fimmtudagur, ágúst 02, 2012

Af Krísuvíkurleið

Stundum langar mann bara að tjá sig. Beint inn í tómið á þessu loftþétta neti. Þá biður egóið um eitthvað flott, eitthvað djúpt, eitthvað sniðugt og krassandi. En stundum (bara stundum) nær maður að dempa þetta freka egó, pakka því ofan í tösku og senda í næsta flug til Grænlands. En það kemur alltaf aftur. Taskan dúkkar alltaf uppi við útidyrahurðina og egóið laumar sér yfir þröskuldinn. Hefur ekki einu sinni fyrir því að sýna vegabréfið.

Það var ekki þetta sem ég vildi segja. Opnaði þetta til að tjá mig um Krísuvíkurleið. Mér finnst svo skemmtilegt hvað sú leið hefur náð að lauma sér inn í orðatiltæki og vona svo heitt og innilega að Vegagerðin geri þessa leið ekki auðvelda yfirferðar (kannski hefur það gerst nú þegar, hvað veit ég sem fer of sjaldan út af mínum slóða).

Um daginn sá ég fólk tjá sig á netinu um það hvað fólk er mikil fífl. En ég vildi segja ykkur, fólk er ekki fífl. Fólk er undursamlega fallegt. Fólk er nóg, núna. Við förum bara svo skemmtilegar Krísuvíkurleiðir í samskiptum. Og erum svo undursamlega skapandi þegar við flækjum þetta einfalda líf. Þá hafið þið það! (Ætlaði að setja inn mynd af draumkenndum fjöllum frá Krísuvík en Annie Hall heimtaði pláss)

Engin ummæli: