þriðjudagur, desember 26, 2006

Tsunami

Í dag eru tvö ár liðin frá flóðbylgjunni á Indlandshafi. Hér er ókláraður texti sem ég skrifaði í kjölfarið.

Með titrandi tsunami tár

Lítið rumsk á botninum og skrímslið vaknaði af dvala. Reis upp og æddi af stað í allar áttir, í einu. Öskraði niður í djúpið svo dimmt og svart að enginn heyrði nema næmir fiskar og dýr til stranda. Bungaðist yfir hafflötinn og þegar kom að landi setti það upp vegginn og skellti sér yfir allt sem á vegi þess varð. Gekk á land og murkaði lífið úr hverri tóru.

Á landakortinu eru dregnar öruggar línur milli lands og sjávar og tunglið togar hafið fram og til baka. En hafið gekk á land og át lítil börn, óheppna ferðamenn og fátækt bóndafólk. Sölumaður sólgleraugna hvítnaði með munninn fullan af sjó. Sóldýrkandi sá sólina aftur, liðinn. Kornabarn sveif með straumnum úr örmum. Sárfætt kona stóð í rústunum, leitandi ellefu barna sinna. Ellefu brosandi munna, tuttugu og tveggja dansandi fóta.

Áður en aldan kom sogaðist sjórinn frá landi. Þúsundir spriklandi fiska lágu á þurru landi og fólkið þeysti út að ströndinni, til að týna fiska og taka myndir. Til að ganga í opinn dauðann.

Ég týndi úrinu mínu, giftingarhringnum, skóm og sokkum. Ég týndi barninu mínu. Ég týndi lífi. Hef ekki ennþá fundið það, er í þann veginn að gefa upp alla von. Í þann veginn að týna líka voninni. Ég mun aldrei í lífinu gleyma táraflóðinu sem ég drukknaði í. Þeir sem stóðu og horfðu á okkur deyja dóu líka, lífsþorstinn hvarf og sorginn gekk á land og murkaði lífslöngun úr öllu kviku.

Heilar breiður af blómum. Þúsundir blóma á þúsund ofan. Með titrandi tár, sem tilbiðja guð sinn og deyja.

sunnudagur, desember 24, 2006

Kveðja



Til hamingju með jólin til ykkar beggja sem gægist hér inn. Ég gat ekki valið á milli þessara gömlu jólakorta, þau fá því bæði að fljóta með. Hafið það sem best með von um viturlegt bloggbull á nýju ári. Njótið og þakkið!

miðvikudagur, desember 20, 2006

Vaskr maðr

Nú er höfuðið á mér að springa af fróðleik um Íslendingasögurnar. Prófið verður ekki fyrr en kl. 13:30 á morgun og eftir það byrjar jólaundirbúningurinn fyrir alvöru. Jólarykið hefur dreift sér um alla íbúð og kannski fær það bara að vera áfram, jólaryk er betri kostur en jólastress. Og nýlega tók ég þá viturlegu ákvörðun að vera ekki í skóla á næstu önn heldur setja kennsluréttindanámið á salt og leyfa því að súrna vel í einhvern tíma. Þá get ég notið þess að lesa allt sem tönn á festir og geta valið sjálf bókakostinn (ég fæ vatn í munninn).

miðvikudagur, desember 06, 2006

Mig grunar að síminn minn sé hleraður. Það er alltaf einhver draugur á línunni, niðurbældur hósti. Stundum heyri ég andardrátt í miðjum allegorískum samtölum um veðrið. Við móðir mín erum alltaf jafn undrandi á því hvað veðrið er ólíkt í Keflavík og Kópavogi. Nú mun ríkissaksóknari eflaust biðja sýslumanninn hér í bæ að rannsaka málið - nú þegar ég hef tjáð grundsemdir mínar. Og ég mun biðja um gagn-hlerunarbúnað á símann.

föstudagur, desember 01, 2006

Bergmál genesis

Upprisa Nykurs orðin að veruleika og fyrsta nykraða ljóðabókin komin út eftir langt hlé. Mæli með Endurómun upphafsins eftir ungskáldið Arngrím sem er líka hátíðlegur íslenskunemi (sem hefur vonandi lesið Mín káta angist eftir Guðmund Andra Thorson).

Mæli líka með öllum þessu óþekktu, örstuttu en bráðskemmtilegu Íslendingasögum með liggja í gömlum bókum á bókasöfnum um allt land. Las nýlega Króka Refs Sögu og mæli með henni.

Annars er ég sjá fyrir endann á svakalegri vinnutörn þar sem mörg hundruð blaðsíður af skemmtilegum útboðslýsingum áttu hug minn allan. Þar komu slökkvikerfi, yfirborðsfrágangur, kúlulokar og fleira kræsilegt við sögu og nauðsynlegur kokteill að blanda ljóðum og Íslendingasögum við lestur hvers dags.