miðvikudagur, janúar 31, 2007

Þá hef ég kvatt starfsfélaga með trega í annað skipti á einu ári. Tárin eru gufuð upp af stýrinu.
Framundan er upplestrarkvöld Nykurs næsta föstudagkvöld kl. 21 á Litla ljóta andarunganum. Allir aðdáendur ljóða til sjávar á sveita velkomnir.
Hér kemur auglýsingin:

Útgáfu- og upplestrarkvöld Nykurs

Fögnum! Út eru komnar þrjár ljóðabækur hjá útgáfu- og skáldafélaginu Nykri! Því efnir Nykurinn til upplestrarkvölds.

Staður: Litli ljóti Andarunginn við Lækjargötu

Stund: Næstkomandi föstudagskvöld, 2. feb, kl. 21:00

Eftirfarandi Nykurskáld lesa úr nýútkomnum verkum sínum:

Emil Hjörvar Petersen : Gárungagap

Kári Páll Óskarsson: Oubliette

Arngrímur Vídalín: Endurómun upphafsins

Einnig lesa: Jón Örn Loðmfjörð og Bjarney Gísladóttir

Gestalesari kvöldsins: Kristín Svava Tómasdóttir

Allir velkomnir

Enginn aðgangseyrir!

þriðjudagur, janúar 23, 2007



Þegar ég get engan veginn munað hvenær ég fór síðast í bíó þá er tími kominn til að fara í bíó. Góður mælikvarði. Fór í gærkvöldi á Babel (ekki af því að ég fékk þá snilldarhugmynd heldur af því að Sólveig vinkona mín stakk upp á því) og mæli með henni. Samskiptaleysi, tungumálaörðugleikar, einangrun, sorg og allt þar á milli og meira til.

laugardagur, janúar 20, 2007

Frosthörkur

inn í merg. Í fyrradag kættist ég yfir gæsasporum í snjónum því þá vissi ég að þegar snjóa leysir verður ekki allt vaðandi í eplastykkjum og brauðmolum fyrir utan hjá mér. Ekki nema ég sé að halda uppi bústinni músafjölskyldu. Í kjölfarið bjó ég til nýjustu spakmælin mín: Molarnir rata til sinna - hvort sem það er mús, gæs, þúfutittlingur eða vindur þá eru örlög molanna ekki lengur í mínum höndum þegar þeir hrynja úr mínum höndum.
Annars áhugaverð þessi þörf fyrir að básúna góðverkum sínum í von um glimrandi álit annarra.

fimmtudagur, janúar 04, 2007

Tölvuvölva

Gleðilegt nýtt ár! Viðburðarríkt ár að baki. Skólastúss, tvær uppsagnir, Ameríkuferð og hundruðir góðra stunda með Freyju. Plötur ársins: Illinois með Sufjan Stevens og Garden með Zero 7. Bók ársins: Eyrbyggja. Tónleikar ársins: Nick Cave (ekki úr miklu að velja). Leiksýning ársins: Skoppa og skrítla (ekki úr miklu að velja). Maður ársins: Kiddilíus sem tók þá ákvörðun á árinu að hefja skólagöngu á því næsta.
Framundan er nýtt starf hjá STEF (þar sem ég verð lærlingur Urðar Nykursskálds), Þorrinn, febrúarafmælin öll og vaxandi birtuskilyrði seinnipartanna.

Í tengslum við fyrirsögnina verð ég að taka fram að orðið tölva er eitt best heppnaða nýyrði síðustu aldar en það er sett saman úr orðunum völva og tala. Orðið tölva beygist í öllum föllum með -ölv-í stofni. Hins vegar segja margir talva sem er einmitt áhugaverð áhrifsbreyting sem orðið völva varð fyrir fyrr á öldum. Í forníslensku beygðist orðið völva, völu, völu, völu (sbr. Völuspá, ekki völvuspá og reyndar með öðru hljóði en númtíma ö). Síðan varð hlutfallsbundin áhrifsbreyting frá orðum eins og gata sem varð til þess að völva varð vala í nefnifalli. Síðan varð útjöfnun beygingardæmis það sem viðskeytið -v- er alhæft og aftur varð hlutfallsbundin áhrifsbreyting frá orðum eins og gata sem leiddi til orðsins valva í nefnifalli. Orðið tölva hefur væntanlega þess vegna tilhneigingu til að beygast sem talva.
Þessi æsispennandi fróðleikur er bara til að minna mig á að 12. des. síðast liðinn skrópaði ég í próf sem leiðir til þess að næsta sumar mun ég liggja yfir fróðleik sem þessum og freista þess að taka mitt fyrsta sumarpróf. Og verð altalandi á víkingatungu (bókstaflega). En fram að vori læt ég skólabækur eiga sig.