Á þessum tíma ársins verð ég alltaf óbærilega meyr yfir öllum þessum bókum. Á hverjum degi koma
út margar spennandi bækur. Bækur sem höfundar hafa skrifað, endurskrifað og legið yfir til fjölda ára
og blandað öllu svita og tárum. Tölvur þola ekki mikinn raka og því hlýtur kostnaðurinn að vera ærinn.
Ég hef oft reynt að skilja þetta og komast til botns í því hvers vegna þetta er svona. En ég hef
ekki ennþá komist að neinni niðurstöðu.
Ég hef líka oft reynt að finna samlíkingar sem geta varpað ljósi á ástandið. En þær renna út í
sandinn jafnóðum. Í augnablikinu dettur mér þó í hug að prufa veislusamlíkinguna. Þetta er eins og
að vera boðið í nokkurra daga veislu þar sem maður getur troðið sig út af flottum og spennandi mat
en síðan sveltur maður aðra daga ársins. Æ, þessi samlíking nær ekki langt því auðvitað grotnar matur
hraðar niður en bækur. Þessa splunkunýju bækur verða ennþá til á næsta ári. Enn eitt árið þarf ég að
sætta mig við þá bitru staðreynd að ég næ aldrei að læsa augntönnunum í alla þessa dásemd.
Þegar maður opnar kjaftinn (eða tölvuna) til að kvarta þá er það nánast heilög skylda að benda á
úrlausnir. Hér kemur það sem mér finnst að eigi að gerast í hvert skipti þegar ný bók kemur út:
* Veðurstofan leggi niður störf
* Boðuð verði skyndlokun á öllum landgrunninum
* Öllum verði gert að setja logandi kerti í glugga
* Vistmenn öldrunarheimila dansi Óla skans
* Kiljan og Víðsjá verði með beina útsendingu úr prentsmiðjunni
* Forsetinn fer í náttföt og sest með bókina í hægindastól
* Höfundurinn fer huldu höfði rétt á meðan þjóðin gleypir í sig textann og birtist ekki aftur fyrr en
lesendur hafa náð að melta efnið
* Esjan hættir, um stundarsakir, að sópa til sín allri þessari athygli
(hér er ég að lenda í miklu basli með línubil og línulengd - línurnar hafa tekið völdin í eigin hendur enda löngu
orðið tímabært)