mánudagur, nóvember 24, 2014

Takk, kæru tónlistarkennarar!

Þið vitið það kannski öll en ég vil samt endurtaka (varúð smá prédikun): Tónlistin hefur heilunarmátt, lækningamátt og það að spila, semja og/eða njóta tónlistar eru gífurleg andleg verðmæti. Tónlistin fer nefnilega beint inn í líkamann og umbreytir frumunum (mín prívat kenning, órökstudd), sefar, huggar, kætir, grætir.

Í 10 ár fékk ég að læra á píanó og stúdera með því tónfærði, hljómfræði, tónheyrn og tónlistarsögu. Í einn vetur prufaði ég líka að læra á gítar. Þetta var í tónlistarskóla Sandgerðis og síðar í tónlistarskóla Keflavíkur. Síðan bættist við eitt ár í orgelnámi (gekk ekki alveg nógu vel) með tilheyrandi tónheyrn og kirkjutónlistarsögu.

Ég vil fá að þakka þessum kennurum fyrir að auka lífsgæði mín og auðga líf mitt:
Píanó: Margrét Pálmadóttir (1 vetur), Björg Ólínudóttir (1 vetur), Frank Herlufsen (margir vetur) og Guðmundur Magnússon (margir vetur).
Gítar: Þórarinn Björnsson
Orgel: Árni Arinbjarnarson
Ýmsar aðrar greinar: Oliver Kentish, Eiríkur Árni Sigtryggsson, Smári Ólason, Guðrún Tómasdóttir (tók smá söng í tónskóla þjóðkirkjunnar) og svo voru tímarnir hjá Þórarni Björnssyni í tónlistarsögu ógleymanlegir.



Satt best að segja veit ég ekki hvar ég væri í dag ef ég hefði ekki fengið að glamra í öll þessi ár. Stundum skil ég ekki þolinmæðina sem mamma sýndi þegar ég tók Czherny æfingar dag eftir dag, viku eftir vikur og svo mánuðum og árum skipti. Dúrar og mollar í tveimur áttundum með brotnum hljómum og krómantískum skölum. Svo endaði ég ferilinn á toppnum þegar ég flutti fuglslega tónlist eftir Olivier Messiaen í 6. stigs prófinu.


Allt í einu er ég farin að naga mig í handabökin yfir því að hafa hætt en í dag glamra ég öðru hverju og dusta þá rykið af Tchaikovsky, Rachmaninoff og Bítlunum. Svo er voðalega gaman að finna hljómaganginn í Nick Cave lögum og pikka upp laglínuna. Færa það síðan yfir á gítarinn.



Tónlistarkennarar vinna ómentanleg störf þar sem börn og fullorðnir fá að finna tónlistina á eigin skinni. Og læra að æfingin skapar meistarann og að agi, æfing og seigla gefa uppskeru. Vonandi þarf verkfall kennara ekki að dragast á langinn en stjórnvöld gera sér vonandi grein fyrir því að tónlistarkennarar eru upp til hópa mjög, mjög þolinmóðar týpur.


Engin ummæli: