laugardagur, október 22, 2005

Í Vín eru margar styttur

Skrapp í þrjá daga til Vínarborgar núna í október - þurfti að sækja námskeið um einkaleyfagagnabanka!!! Hljómar spennandi! Vín minnti mig svolítið á blöndu af Munchen og Prag. Fullt af fallegum görðum og ef maður leit upp með glæsilegu byggingunum voru alltaf einhverjir ábúðafullir englar eða heilagar meyjar að mæla mann út. Ég náði að villast eitt skiptið og af ótta við að virðast "túristi" þá hvarflaði ekki að mér að draga upp kortið á miðri götu og reka nefið ofan í það. Settist frekar inn á matsölustað og reyndar að festa ljósmyndaminni á kortið. Og það bjargaðist - komst fyrir vikið í gegnum hvern hallargarðinn á fætur öðrum. Það var furðuleg upplifun en þar sem ég ferðast svo sjaldan þá hef ég alltaf mikinn vara á mér í útlöndunum. Og þegar ég gekk um gangana á flugstöðinni þá slakaði ég á því ég vissi: ,,við erum öll túrista hér inni" - kannski túristar í eigin lífi?? Í vélinni frá Kaupmannahöfn var allt pakkað af fólki og þegar við lentum loksins gat ég stunsað út í Flugrútun (að sjálfsögðu eftir að hafa fjárfest í vinum mínum Winston og Peter Lehmann). Vegaframkvæmdir í Hafnarfirði ollu því að við rúntuðum þann bæ þveran og endilangan og þegar við loksins, loksins komum á BSÍ þá var kæruleysið alveg búið að ná tökum á mér - ég hljóp út úr rútunni - kurteis dani hljóp á eftir mér með veskið mitt (sem ég hef misst á leiðinni) og sem ég beið eftir leigubíl uppgötvaði ég: Ég gleymdi töskunni í rútunni!!! Og rútan var farin burt, taskan fór sem sagt aðra ferð á Leifstöð og ég hrósaði happi daginn eftir þegar ég sótti hana þar sem fartölvan lifði allt ferðalagið af. En ég ætlaði ekki að skrifa um Vín - frekar bók eftir Stefán Hörð Grímsson - set það í næstu færslu.

Engin ummæli: