fimmtudagur, október 27, 2005
Í morgun sköruðust tvær tilviljanir
í lífi mínu. Ég keyrði í frostinu vestur Álfhólsveginn á leiðinni í tíma í Lífsleikni að kenna um samkynhneigð - og í útvarpinu ómaði viðtal í Laufskálanum um samkynhneigð. ,,Skemmtileg tilviljun" hugsaði ég og lagði bílnum, en þá beið önnur bak við næsta horn. Kennslan mín frestaðist um viku þar sem leikkonan Guðrún Ásmundsdóttir var mætt á svæðið og hún valdi að tala um heim ljóðsins. Fjallaði m.a. um Jón úr Vör og las með svo miklum tilþrifum úr Þorpinu að mér vöknaði um augun. Einmitt fyrr í vikunni var ég að kenna íslensku og lét nemendur greina ljóð úr Þorpinu. ,,Skemmtileg tilviljun" hugsaði ég og fékk að heyra um músétin eintök Jóns af bókinni (kannski meira um það síðar - það rataði reyndar í ljóð í hádeginu sem síðan gufaði út í frostið með banananum sem datt úr pokanum mínum þegar ég arkaði djúpt hugsi úr búðinni). Já margar eru furðurnar í heimi kennaranemans - ætli álfarnir við álfhólsveginn hafi eitthvað með þetta að gera?
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli