti októbers sé einn af bestu tímum ársins? Þá er vetrarrútínan komin í gang og maður kominn í æfingu að skutla krakkagríslingnum á réttum tímum í hinar ýmsu tómstundir. Maður ratar í réttar skólastofur á næstum réttum tíma og farinn að venjast nýjum andlitum í Árnagarði. Haustið er staðreynd og ennþá örlítill ilmur af sumri í jörðinni, ef maður þefar vel. Veturinn getur brostið á hvað úr hverju og skammdegið er líka á næsta leyti með öllum sínum léttþunga. Og það besta er að jólin eru ekki ennþá orðin yfirvofandi spenna. Litadýrðin minnkar smám saman og maður sættir sig við að ef það er ekki frost þá er rigning. Hér er allt að fyllast af gulum laufblöðum og um leið og ég þramma yfir þau kasta ég kveðju: „Takk fyrir súrefnið í sumar.“ Það rignir.

Annars má ég ekki vera að þessu því sonurinn (3 ára) ber í mig pönnukökur, pylsur og banana úr leir og allt yfirmáta gómsætt. Þegar hann er spurður að því hvort hann sé litli kokkurinn þá þverneitar hann og segist verið stóri kokkurinn.