mánudagur, ágúst 28, 2006

Sökum orðdoða fær þessi gamli prósi að fljóta hingað



Grasið sem breiddi sér yfir þær var alltaf grænt

Það skrjáfaði og hvíslaði grasið í garðinum. Blómin belgdu út brjóstin og sveifluðu mjöðmunum í golunni. Krossarnir báru þess merki að vindurinn hafði slegið þá svipuhöggum, en það var ómögulegt að geta sér til um hvað þeir höfðu sér til sakar unnið. Virtust ekki til neins líklegir þar sem þeir uxu úr gröfunum eins og sjónaukar kafbáta. Fuglarnir höfðu augljóslega reynt að drita þá niður, en án árangurs. Þeir höfðu staðist árásirnar og horfðu niður á tærnar á þeim sem lá undir moldinni. Þefuðu moldartáfýlunni að sér og fylgdust með þegar ný gröf var tekin. Margir þeirra höfðu ekkert nafn letrað á sig og engin blóm vaxandi undir handakrikunum. Þeir horfðu á tærnar á konum sem höfðu verið of góðar við alla í kringum sig. Því um leið og þær höfðu geispað golunni dóu allir ættingjar þeirra úr sorg og leiðindum. Eflaust vegna þess að þá var enginn eftir til að skipa fyrir verkum með harðri hendi. Elda matinn, segja sögur og prjóna hlý föt til að lifa veturinn af. En grasið sem breiddi sér yfir þær var alltaf grænt. Og fuglarnir höfðu sleppt krossum þeirra undan stórskotahríðinni. Rétt eins og um hlutlaust griðarsvæði væri að ræða. Stundum snérust krossarnir í hringi þegar þær kíktu út um kafbátasjónaukann, horfðu á sólina standa roðnandi upp og dáðust að sígrænni grasgröfinni. Sumar voru orðnar óþolinmóðar í biðinni eftir vegabréfsáritun.

föstudagur, ágúst 18, 2006

Modern brainwash



Búin að hlusta á þessa plötu í nokkra daga - svona rétt til að tékka á þessum Sufjan Stevens. Og þegar það koma í ljós að mér líkar tónlistin ansi vel (þökk sé heilaþvottinum) þá sá ég að það er uppselt á tónleikana í nóvember - jæks!

Óritskoðaðar gamlar glæður


Á meðan vatnskassinn
jafnar sig
býr handklæðið sig
undir átök



Óðagotið
þegar óvæntan
gest ber að garði


Kaffilyktin í loftinu
hefur alltaf eitthvað
að segja


Spýtandi munnvatns-
kirtlar þegar kakan
er borin
úr ísskápnum


Ánægjan yfir
spegilmyndinni
þegar punkturinn er
varalitaður yfir i-ið


Þegar dregið er fyrir
og kveikt á lampa
breyta skuggarnir
um lögun


Regnbarið bárujárn
í logni
gefur tjald-
tilfinningu

sunnudagur, ágúst 13, 2006



Mæli eindregið með Eyrbyggju fyrir þá sem hafa gaman af hrollvekju, átökum og blóði (og geta yfirstigið flókin ættartöl og allt of mörg mannsnöfn sem byrja á Þor..). Sögusviðið er Snæfellsnesið. Nú hefur Rigning í Nóvember tekið við og lofar mjög góðu enda Auður Ólafsd. snillingur að mínu mati eftir að ég las hina lítt þekktu bók Upphækkuð jörð.
Annars hefur streptokokka sýking sett hömlur á bloggbull og almenna vellíðan síðustu daga. Það fer vonandi að lagast þökk sé sýklalyfjum.

föstudagur, ágúst 04, 2006

Tiltekt




í geisladiskahrúgunni varð til þess að ég enduruppgötvaði Violent femmes fyrir nokkrum mínútum. Er búin að dusta rykið af spólu sem rúllar í segulbandinu (jú þau eru ennþá til) en það er eina útgáfan sem ég á af bestu plötunni þeirra. Skemmtilega hress og hrá tónlist sem kemur mér alltaf í gott skap. Mæli sérstaklega með lögunum Blister in the Sun og Add it up (for old times shake).