
Fjólublámi í loftinu. Tími Passíusálma fram að fyrsta sunnudegi eftir fyrsta fulla tungl eftir vorjafndægur. Reiknið nú!
Loksins loksins náði ég að klára Rigningu í Nóvember eftir Auði Ólafsdóttur. Skemmtileg og vel skrifuð bók. Ég hef í langan tíma ætlað að lesa þessa bók en alltaf hafa skólabækur og annað dundur staðið í vegi fyrir því.
Í kjölfarið var plastið rifið af annari bók sem hefur prýtt hillur mínar í eitt ár. Loksins loksins kemst ég í Karitas án titils en ég hef heyrt marga lofsama þá bók, eins og hún snerti einhverja strengi í hjörtum fólks. Fyrsti kaflinn lofar góðu og Kristín er fantagóður og þéttur penni.
Síðast en ekki síst er ég að lesa þessa sjálfshjálparbók eftir John Bradshaw í íslenskri þýðingu. Og geri merkilegar uppgötvanir í hverri setningu. Bók sem mig grunar að hafi valdið þöglum byltingum í lífi margra.
Ljóðaupplestur Nykurs var hin besta skemmtun og gekk nokkuð vel að mínu mati. Reyndar finnst mér skelfilega ógnvekjandi að lesa sjálf en kemst í gegnum það með frösum eins og ,,stígðu inn í óttann", ,,engri áhættu fylgja engin mistök" og það besta er ,,slepptu tökunum á öðrum og skoðunum þeirra".