fimmtudagur, apríl 24, 2008
Fyrir nokkrum árum skrifaði ég sögu um reiðan vörubílstjóra. Þegar sagan fékk bæði verðlaun og birtingu sló að mér þeim ugg að nú myndi stétt vörubílstjóra taka sig saman og mótmæla. Ég sá fyrir mér að vera þvinguð út í kant af stórum vörubíl á miðri Reykjanesbraut þar sem ég fengi það óþvegið. Eins og svo oft áður var ótti minn ástæðulaus, sem betur fer. En það reyndist rétt sem mig grunaði: bílstjórarnir geta snúið bökum saman og verið harðir í horn að taka.
miðvikudagur, apríl 09, 2008
Póstkort frá Stokkhólmi
laugardagur, apríl 05, 2008
Rauður Fjallafálki
Ég tók áskörun Davíðs og gerðist þátttakandi í þessari Vínkeðju.
Fyrir páska fékk ég rauðvínsflösku að nafni Montefalco Rosso (af árgerð 2005) senda til mín í vinnuna frá Vín og mat. Vegna mikilla anna við skólalestur gafst því miður ekki tækifæri til að bjóða vínveittum vinum í mat til að deila bragðinu. Tók hins vegar þá stefnu (sem verður stundum þegar flott rauðvín bíður manns) að opna flöskuna, dreipa á hálfu glasi, setja tappann aftur í og geyma í ísskáp (það sagði eitt sinn vínsmetandi maður mér að væri hægt). Svo er flaskan dregin fram aftur við næsta tækifæri enda ætti flaska að geymast í ísskáp í um eina viku.
Fyrsta smakk fór fram yfir Kiljunni síðasta miðvikudag og í kvöld var þeim mikla áfanga fagnað að hafa lokið lestri á bókinni "The Medieval Saga" eftir Carol Clover fyrir lítið skólaverkefni.
Montefalco vínframleiðslan kemur frá samnefndum bæ í Ítalíu.
Ég veit eins lítið um vín og hugsast getur og þess vegna líður mér svolítið eins og dulbúnum veðurfræðingi í beinni útsendingu að reyna að rýna í veðurkort. Hér koma þær hugmyndir sem hafa sprottið fram við smakkið:
Það er ljósrautt, nei annars er það ekki meira út í vínrautt? Það er bragðsterkt og líka fullt af léttleika og þar af leiðandi örugglega gott með ítölskum mat eins og fiski, kjúklingi eða pasta. Er það sætt eða súrt? Hmm, kannski í súrari kantinum - getur verið að þessi spurning eigi betur við um hvítvín? Það er ríkt af tanníni því það situr eftir í glasinu þegar því er velt þar um. Dropar leka eftir barminum hægt og rólega eins og rigning á rúðu. Eftirbragðið er reykur, mold, gróður jarðar og tvítyngdar eikartunnur (nei hægan hægan).
Það er óhætt að mæla með flöskunni og bragðinu, hver veit nema ég bjóði góðum hópi kvenna á ítalskt kvöld með þessu víni (síðast þegar við hittumst var það Frida og Mexíkó). Hér er annars lærðari lýsing á víninu þó að mín flokkist vonandi undir meiri frumlegheit.
Ég skora hér með á Arngrím Vídalín, íslenskunema og ljóðskáld, að taka við keflinu!
Viðkvæm fegurð eða falleg viðkvæmni?
Veit ekki hvort á betur við um ,,Við og við". Eftir fjórðu til fimmtu hlustun er ég að átta mig á því að þessi diskur mun lifa með mér næstu ár. Sum laganna geta orðið kassagítars-stemmur í útileigum (með því að syngja áttund lægra). Þau mundu líka ganga fyrir stóra hljómsveit. Lék mér að því í dag að hlusta á lögin með það í huga að röddin væri þverflauta og gítarinn píanó.
Hér er sýnishorn og kaupið svo diskinn!!
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)