mánudagur, ágúst 28, 2006

Sökum orðdoða fær þessi gamli prósi að fljóta hingað



Grasið sem breiddi sér yfir þær var alltaf grænt

Það skrjáfaði og hvíslaði grasið í garðinum. Blómin belgdu út brjóstin og sveifluðu mjöðmunum í golunni. Krossarnir báru þess merki að vindurinn hafði slegið þá svipuhöggum, en það var ómögulegt að geta sér til um hvað þeir höfðu sér til sakar unnið. Virtust ekki til neins líklegir þar sem þeir uxu úr gröfunum eins og sjónaukar kafbáta. Fuglarnir höfðu augljóslega reynt að drita þá niður, en án árangurs. Þeir höfðu staðist árásirnar og horfðu niður á tærnar á þeim sem lá undir moldinni. Þefuðu moldartáfýlunni að sér og fylgdust með þegar ný gröf var tekin. Margir þeirra höfðu ekkert nafn letrað á sig og engin blóm vaxandi undir handakrikunum. Þeir horfðu á tærnar á konum sem höfðu verið of góðar við alla í kringum sig. Því um leið og þær höfðu geispað golunni dóu allir ættingjar þeirra úr sorg og leiðindum. Eflaust vegna þess að þá var enginn eftir til að skipa fyrir verkum með harðri hendi. Elda matinn, segja sögur og prjóna hlý föt til að lifa veturinn af. En grasið sem breiddi sér yfir þær var alltaf grænt. Og fuglarnir höfðu sleppt krossum þeirra undan stórskotahríðinni. Rétt eins og um hlutlaust griðarsvæði væri að ræða. Stundum snérust krossarnir í hringi þegar þær kíktu út um kafbátasjónaukann, horfðu á sólina standa roðnandi upp og dáðust að sígrænni grasgröfinni. Sumar voru orðnar óþolinmóðar í biðinni eftir vegabréfsáritun.

Engin ummæli: