mánudagur, september 20, 2021

Tuttugasti september tvöþúsund og sautján




I

Fyrir nokkrum dögum dreymdi mig flugslys, var með börnunum í sumarhúsi og við sáum furðulega flugvél hrapa þar nálægt, horfðum á það út um gluggann. Í kjölfarið komu út úr vélinni hálfnaktir skuggalegir menn sem báru aðra menn á milli sín og gengu framhjá sumarhúsinu, þá áttaði ég mig á því að ég kærði mig ekki um að fá þá inn til okkar og var ekki viss um það hvort ég hefði læst. Varð að taka sénsinn og kanna það, rétt náði að ýta á hurðina og læsa um leið og einn reyndi að komast inn. Stuttu seinna dreymdi mig að ég væri í kofa með syninum og að við sáum flóð fara framhjá með fljótandi bílum. Þetta var held ég aðfararnótt sunnudagsins sem flóðadraumurinn kom. Sama dag spurði sonurinn: „Mamma hvernig gúggla ég tzunami“ og ég aðstoðaði hann við það en þá reyndist það tölvuleikur sem honum þótti spennandi.

II

Gærdagurinn, sá nítjándi var eftirminnilegur. Mig minnir að það hafi rignt um nóttina en svo þegar leið á daginn þá braust sólin fram og veðrið var kyrrt og stillt. Þegar ég keyrði eftir Hringbrautinni, nálægt kirkjugarðinum, á leiðinni að sækja soninn í skólann þá stóð sterkur og litríkur regnbogi norður af borginni. Ég fór í búð og rakst þar á son kærrar vinkonu sem lést í fyrra og nefndi við hann að ég hef verið með harmonikkuna hennar og vildi skila henni. Þá kom á daginn að hann á þessa harmonikku og hafði einmitt verið að furða sig á því hvar hún hefði endað. Á sama tíma hringdi síminn minn (þetta var á kassanum) og ég varð að skella á. Hringdi svo til baka þegar ég var komin út í bíl. Þá var verið að bjóða mér starf.

III

Fór heim að gramsa á netinu, lesa lokaverkefni og reyndi að leggja mig og náði smá hvíld án þess að sofna. Sótti soninn og fór með hann á fótboltaæfingu. Á meðan æfingin var í gangi skilaði ég harmonikkunni, einu samviskubitinu minna og kannski var vinkonan sjálf að vasast í þessu og merkilegt hvað þetta gerðist allt hratt. Heimsótti síðan aðra vinkonu og við áttum gott spjall, hún hefur dottið niður í þunglyndi en var að byrja aftur á lyfjum og þau voru strax farin að virka. Sótti síðan soninn og við brunuðum heim því við vorum að fara að passa vin hans og það gekk vel. Síðan fór sonur í pössun ég bauð kærastanum út að borða því hann átti afmæli. Sótti soninn og náði stuttu spjalli við vini mína. Á leiðinni inn í Hafnarfjörðinn um kl. 20 var myrkrið að leggjast yfir og birtan var svo undarleg og falleg. Eins og myrkrið væri komið yfir jörðina en himnarnir væru ennþá bjartir. Ljósin voru svo falleg, birta frá umferð og ljósastaurum.

IV

Þetta var óbærilega fallegur dagur, nítjándi,

nánast eins og sumardagur að hausti,

grasið ennþá grænt en samt komið haust.

 

Í gær var bilið á milli lífs og dauða þunnt,

sumar og haust skullu saman.

Ég var að lesa skilaboðin,

Sigurður Pálsson kvaddi í gær.

  Sigurlín Bjarney





Engin ummæli: