Þú sæla heimsins svalalind,
ó, silfurskæra tár,
er allri svalar ýta-kind
og ótal læknar sár.
Æ, hverf þú ei af auga mér,
þú ástarblíða tár,
er sorgir heims í burtu ber,
þótt blæði hjartans sár.
Mér himneskt ljós í hjarta skín
í hvert sinn, er ég græt,
því drottinn telur tárin mín,-
ég trúi´ og huggast læt.
Þetta var ljóðið
Tárið eftir Kristján Jónsson Fjallaskáld. Í ljóðinu er tárið silfurskært
og ástarblítt, það læknar sár og ber sorgir heims í burtu. Skáldið biður tárið
um að hverfa ekki af auganu og fagnar grátinum því huggunin kemur í kjölfarið.
Þarna sjáum við fallega, tæra og jákvæða mynd af tárum. Það er þessi jákvæða
afstaða til gráturs sem gerir ljóðið einstakt. En erum við alltaf svona jákvæð
gagnvart rennandi tárum? Hvort sem tárin renna niður okkar eigin kinnar eða
einhvers annars? Sumir eru alltaf að bresta í grát á meðan aðrir fella ekki
stakt tár árum saman, hvað veldur?
Hvaða fyrirbæri
er þetta: grátur? Dropar sem renna eða spýtast úr augunum og kallast tár? Af
hverju lekur vökvi úr augum mannsins þegar hann upplifir öfgakennda tilfinningu
á borð við sorg, trega og gleði? Hvernig umgöngumst við tár og grátur?
Hvað er þetta,
til hvers er þetta og hvað gerum við við þetta fyrirbæri sem grátur er? Má hver
sem er gráta hvar sem er?
Við eigum ríkt
myndmál í tengslum við grátur og tár. Við tölum um: að brynna músum,
öskurgrátur (nýtt), krókódílatár, að vökna um augun, að beygja af, að fella
tár, að tárin/gráturinn brjótist fram (eins og stífla bresti), talað um að
andlit afmyndist af gráti, að vera grátgjarn, sígrátandi, stutt í tárin, að
gráta úr sér augun. Sagt er að tilfinningarnar báru hann/hana ofurliði, talað
er um táradal og að vera í táraflóði. Til er lag sem heitir ,,Cry me a river.“ ,,Ég
fékk kusk í augað“ segir fólk til að gefa í skyn að það hafi grátið. Kvikmynd
getur verið tveggja vasaklúta mynd.
Hvernig þurrkum
við tár? Oftast notum við hendurnar, við notum vasaklúta í jarðarförum,
pappírsþurrkur á meðferðarstofum (þunnur pappír sem skrapar ekki augun) – á
þessum stöðum er reiknað með gráti, þar er gráturinn hluti af heilunarmeðferð.
En tár eru ekki
alltaf velkomin.
Af einhverjum
flóknum sálrænum ástæðum brest ég oft í grát þegar einhver beinir reiði sinni gagnvart
mér, ég tala ekki um ef ég hef brugðist eða klúðrað einhverju. Þá verða augun
mín rauð, fyllast af vatni sem lekur niður kinnarnar. Yfirleitt reyni ég að
stöðva strauminn, þurrka með vísifingri og jafnvel handabaki. Ég skammast mín
fyrir þetta, ég missi stjórn. Nefið fyllist af slími og mér finnst ég afskræmd
og ljót, rjóð og blaut og á valdi einhvers sem ég stjórna ekki. Helst vil ég fá
að gráta í einrúmi, þannig að enginn sjái þessa afhjúpandi berskjöldun, svo
enginn sjái sorg mína og úrræðaleysi.
Ég var 11 ára
þegar báðar ömmur mínar létust með stuttu millibili. Ég veit ekki hvort það var
þá eða síðar þegar afar mínir kvöddu þessa jarðvist en ég man eftir mér á
hörðum kirkjubekk í Hvalsneskirkju að reyna að hemja tárin. Það fór mikil orka
í það að reyna að halda aftur af tárunum, leyfa engum að sjá þau og ég
sannfærði sjálfa mig um að seinna, þegar ég kæmi heim og yrði ein þá myndi ég
leyfa þeim að streyma. Í gegnum tíðina hefur mikil orka farið í það að gráta
ekki innan um aðra. Að bresta ekki í grát í miðri strætóferð, að fólk sem ég
mæti á göngu sjái ekki rauð augun.
Af hverju
upplifi ég mig eins og eitthvað afskræmt skrímsli þegar ég græt? Af hverju
þessi feluleikur með tárin, þessa upplifun og tilfinningu? Erum við kannski
fallegust þegar við grátum? Ég veit að þegar ég fékk börnin mín í fangið í
fyrsta sinn þá var grátur þeirra það fallegasta sem ég vissi. Grátur ungbarna
bjargar lífi þeirra, gefur foreldrum og öðrum í kring vísbendingar um að
eitthvað þurfi að gera: gefa mat, losa loft úr maga eða knúsa og kjassa. Við
komum í þennan heim með þann eiginleika að gráta svo að þörfum okkar verði
mætt. Smám saman lærum við að hemja og bæla gráturinn, fela tárin.
Þegar við
fæðumst verðum við að geta grátið því það bjargar lífi okkur. Af hverju er grátur
ekki eitt af því sem hverfur með auknum þroska, af hverju fylgir gráturinn
okkur lífið á enda? Hver er tilgangurinn með því?
Þegar opinber
persóna brestur í grát fyrir opnum tjöldum ratar það gjarnan í fjölmiðla og
grátsins getið í fyrirsögn. Í kosningabaráttunni árið 2017 grét Inga Sæland í
beinni útsendingu yfir slæmum kjörum fátækra, öryrkja og aldraðra. Sitt sýndist
hverjum. Árið 2019 varð það fréttaefni að forsætisráðherra, Katrín
Jakobsdóttir, klökknaði í pontu á Alþingi eftir að hafa svarað athugasemdum
þingmanna um heimild til að greiða bætur til sakborninga og aðstandenda í
Guðmundar- og Geirfinnsmálunum. Fyrr á árinu grét Sölvi Tryggvason í eigin
hlaðvarpsþætti og Sigmar Vilhjálmsson birti mynd af sér grátandi að horfa á
gráturinn. Sitt sýndist hverjum. Það var og er áhugavert að skoða breiddina í
viðbrögðunum, allt frá samkennd og hluttekningu yfir til fordæmingar og reiði.
Einstaklingar, hópar og samfélög hafa komið sér upp viðmiðum um það hver megi
gráta og hvar, hvenær það sé viðeigandi að gráta. Vei þeim, sem grætur á röngum
tíma og röngum stað.
Tár eru aldrei hrein, þau renna alltaf í
samhengi við kinnina sem þau leka niður af, innri átök þess sem grætur og líka
hvar og hvenær gráturinn á sér stað. Þau renna í samhengi við viðbrögð og líðan
þess sem verður vitni að tárum. Tár eru alltaf blandaður kokteill, einföld en
flókin í senn. Óbærilega flókin.
Hér er hægt að hlusta á sjálfan pistilinn sem var fluttur 2. september í Víðsjá á Rás 1, hann hefst á mínútu 30,25.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli