mánudagur, september 10, 2012

Adieu

Fyrir rúmlega viku síðan skilaði ég lyklunum að íbúðinni í Engihjallanum. Það er óneitanlega furðuleg tilfinning að eiga ekki lengur erindi í Kópavoginn og vera ekki lengur brunandi eftir Nýbýlaveginum oft á dag. Núllpunkturinn hefur færst úr stað.

Þrátt fyrir það sem margir halda (já fordómarnir leynast víða) þá er alveg hreint yndislegt að búa í Engihjallanum, sérstaklega í þessari númer ellefu. Útsýnið út að Keili og nágrannarnir hver öðrum ljúfari og indælli. Abdesselam í A íbúðinni lagaði fyrir mig brotna Palesander borðið hennar ömmu og Guðrún í C var alltaf að bjóða mér í kaffi. Sómahjónin í númer C voru líka stöðugt að hleypa mér inn til sín þegar ég læsti mig úti og fékk að prufa smá loftfimleika og klifra á milli svala til að komast inn til mín. Þá jesúsaði hún sig alltaf á svölunum og varð guðslifandi fegin þegar ég komst yfir heil og höldnu. Svo er Rósa oft á svölunum í næsta húsi og þá var hægt að spjalla með því að kalla á milli eða bara skutlast yfir.

Þegar maður lítur út um gluggann í Engihjallanum er alltaf einhver að koma eða fara, öskrandi barnahópar og ólgandi orka. Eins og er þá er líka skemmtileg blanda af ungu fólki, gömlu fólki, frumbyggjum, drykkjuhrútum og góðtemplurum og alls konar öllu mögulegu.

Og þegar maður mætti á viðburði eins og þegar kveikt var á jólatrénu í Hamraborgðinni þá var skemmtilega þorpsleg stemning þar sem örfáar hræður mættu og allir virtust þekkja alla (nánast).

Það var sem sagt fröken verðtrygging sem sparkaði mér út, því miður auk þess sem endurstillingar á núllpunktum eru stundum nauðsynlegar.

Þá er ég mætt í Reykjavíkina sem ég er byrjuð að kalla Biðlistaborgina en það virðist vera raunin að öll grunnþjónusta er ódýrari í Reykjavík en en á móti kemur að skólabörn fá ekki öll pláss á frístundaheimilum og lenda á biðlista. Hvort ætli sé betra?

Hér er síðan hægt að lesa um fræga Engihjallaveðrið sem allir eru ennþá að tala um: http://www.skjaladagur.is/2010/101-01.html

Nú þarf ég bara að vera dugleg að bruna Nýbýlaveginn til að snapa mér kaffi í gamla hverfinu mínu og kynnast síðan nýjum nágrönnum á nýjum stað - spurning að banka upp á og biðja um kaffisopa :-)

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Svei mér þá ef þú ert ekki búin að selja mér að það sé gott að búa í Engihjalla.
ÁHB