föstudagur, desember 28, 2007

Gleðileg jól


Spennan var svo mikil á aðfangadag hjá skottunni að hún hvatti móður sína allan daginn til að fara nú að elda kvöldmatinn. Því hún vissi að pakkarnir koma á eftir matnum. Í fyrsta skipti í langan tíma var hún búin með matinn sinn á undan foreldrunum. Og hvatti foreldrana óspart áfram um að klára nú matinn sinn. Síðan var farið í pakkana og óhætt að segja að þemað í ár hafi verið bleikt með prinsessuívafi. Á jóladag og annan í jólum voru síðan jólaboð um allar trissur og mjög gaman að hitta fjölskylduna og borða góðan mat. Þökkum kærlega fyrir okkur - fyrir alla pakkana, matinn og jólakortin!!

þriðjudagur, desember 11, 2007

Framundan

er m.a. upplestur hjá MFÍK sem er skammstöfun á Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna. Það er eflaust mjög göfugur félagsskapur og mér líst vel á hópinn sem les upp næsta laugardag. Sjá hér.

Fjölmennið!

laugardagur, desember 01, 2007

Það var óneitanlega hressandi í gærmorgun þegar ég hljóp úr leikskólanum eftir að hafa kysst dótturina bless og settist inn í drossíuna. Í útvarpinu var Úlfhildur Dagsdóttir að tala um bókmenntagönguna sem verður einmitt í dag kl. 14, sjá hér. Og þegar ég hélt af stað inn í kaldan og svartan morguninn sagði hún frá því að í upphafi göngunnar verður lesið úr ljóðabók sem ekki hefur mikið borið á. Þar voru komnir Fjallvegir í Reykjavík.

Það gleður textahöfund þegar textar hans gleðja aðra.