fimmtudagur, febrúar 12, 2015

Á meðan ég geng og hlusta á lag um orð sækja á mig orð um fætur

Það er hollt að ganga eftir gangstéttum í snjó og kulda. Fara frá A til B með tónlist í eyrunum og hugsa ekkert eða bara eitthvað út í bláinn. Áðan birtust þessar spurningar: Hvaðan kemur þetta orð sköflungur? Eiga sköflungur og kálfi eitthvað sameiginlegt annað en nálægð á fótlegg? Er sköflungur sá sem veður skafla? Og þá kannski með kálf í eftirdragi? Hvaðan kemur þetta?

Finn ekki orðsifjabók á snörunni svo þetta heldur áfram að vera ráðgáta. Þar rakst ég þó á orðið sperrileggur sem er ekki síður áhugavert. Og ekki nóg með að eiga svona furðuleg orð yfir furðulega parta af líkamanum heldur getur maður allt eins búist við því að í náttúrunni leynist hóll, dalur eða fjall sem ber sama heiti (það ku víst vera til fjall sem heitir Sköflungur).

Kannski var það tónlistin sem kom þessu af stað en ég var einmitt að hlusta á þetta lag þegar sköflungar og kálfar fóru að ásækja mig:


Niðurstaða: Hugsanir spretta úr líkamanum, hreyfing á líkama skapar tengingar og býr til nýjar hugmyndir :-)


Engin ummæli: