Gleðilegt nýtt ár! Viðburðarríkt ár að baki. Skólastúss, tvær uppsagnir, Ameríkuferð og hundruðir góðra stunda með Freyju. Plötur ársins: Illinois með Sufjan Stevens og Garden með Zero 7. Bók ársins: Eyrbyggja. Tónleikar ársins: Nick Cave (ekki úr miklu að velja). Leiksýning ársins: Skoppa og skrítla (ekki úr miklu að velja). Maður ársins: Kiddilíus sem tók þá ákvörðun á árinu að hefja skólagöngu á því næsta.
Framundan er nýtt starf hjá
STEF (þar sem ég verð lærlingur
Urðar Nykursskálds), Þorrinn, febrúarafmælin öll og vaxandi birtuskilyrði seinnipartanna.
Í tengslum við fyrirsögnina verð ég að taka fram að orðið
tölva er eitt best heppnaða nýyrði síðustu aldar en það er sett saman úr orðunum
völva og
tala. Orðið tölva beygist í öllum föllum með -ölv-í stofni. Hins vegar segja margir
talva sem er einmitt áhugaverð áhrifsbreyting sem orðið
völva varð fyrir fyrr á öldum. Í forníslensku beygðist orðið völva, völu, völu, völu (sbr. Völuspá, ekki völvuspá og reyndar með öðru hljóði en númtíma ö). Síðan varð hlutfallsbundin áhrifsbreyting frá orðum eins og gata sem varð til þess að völva varð
vala í nefnifalli. Síðan varð útjöfnun beygingardæmis það sem viðskeytið -v- er alhæft og aftur varð hlutfallsbundin áhrifsbreyting frá orðum eins og gata sem leiddi til orðsins
valva í nefnifalli. Orðið tölva hefur væntanlega þess vegna tilhneigingu til að beygast sem talva.
Þessi æsispennandi fróðleikur er bara til að minna mig á að 12. des. síðast liðinn skrópaði ég í próf sem leiðir til þess að næsta sumar mun ég liggja yfir fróðleik sem þessum og freista þess að taka mitt fyrsta sumarpróf. Og verð altalandi á víkingatungu (bókstaflega). En fram að vori læt ég skólabækur eiga sig.