Hef eins og eflaust margir aðrir ýmislegt við náttúrulögmálin að athuga og vil hér koma með tillögur mínar að breyttu fyrirkomulagi:
1. Þegar konur eignast börn ætti að vaxa þriðja höndin út úr bringunni sem mundi síðan falla af þegar ungviðið hefur náð eins til tveggja ára aldri. Það liggur í augum uppi hversu hagkvæmt þetta væri fyrir bæði barnauppeldi, nám og almenn heimilisstörf.
2. Kílómetrinn er of langur - hann mætti stytta um ca. 200 m.
3. Það er óskiljanlegt að 12-13 ára börn geti frá náttúrunnar hendi eignast afkvæmi - hæfileikann til að eignast afkvæmi ætti að færa til 18-20 ára aldurs og haldast þeim mun lengur fram á miðjan aldur.
4. Það byrjar að birta til of snemma á Íslandi. Mætti hefjast í apríl (ekki febrúar) og haldast út ágúst/september.
Þar með hef ég komið með mínar athugasemdir og spurning hvort stjórnmálaflokkar geti lofað mér einhverju fyrir kosningar. Ekki nema almættið vilji taka þetta til greina. Ef ekki, verð ég eflaust að sætta mig við núverandi fyrirkomulag.
föstudagur, mars 20, 2009
föstudagur, febrúar 20, 2009
Á leið til vinnu og aftur heim
Frá og með áramótum byrjaði ég að nota strætisvagna til að komast í og úr vinnu. Tek innanbæjarstrætó í Kópavogi og næ síðan leið 1 beina leið í vinnuna og er um 5 mínútum lengur en ef ég færi á bílnum. Á leiðinni get ég lesið blöðin eða hlustað á góða tónlist.
Vagnarnir sem eru notaði í innanbæjarstrætó eru ekki eins glæsilegir og sá sem er á myndinni. Þetta virðast vera vagnar á síðasta snúningi og alltaf eitthvað nýtt sem kemur upp á þeim 7 mínútum sem það tekur mig að komast til og frá Hamraborginni.
Einn vagninn er með bilaða bjöllu og á stórum miða hjá bílstjóranum kemur fram að farþegarnir verða að hrópa vilji þeir láta stoppa. Annar vagninn virðist vera með bilaða bjöllu sem kveikir á sér sjálfkrafa. Sá vagn er alltaf að stoppa og við þrír farþegarnir sem vorum í honum um daginn höfðum ekki snert á bjöllunni og enginn steig út. Ekki nema draugar hafi verið með í för. Sumir vagnarnir eru þannig að það tekur hurðirnar óratíma að opnast og þá þurfa allir að vera mjög þolinmóðir.
Best er þó að lenda í vagni hjá pólska bílstjóranum sem er með reitulegt hár sem vex í allar áttir. Hann hlustar viðstöðulaust á útvarp Latabæ með allt í botni.
laugardagur, janúar 17, 2009
Orð í endurnýjun lífdaga
Er að fletta í gegnum gamlar nótissu-bækur. Skrýtin þessi þörf fyrir að eiga alltaf litla skrifbók við höndina til að svala skrifandi tjáningarþörf. Var rétt í þessu að fletta í gegnum eina frá árinu 1999 og sé að það ár hefur verið óvenju frjótt. Vona að það sama verði uppi á tengingnum 10 árum síðar. Rakst hér á ein drög frá 19.10.1999:
Þetta er álíka öngþveiti og ef ljósastaurunum væri kastað í haug út á miðja götu með þeim skilaboðum að þeir ættu að finna sjálfir út stöðu sína í tilverunni. Og þeir mundu ráfa um með hálftómar perur og yrðu að láta bílana margkeyra yfir sig áður en þeir kæmust að þeirri
niðurstöðu að best væri að hanga á gangstéttarbrúninni og skima ofan í drullupollana á malbikinu.
Og önnur frá 21.11.1999:
Mér líður eins og
nál í heystakki
sem borðar
úlfalda með auganu
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)