Það hangir sokkur í löngu bandi fram af svölunum mínum.
Dótturinni var mikið niðri fyrir þegar hún útskýrði nauðsyn þess að festa hann.
Sokkurinn á að veiða sokkaskrímslið sem hefur ákveðið að koma til jarðarinnar
því það frétti að á jörðinni væri svo mikið af sokkum. Hún sá sokkinn hreyfast
í dag og taldi að vindurinn hefði ekki verið þar að verki.
Vonandi hefur fólkið á neðri hæðinni umburðarlyndi gagnvart
sokknum sem hangir núna við stofugluggann hjá því. Vonandi gera þau sér grein
fyrir mikilvægu hlutverki þessa sokks.
Ímyndunaraflinu eru engar skorður settar en ef svo er - þá
er það bara ímyndun.
Þið sem eigið sokka getið sofið örugg í nótt!