Það getur tekið á að klífa gangstéttarkanta og forða sér undan bílum sem flæða um strætin eins og jökulár. Fyrir áhugasama um fjallgöngur á malbikinu í Reykjavík í bland við bókmenntir þá verður ganga í kvöld kl. 20. Sjá hér: www.bokmenntir.is
Staðalbúnaðurinn verður eflaust gps/áttaviti, gönguskór og hrein eyru.
fimmtudagur, júlí 31, 2008
Ferðin
Á öðrum degi skildum við tjaldvagninn eftir í botni Patreksfjarðar og tókum stórgrýtta, snarbratta og þrönga veginn niður að Rauðasandi. Þessir vegir eru ekki fyrir lofthrædda. Á Rauðasandi var mikið rok en við skoðuðum samt fjöruna og fengum okkur síðan vöfflur á flotta kaffihúsinu við Saurbæ.
Á þriðja degi vöknuðum við í brakandi blíðu og tókum stefnuna á Látrabjarg. Það er ólýsanlegt að koma að svona stóru bjargi sem yðar af lífi og gargi.
Eftir að hafa pakkað saman hófum við fjórða daginn á kaffiheimsókn að Hrafnseyri, fæðingarstað Jóns Sigurðssonar. Hrafnseyrarheiði fékk blóðþrýstinginn til að stíga en þetta hafðist á 20-30 km hraða. Í Þingeyri átum við tjaldvagnasmurðar samlokur (sparnaðarráð í dýrtíðinni) og fórum í sund eftir að hafa skoðað víkingaslóðir. Eftir það var brunað beint á Ísafjörð. Við komum okkur fyrir í Tungudal, rúntuðum um bæinn og fengum okkur síðan sveitta og gómsæta hamborgara á Cafe Amma Habbý á Suðavík en ég mæli með þeim skemmtilega stað.
Fyrir háttinn var tekin stutt kvöldganga um Tunguskóg.
Á fimmta degi héldum við um hina frægu Óshlíð til Bolungarvíkur. Við rúntuðum um bæinn í rigningargráma og í sjoppunni var loksins hægt að skipta út kælikubbum en maturinn var við það að skemmast í hitanum í kæliboxinu. Önnur þemaspurning ferðarinnar var: ,,Skiptið þið út kælikubbum?"
Sjötti dagur hófst á því að við fórum aftur til Flateyrar. Kiddi hafði spurt frænda sinn í hálfkæringi kvöldið áður hvort væri kayakleiga á Flateyri. Með það sama var síminn tekinn upp, hringt í rétt númer og bókaður tími. Kiddi hvarf á kayak í tvo klukkutíma. Við mægður veifuðum honum og komumst að því að bíllinn var orðinn rafmagnslaus. Planið var að fara í sund svo við vippuðum töskunum úr bílnum og röltum af stað. Á leiðinni í sund ákvað ég að fara frekar í kaffi til Soffíu sem ég og gerði. Soffía skutlaði okkur síðan til Mundu þar sem við fengum okkur kaffi og Grétar frændi kom og gaf bílnum start (en Soffía skutlaði mér áður að bílnum). Vegalengdir eru ekki miklar í svona litlu þorpi en samt keyrir fólk allt enda miklu fljótlegra. Það var skemmtilegt að koma aftur í Flateyri og hitta aftur frændurna. Eftir þetta óvænta ævintýri var brunað til Ísafjarðar og keyptur miði í bátsferð til Vigurs. Í Vigri var allt krökkt af uppstökkum Kríum (gestir fengu lífsnauðsynlegt prik til að verjast goggi).
Sjöundi dagur fór mest í heimför. Keyrðum beina leið til Flókalundar eftir sjoppustopp á Þingeyri. Þegar við komum að Flókalundi kom í ljós að við þurftum að bíða ansi lengi eftir Baldri. Því brunuðum við á Bíldudal, fengum okkur kaffi á matstofunni en gáfum okkur ekki tíma til að heimsækja ,,Melodíur minninganna" en gerum það bara næst. Fórum með Baldri til Stykkishólms og skiluðum tjaldvagninum. Brunuðum síðan heim með viðkomu í hefðbundinni vegasjoppu.
Fyrir þau ykkar sem eruð ennþá að lesa þá vil ég enda þetta á þremur atriðum sem ég sá að einkenna Vestfirði (og ég hef hvergi séð annars staðar):
* Yfirbyggðir fiskihjallar
* Skilti á húsum sem segja ,,Varúð, hætta á snjóhruni af þaki"
* Stólar, borð og kaffi við sundlaugarbakka
mánudagur, júlí 14, 2008
Vestfirðir framundan
Þá er fjögurra vikna sumarfrí hafið. Fríið byrjaði á því að tölvan mín losaði sig við öll forrit, þar með talið netið. Það er ótrúleg lífsreynsla að hafa kvöldið framundan og geta valið á milli lesturs, skrifs og sjónvarps. Lesturinn hefur haft yfirhöndina og nú er ekkert um annað að ræða en krota texta í skyssubókina. Það krefst útsjónasemi og nýrrar hugsunar að lifa án word, excel og netsins. Núna sit ég á Borgarbókasafni og kemst þar á netið, slík er fíknin.
Framundan er vikuferð um Vestfirði og spennan magnast. Vestfirðingar eiga hrós skilið fyrir flottan vef: www.vestfirdir.is.
Stefnan er tekin á Baldur, Rauðasand, Hnjót, Látrabjarg og síðan er algjört möst að skoða "Melodíur minninganna" á Bíldudal. Að öðru leyti er ekkert planað nema vonandi fáum við kaffi á Flateyri.
Framundan er vikuferð um Vestfirði og spennan magnast. Vestfirðingar eiga hrós skilið fyrir flottan vef: www.vestfirdir.is.
Stefnan er tekin á Baldur, Rauðasand, Hnjót, Látrabjarg og síðan er algjört möst að skoða "Melodíur minninganna" á Bíldudal. Að öðru leyti er ekkert planað nema vonandi fáum við kaffi á Flateyri.
þriðjudagur, júlí 08, 2008
Ógn
Víða svitna ráðamenn yfir yfirvofandi hryðjuverkaógn og vissulega er sú ógn slæm. Einhvern veginn finnst mér stafa meiri ógn af siðblindum viðskiptamógúlum. Þegar fjársterkir aðilar og jafnvel hópur þeirra sér einhvers staðar gróðavon þá er hún nýtt hverjar sem afleiðingarnar verða fyrir almenning. Getur verið að almennum borgurum standi meiri ógn af því en hryðjuverkum?
Siðapostulinn
er kominn upp í mér þessa dagana. Kannski ég ætti að setja upp síðu sem bendir á hnignandi siðferði samborgaranna og fá ábendingar frá lesendum. Hver veit nema að ég fengi dálk um málefnið á síðum blaðanna. Siðapostulinn tekur til máls.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)