fimmtudagur, október 14, 2021

Hugleiðingar um grát og tár - útvarpspistill nr. 4

 Hreinsun og huggun



Kaþarsis/hreinsun/útrás

Eru tár hreinsandi? Hvernig hættum við að gráta, hvaða hlutverki gegnir huggunin. Aristóteles talaði um catharsis í bók sinni Um skáldskaparlistina í tengslum við dramatík. Samkvæmt honum hefur harmleikurinn áhrif á tilfinningar áhorfenda. Grátur er oft tengdur við hreinsun og margir segja að tárin hafi græðandi lækningarmátt. Catharsis merkir samkvæmt orðabókinni: búkhreinsun; geðhreinsun og tilfinningaleg útrás, en ég kýs að nota orðið hreinsun. Hugmyndin um grát og tár sem hreinsandi afl á sér langa og hlykkjótta sögu. Ólíkar sálfræðikenningar nálgast tárin á ólíkan hátt. Til eru sálfræðimeðferðir þar sem litið er á grát sem ómerkilega aukaafurð í sálrænni úrvinnslu. Margar sálfræðimeðferðir byggja hins vegar á gráti sem forsendu andlegs heilbrigðis. Menn eins og Óvíð og Seneca töluðu um jákvæð og hreinsandi áhrif tára. Gamalt indverskt spakmæli segir að tárin séu góð fyrir útlitið og samkvæmt jiddísku spakmæli gerir gráturinn hjartað léttara. Hreinsunarhugmyndin fléttaðist saman við trúariðkun í gegnum aldirnar. Á 19. öld sagði Sir Henry Mudsley að sorg sem ekki fengi útrás með tárum myndi í staðinn láta önnur líffæri gráta. Á 20. öld útskýrði sálfræðingurinn Jeffrey A. Kottler að innra með okkur sé ákveðinn táraforði sem safnast fyrir þar til allt fyllist og þá spretta tárin fram. Kottler vildi meina að þessi losun á yfirfullum táraforða væri nauðsynleg því annars myndi byggjast upp þrýstingur innra með okkur sem kæmi af stað hugsýki eða geðflækjum. Hugmyndin um hreinsunar- og losunarmátt tára er lífseig og birtist okkur enn í dag í listum jafnt sem sjálfshjálparþerapíum.

Samhyggð (e. empathy) er hugtak sem kom fyrst fram á 20. öld. Þar er fjallað um getu okkar til að setja okkur í spor annarra og finna til með öðrum og sýna samkennd eða samhyggð. Það er líka vitað að í okkur eru spegilfrumur, þær eru til dæmis virkar þegar við mötum ungabarn og opnum okkar eigin munn um leið og barnið. Er Megas kannski að tala um spegilfrumur þegar hann segir: Ef þú smælar framan í heiminn þá smælar heimurinn framan í þig? Ég trúi því að spegilfrumur séu hluti af samkennd og ástæðan fyrir því að við brestum oft í grát við að sjá aðra gráta. Grátur kallar fram samkennd/samhyggð hjá öðrum.

Huggun

Öll tár eiga sér upphaf og endi. Þau safnast fyrir í augunum af ýmsum ólíkum ástæðum, hvort sem um er að ræða djúpa sorg eða mikla gleði. Í ljóðinu Tárin fjallar Ólöf frá Hlöðum um gleði- og sorgartár, þar segir:

Dýpsta sæla og sorgin þunga
svífa hljóðlaust yfir storð.
Þeirra mál ei talar tunga,
tárin eru beggja orð.

Gleðitárin eru alveg jafn merkileg og sorgartárin. Sumir segja að þegar við grátum af gleði séum við í raun að syrgja breytingu, syrgja það hvað tíminn líður hratt, syrgja fyrri erfiðleika sem nú eru að baki. Sjálf get ég ekki horft á verðlaunaafhendingar á Ólympíuleikum án þess að gráta viðstöðulaust. Kannski er ég að samfagna með sigurvegurunum, gráta yfir þeim hindrunum sem þau hafa þurft að ryðja úr vegi, öllu erfiðinu sem þau lögðu á sig og eygi þar með von um öðruvísi uppskeru í mínu eigin lífi. Ég veit í raun ekki alveg af hverju en ég græt mikið yfir sigrum annarra.

Öll tár þorna að lokum. Það er ekki hægt að tala um grát án þess að fjalla líka um huggun. Huggunin er mikilvæg og stór hluti af lífi okkar. Hvort sem það er meðvitað eða ómeðvitað sæki ég huggun í tónlist, ljóð, list og náttúruna. Hvað með þig hlustandi góður, hvað huggar þig? Hvað gerirðu, við hvern talarðu, hvert ferðu? Furuskógar og fjörur eru sérlega góðir huggarar. Ég hef reynt það á eigin skinni og endurtek: furuskógar og fjörur eru sérlega góðir huggarar. Að standa frammi fyrir einhverju æðra virðist veitir huggun, hvað sem það heitir: æðri máttur, foss, árstíðaskipti, öldurót, skógur, heiði eða fjall. Huggunin getur komið út af hlustandi eyrum, hughreistandi orðum annarra eða að við huggum okkur sjálf, hlustum eftir og hughreistum okkur sjálf. Við förum ein að ganga um furuskóg eða fjöru og látum sefast. Huggun og sefjun eru kannski, eftir allt saman, lognið á eftir storminum og á sama tíma lognið á undan næsta stormi.

Á vefnum Ísmús, íslenskum músík- og menningararfi, má heyra gamlar upptökur með viðtölum, ljóðaflutningi og söng eldra fólks. Oft er um að ræða lausavísur og þjóðkvæði sem þau hafa lært utanað í bernsku. Þegar leitarorðin grátur og tár eru slegin inn má sjá hve algengt það er að hugga og hvetja þann sem grætur til að hætta að gráta. Í þessum textum er aldrei hvatt til gráturs heldur þvert á móti sett fram bón um að hætta. Fyrir nútímamanninn getur þessi boðháttur, hættu að gráta, virkað svolítið hranalegur. Um leið er eitthvað ekta og kannski séríslenskt við það að segja umbúðalaus, hættu að gráta. Við þekkjum öll ,,Hættu að gráta hringaná.“ Í þessum vísum er sá sem grætur ávarpaður og hvattur til að hætta, láta huggast, fela grát sinn og hemja hann. Vísurnar heita til dæmis: Vetur kyrr og gráti gleym; Hættu að gráta litli Láfi; Við skulum ekki gráta; Gráttu ekki góða mamma; Hættu að gráta Mangi minn; Gnauðar mér um grátna kinn; Geturð ei dulið harminn þinn og Vertu ekki að gráta gluggi minn.“

Vertu ekki að gráta gluggi minn https://www.ismus.is/i/audio/id-1020849 (fyrstu 1,02 mín) 

Ólíkir menningarheimar hafa ólíka afstöðu til gráts, viðhorfin breytast með tímanum og líka í okkar eigin lífi. Tárin þjóna ólíkum tilgangi á ólíkum æviskeiðum og breytingin er augljósust þegar við umbreytumst úr ungabarni í barn og úr barni í ungling og úr unglingi yfir í fullorðinn einstakling. Við höldum áfram að breytast fram á síðasta dag og um leið þróast flókið samband okkar við þennan einfalda vökva sem bleytir kinnar okkar, hendur, kodda og pappírsþurrkur.

 


Og hér er hægt að hlusta á sjálfan pistilinn úr Víðsjá á Rás 1 þann 14. október 2021, hefst á 14. mínútu (og ég er ekki Kristjánsdóttir :-))


Engin ummæli: