Uppsala, 22. júlí 2016
Kæra drossía,
Ég er flutt af klakanum og skil þig eftir á malarstæði nálægt KR vellinum í Vesturbænum. Þú hefur verið auglýst til sölu. Mikið á ég eftir að sakna þín. Þetta afmarkaða rými sem færist á milli staða er svo fallegt, bakkar, beygir, bremsar, skransar. Aksturslag þitt var einstaklega ljóðrænt man ég, þú leiðst um heiminn í einstakri fegurð. Og gerir enn, það á bara önnur manneskja eftir að njóta þess. Rétt áðan sat ég í sófa og las bók eftir Teju Cole og þá rifjaðist upp fyrir mér að hann sat einu sinni í farþegarsætinu þínu. Og þá fór ég að rifja upp öll andlitin sem hafa vermt farþegarsæti þín, vá þvílík fegurð. Hér er tilraun til að rifja upp hverjir hafa setið í þessum sætum undanfarin fjögur ár.
Börnin mín
Frændsystkini
Vinir barnanna minna (best af öllu er að vera með fullan bíl af börnum á leiðinni í ísbúð, það er fátt sem toppar það)
Pabbi
Siddi bróðir
Flestar vinkonur mínar
Af erlendum höfundum man ég eftir umræddum Teju Cole (þar heillaðist hann af Telemann-disk Melkorku Ólafsdóttur), Hassan Blasim, Katja Kettu, Kjell Espmark, Georgi Gospodinov, Rachel Joyce og Madeline Miller.
Það er fátt skemmtilegra en að gefa skutl. Fara frá A til B með nýja manneskju í sætinu, reyna að hafa augun á götunni og fylgjast með umferðinni og spjalla á sama tíma um allt og allt. Það er einstakt að fá inn í bílinn ókunna manneskju og kynnast á ferðinni, taka inn landið fagra og tala.
Kæra drossía við fórum líka um landið, fórum nokkrar ferðir á Eyrarbakka og í ýmsa sumarbústaði nálægt höfuðborginni. Við héngum mikið á Reykjanesbrautinni og þú þekkir eflaust þá leið eins og bremsuborðana á þér. Svo fórum við í Hamarsfjörð, Djúpavog, Höfn, Egilsstaði og Seyðisfjörð fyrir fjórum árum. Tókum síðan Akureyri ári síðar. Já, við fórum á Lýsuhól tvisvar til að dansa yfir heila helgi, þá varstu í stuði. Við fórum oft í Kjósina í sweat og einu sinni sprakk á þér á leiðinni þangað. Svo sprakk á þér um daginn á leiðinni í Húsafell. Alltaf fékkstu vaska drengi til að koma að hjálpa þér og ringluðum eiganda þínum.
Svei mér þá þegar ég rifja upp stundir okkar saman langar mig ekkert að selja þig. En ég trúi því og treysti að þú fáir góðan eiganda sem passar þig vel. Svo þegar ég sný aftur leita ég þig uppi, elti þig á röndum og geri viðstöðulaust tilboð í þig svo að nýr eigandi gefst upp og leyfir mér að fá þig aftur.
Þar til þá, góða ferð!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli