föstudagur, febrúar 20, 2009

Á leið til vinnu og aftur heim


Frá og með áramótum byrjaði ég að nota strætisvagna til að komast í og úr vinnu. Tek innanbæjarstrætó í Kópavogi og næ síðan leið 1 beina leið í vinnuna og er um 5 mínútum lengur en ef ég færi á bílnum. Á leiðinni get ég lesið blöðin eða hlustað á góða tónlist.

Vagnarnir sem eru notaði í innanbæjarstrætó eru ekki eins glæsilegir og sá sem er á myndinni. Þetta virðast vera vagnar á síðasta snúningi og alltaf eitthvað nýtt sem kemur upp á þeim 7 mínútum sem það tekur mig að komast til og frá Hamraborginni.

Einn vagninn er með bilaða bjöllu og á stórum miða hjá bílstjóranum kemur fram að farþegarnir verða að hrópa vilji þeir láta stoppa. Annar vagninn virðist vera með bilaða bjöllu sem kveikir á sér sjálfkrafa. Sá vagn er alltaf að stoppa og við þrír farþegarnir sem vorum í honum um daginn höfðum ekki snert á bjöllunni og enginn steig út. Ekki nema draugar hafi verið með í för. Sumir vagnarnir eru þannig að það tekur hurðirnar óratíma að opnast og þá þurfa allir að vera mjög þolinmóðir.

Best er þó að lenda í vagni hjá pólska bílstjóranum sem er með reitulegt hár sem vex í allar áttir. Hann hlustar viðstöðulaust á útvarp Latabæ með allt í botni.