föstudagur, september 14, 2007


Á milli tarna rýni ég í bækur.

Frá því á vormánuðum hef ég lesið þessar ljóðabækur sem ég mæli hiklaust með: Hnattflug eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur; Á stöku stað með einnota myndavél eftir Árna Ibsen og Sumir láta eins og holdið eigi sér takmörk sem er frábært bók eftir Véstein Lúðvíksson. Þar sem ég er líka svo heppin að eiga eintök af þessum bókum geta ættingjar, vinir og kunningjar fengið þær lánaðar.

Þessa stundina er ég bæði að lesa Dýrðlegt fjöldasjálfsmorð eftir Arto Paasilinna sem er full af finnskum svarthúmor og Borg eftir Rögnu Sigurðardóttur sem kemur skemmtilega á óvart.

Undir þeim bíða Ágrip af sögu traktorsins á úkraínsku eftir Marinu Lewycka og Frá gósenlandinu eftir Kirsten Hammann - en báðar voru gestir Bókmenntahátíðar í þessari viku (og ég sá þær báðar lesa upp í Iðnó). Ennþá fleiri bíða á eftir þeim og þýðir lítið að tíunda það heldur betra að slíta sig frá tölvunni yfir í bækurnar.

laugardagur, september 08, 2007

Veðurkróna



Eftir að hafa hlustað á ófáar vangaveltur í fjölmiðlum um óhagstæðar sveiflur íslensku krónunnar þá gerði ég uppgötvun í miðjum eldhúsverkum. Íslenska krónan er einfaldlega eins og íslenska veðrið. Alltaf að breytast og óútreiknanleg.
Í framhaldi fór hausinn á mér að fabúlera um að kannski hefur veðrið þessi áhrif á krónuna eða krónan þessi áhrif á veðrið. Auðvitað getum við hent krónunni út í vindinn og tekið upp evru en við getum ekki losað okkur við veðrið. Verst að geta ekki fengið krónufræðinga sem spá í sveiflurnar fram í tímann eins og veðurfræðingar spá í loftþrýsting og millibör.

Þegar hver millinn á fætur öðrum kemur og segir að krónan sé ómöguleg veit ég ekki alveg hverju ég á að trúa. Og spyr mig: getur verið að þeir sýni núna hjarðhegun? Byrjaði ein kindin að jarma og þá tóku allar hinar undir í kór?

mánudagur, september 03, 2007

Af speki

Stundum er gott að eiga Spakmælabókina þar sem má finna fræg og fleyg orð í gamni og alvöru. Því stundum þarf maður á speki að halda og í bókinni góðu er meira að segja hægt að finna glúrin spakmæli um verðbólgu. Við skulum vona að ég komist aldrei í þá aðstöðu að þurfa að nýta mér þann spakmælaflokk úr bókinni. Í ljósi útgáfubrölts sumarsins stenst ég ekki þá freistingu að birta þessi fleygu orð:

Að gefa út ljóðabók er eins og að kasta rósablaði
ofan af Mont Blanc
og bíða eftir bergmálinu.

ók. höf.