Hef meðal annars nýtt sumarið í
að glugga í gegnum hina stórmerkilegu bók „Fjarri hlýju hjónasængur“ eftir Ingu
Huld Hákonardóttur sem kom fyrst út árið 1992. Þrátt fyrir afar þungt og flókið
efni þá er bókin mjög aðgengileg og auðveld aflestrar. Þarna er
merkilegt sjónarhorn á afkima Íslandssögunnar þar sem ástin og greddan er í
raun aðalefnið og það hvernig yfirvöld hafa í gegnum aldirnar reynt að hamla,
hefta og stjórna þessum óstýrilátu kröftum í mannseðlinu.
Hvað varðar aftökur almennt eins
og drekkingar og hálshöggvanir þá kom mér á óvart að í raun fóru þær ekki
alfarið fram á Þingvöllum á 18. öld heldur líka að miklu leyti heima í héraði.
Þetta veldur því að núna lít ég landið öðrum augum. Öll þessi saklausu og
fallegu vötn fá á sig einhvern hrollkaldan og dimman blæ og ég spyr mig
óneitanlega: Getur verið að konu hafi verið drekkt í þessu vatni? Í bókinni eru
nokkuð þögull hópur sem vakti forvitni mína en það eru sjálfir böðlarnir.
Hverjir gerðust böðlar og hvernig ætli þeim hafi liðið? Við lesturinn varð ég
líka óendanlega þakklát fyrir að vera konutetur á 21. öld en ekki örvasa
vinnukona á þeirri átjándu gagntekin af óæskilegri ást.
Það er mín niðurstaða eftir
lesturinn að það hefur verið óttalegt basl að lifa af í þessu landi í gegnum
aldirnar. Óbifanleg harka og ofbeldi hefur einkennt margt og hún viðist enn
blunda í okkur. En harkan síast vonandi út með komandi kynslóðum.
Mér finnst ótrúlega flottur
kjarni í þessum orðum Ingu Huldar á bls. 31 (í umfjöllun um Ágústínus og
Miðaldakirkjuna):
Í raun reyndu
stjórnendur að staðla og einfalda ástina, þetta margslungna undur sem ýmist
hefur á valdi sínu að skapa beiska kvöl eða botnlausa sælu. Þegar hún læsir sig
eins og villieldur um líkama og sál streyma áður ókunnar orkulindir fram úr
djúpum sálarinnar, dularöfl losna úr læðingi og einstaklingurinn skynjar sinn
sanna kjarna. Heit ást logar jafnt í huga sem hjarta og brennir bæði líkama og
sál. Því má segja að ofstækisfull siðvendni og óhamið lauslæti séu tvær hliðar
á sama fyrirbrigði: flóttanum frá einlægum og hlýjum tilfinningatengslum.
1 ummæli:
Og ég hrósa líka happi að vera fædd á þessari, nei ég meina síðustu öld og það á Íslandi en ekki í Dafur.
Ég er ekki viss um að ég treysti mér i lestur á þessari bók.
Hafrún
PS
(Örvasa passar illa þarna ;)
Skrifa ummæli