Á sunnanverðu Snæfellsnesi er stór
stuðlabergsveggur sem nefnist Gerðuberg. Stuðlaberg verður til þegar hraun
kólnar á sérstakan hátt og klofnar niður í stöpla. Í Breiðholtinu er
menningarmiðstöð sem ber sama nafn, Gerðuberg, og húsið minnir um margt á
reglulegt mósaíkmunstur stuðlabergsins.
Fyrir
nokkrum árum bjó ég í Hjallahverfinu í Kópavogi og þá var oft styttra að sækja
þjónustu yfir í Breiðholtið en í Hamraborgina (og mun færri hraðahindranir á
leiðinni). Þess vegna fór ég að venja komur mínar á bókasafnið í Gerðubergi. Ég
gekk reglulega í gegnum síbreytilegt sýningarrýmið í innganginum upp tröppurnar,
með hönd dótturinnar í annarri hendi og fullan poka af bókum sem höfðu safnað
sektum í hinni hendinni. Barnadeildin á bókasafninu var vinsæl og styttan af
Grýlu nálægt afgreiðslunni vakti jafnan skelfingu dótturinnar. Stundum var
staldrað við á kaffihúsinu og öðru hverju kom fyrir að við römbuðum á
hverfishátíðir, leiksýningar eða sýningaropnanir. Myndlistarsýningarnar við
innganginn vöktu alltaf eftirtekt og römmuðu inn komu og brottför (stundum
þurfti að draga barnið út) og urðu jafnvel uppspretta fjörugra umræðna.
Smám saman áttaði ég
mig á mikilvægi þessa húss og sá hvernig það slær eins og hjarta í miðju
Breiðholtsins. Allt í einu þótti mér Breiðholtið skemmtilegur staður og fór að
öfunda það fólk sem býr nálægt Gerðubergi því það er svo nálægt bókum og
fjölbreyttri menninguna (og þar að auki með sundlaug í næsta húsi).
Spólum
nú fram til dagsins í dag, eða næstum því. Í september spruttu fram
starfsárabæklingar ólíkra menningarstofnana. Þar eru á ferðinni matseðlar
vetrarins sem menningarþyrstir borgarbúar geta virt fyrir sér og valið úr af
kostgæfni. Þetta eru stofnanir á borð við RÚV, Sinfóníuna, Þjóðleikhúsið,
Borgarleikhúsið og Tjarnarbíó. Í kringum nóvember/desember ár hvert þegar
jólabókarflóðið er í hámarki birtast í blöðunum úttektir sérfræðingar á bestu
og verstu bókakápunum. Þetta tíðkast víst ekki þegar kemur að
dagskrárbæklingum. Þegar rennt er yfir starfsárabæklinga haustsins kennir ýmissa
grasa og yfirleitt fléttast vel saman upplýsingagjöf í fallegri umgjörð myndefnis.
Það kom skemmtilega á óvart að fá vetrardagskrá RÚV í einum bæklingi sem gefur áhorfendum/áheyrendum
góða yfirsýn yfir starfsemina. Í bæklingaflóðinu sker bæklingurinn frá
Gerðubergi sig hins vegar úr með mynd á forsíðunni af málverki eftir Katrínu
Matthíasdóttir. Umbrotið er ólíkt öllum hinum, stórt plakat í stærð A2 sem er
brotið í átta hluta eins og landakort.
Dagskráin í bæklingi Gerðubergs
spannar ágúst til desember og þegar mest lætur eru alls 13 viðburðir í einum og
sama mánuðinum. Þar eru fjórar gerðir af kaffihúsi: handverkskaffi, spilakaffi,
bókakaffi og heimspekikaffi. Þar að auki eru jazztónleikar og klassískir
tónleikar einu sinni í mánuði. Ólíkar myndlistarsýningar eru á tímabilinu,
ýmsir fyrirlestrar sem tengjast bókmenntum og Café Lingua kynnir í hverjum mánuði
eitt tungumál. Á fimmtudögum er fræðsla um ýmislegt eins og sjálfsrækt,
foreldrahlutverkið, mannréttindi. Í gegnum tíðina hafa reglulega verið haldin
Ritþing í Gerðubergi þar sem sjónum er beint sérstaklega að einum höfundi
hverju sinni. Í október verður þingað um Jón Kalman Stefánsson.
Gerðuberg er ein af
menningarstofnunum Reykjavíkurborgar og hefur verið starfandi í rúmlega 30 ár.
Eins og þegar hefur komið fram er Borgarbókasafnið þar til húsi en líka
félagsstarf eldri borgara. Kvæðamannafélagið Iðunn heldur þar fundi og
Möguleikhúsið er reglulega með leiksýningar fyrir börn. Þarna mætast
kynslóðirnar í húsi sem minnir um margt á mósaíkmunstur stuðlabergsins.
Í
miðbænum er hvergi hús eins og Gerðuberg. Kannski getur aldrei orðið til hús
eins og Gerðuberg í miðborg Reykjavíkur þar sem listagreinar hólfa sig niður í
sérstök hús og allt er svo miklu stærra í sniðum en í einu úthverfi. Það er
eitthvað alveg sérstakt við Gerðuberg sem er ekki til staðar annars staðar í borginni.
Vantar okkur ekki fleiri Gerðuberg um alla borg, allt frá Grafarholti til Granda?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli