fimmtudagur, ágúst 30, 2007
laugardagur, ágúst 25, 2007
Ég minnist þessi ekki að hafa nokkurn tímann þrifið af jafn mikilli gleði og ánægju og í gærkvöldi. Þessi ómælda gleði stafaði af því að loksins loksins er prófið í íslensku máli að fornu búið og nú get ég snúið mér að rykkornum (sem ekki er skortur á hér um slóðir) í staðinn fyrir wa-stofan, ija-stofna, wan-stofan og aðra won-stofna.
Hins vegar lærði ég skemmtilega ljóðrænar setningar við lesturinn mikla. Setningar á borð við ,,afturvirk fjarlíking", ,,framvirk samlögun" og margt fleira.
föstudagur, ágúst 17, 2007
Í staðinn
fyrir að mæta á stórtónleikana á Laugardalsvelli í kvöld hef ég tekið þá ákvörðun að leggjast yfir forna beygingu lýsingarorða. Í kjölfarið mun ég get snúið mér að fornri beygingu atviksorða og fornafna á næstu dögum. Ég mun ekki síður svitna en tónleikagestirnir.
miðvikudagur, ágúst 15, 2007
ATH
Útgáfu- og skáldahópurinn Nykur stendur fyrir þéttri og spennandi ljóðadagskrá á Austurvelli kl. 22-23 á Menningarnótt, laugardaginn 18. ágúst.
Eftirfarandi skáld lesa úr ljóðum sínum:
Andri Snær Magnason
Davíð Stefánsson
Emil Hjörvar Petersen
Kári Páll Óskarsson
Toshiki Toma
Sigurlín Bjarney Gísladóttir
Arngrímur Vídalín
Andri Örn Erlingsson
Nína Salvarar
Þetta er þrælgóð blanda af gömlum og nýjum skáldum - Andri Snær og Davíð hafa gefið út allnokkrar ljóðabækur, Emil, Kári, Arngrímur og Sigurlín Bjarney hafa öll nýverið gefið út sín fyrstu verk, og Toshiki Toma, prestur innflytjenda á Íslandi, mun nú í haust gefa út fyrstu ljóðabók sína, Fimmta árstíðin. Andri Örn og Nína eru svo nýjustu og ferskustu meðlimirnir í Nykri.
Allir velkomnir, aðgangur að sjálfsögðu ókeypis - kl. 22-23 á Austurvelli - rétt fyrir flugeldasýninguna.
sunnudagur, ágúst 12, 2007
Af Kjalvegi
Gangan um Kjalveg gekk vel en reyndi ansi vel á vöðva, liðamót og hugarfar. Að vera algjörlega síma- og fréttalaus var svolítið skrítin upplifun. Fyrsta dagleiðin var frá Hvítárnesi til Þverbrekknamúla um 13 km leið sem tók um 4-5 klst í norðan roki (og stundum moldroki). Skálinn við Þverbrekknamúla er ótrúlega notalegur og þar gátum við hvílt okkur vel, enda líkaminn eflaust í áfalli yfir óvæntu álagi. Til dæmis hef ég nýrun grunuð um að hafa farið á einhvern yfirsnúning. Á myndinni er Sólveig við vörðuna sem vísar leið að brúnni ógurlegu yfir Fúluhvísl. Á næstu mynd sést í brúna og Hrútfell gnæfir yfir. Frá brúnni var stutt í skálann.
Það voru þungir og stirðir fætur sem héldu af stað daginn eftir út í drungalegt veður og framundan um 20 km dagleið til Hveravalla. En það rættist úr veðrinu, vindinn lægði og sólin kom upp. Auk þess var landslagið mun fjölbreyttara en deginum áður og ótrúlega hressandi að stika upp brattlendi þegar maður er búinn að kjaga á jafnsléttu endalaust. Þrír hælsærisplástrar björguðu mér alveg.
Síðan komum við inn í grösugan Þjófadal og skálinn þar er ótrúlegt krútt. En við nýttum hann bara í að hita vatn á brúsa og svo var haldið áfram. Hefði ég verið sauðaþjófur hér í firndinni hefði Þjófadalur verið góður valkostur fyrir sumardvöl.
Það er algengt að heilu hestastóðin fari þessa leið og þess vegna gengum við mest í troðningum. Á vegi okkar urðu m.a. syngjandi lóur og tortryggnar kindur. Að lokum mættum við á Hveravelli og þá var ég búin að ganga í um 2 klst með þrjósku og þrautseigju að vopni. Gangan tók bara um 8 klst en það er líka alveg nóg. Á Hveravöllum beið okkar heit laug, hrein föt, grillkjöt og rauðvín.
Við fengum fínt veður (fyrir utan rokið fyrsta daginn) en daginn eftir að göngunni lauk kom rok og rigning og ekki hundi út sigandi.
Strax um kvöldið staulaðist ég um eins og farlama gamalmenni. En aðeins tveimur dögum síðar var eins og ekkert hefði í skorist - ótrúlegt hvað líkaminn jafnar sig fljótt.Við fengum fínt veður (fyrir utan rokið fyrsta daginn) en daginn eftir að göngunni lauk kom rok og rigning og ekki hundi út sigandi.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)