fimmtudagur, september 30, 2021

Hugleiðingar um grát og tár - útvarpspistill nr. 2

 Tilfinningatár og grátur kynjanna



 


Tilfinningatár


Til forna trúðu menn því að tárin kæmu úr heilanum. Að heilinn yrði fyrir þrýstingi frá hjartanu og tárin væru til að ná jafnvægi. En svo voru tárakirtlarnir uppgötvaðir og annað kom á daginn.

Ekki eru öll tár eins því til eru þrjár tegundir tára: stöðug tár, viðbragðs- eða ertingartár og tilfinningatár. Stöðugu tárin eru hinn stöðugi raki augnanna, bleytan sem sér til þess að við sjáum og getum hreyft augun, þau renna yfir augun í hvert skipti sem við blikkum. Viðbragðstárin koma vegna ertingar þegar við fáum sandkorn í augun eða skerum lauk. Þessi tár vernda augun og hreinsa þau. Sálrænu tilfinningatárin eru af geðrænum toga og tjá tilfinningaástand. Þessar þrjár gerðir tára eru ólíkar að efnasamsetningu þegar kemur að hormónum og próteinum.

Tilfinningatár eru stærri og með 20% meira prótein en viðbragðstár skv. rannsókn Williams Frey frá um 1977.

William Frey fann það líka út að í tárum er hátt hlutfall mangans og líka ACTH hormónsins (adrenocorticotropic hormone). En hátt hlutfall mangans í heila fylgir víst þunglyndi auk þess sem ACTH hormónið er tengt stressi. Það að augun losi þessi efni út með tárum átti því að vera heilnæmt og sanna lækningamátt tára skv. niðurstöðum hans. Bent hefur verið á að í raun séu tár ekki gagnleg leið til að losa út efni þar sem megnið af þeim fer aftur inn í augun og þar með inn í líkamann. Þessar niðurstöður hafa því ekki staðist tímans tönn.

Margir segja að þeim líði betur eftir að hafa grátið. Einu sinni heyrði ég konu segja að það væri ,,gott að gráta smá skvettu,“ og halda svo áfram. Grátur getur verið tengdur uppgjöf en í sumum tilfellum hefði sá sami getað gert eitthvað í málunum í staðinn fyrir að gefast upp og gráta. Þannig sýna rannsóknir ekki endilega að þau okkar sem gráta meira en aðrir séu hamingjusamari, það er líklegra að við séum að glíma við þunglyndi eða depurð. Margar ólíkar kenningar hafa komið fram um tilgang gráts, sagt hefur verið að hann sé til þess að koma á jafnvægi og losa um spennu úr líkamanum, að sá sem gráti sé að kalla á athygli, að grátur hamli þunglyndi eða sé til þess að halda nefkokinu röku en svo hafa komið fram rannsóknir sem allar hrekja þessar kenningar.

Margir kannast eflaust við það að hafa einhvern tímann grátið yfir bíómyndinni Titanic. Vitað er um einstaklinga sem fóru oft að sjá myndina til að gráta. Þeir nutu þess að fá útrás og gráta í myrkum bíósalnum. Í einni rannsókn var fólk sem grét yfir sömu bíómyndinni spurt út í ástæður þess að þau grétu. Þá kom á daginn að þau grétu af ólíkum ástæðum. Við getum því verið saman grátandi í hóp, horfandi á það sama en ástæðurnar fyrir tárunum geta verið eins ólíkar og við erum mörg.

Það er ekki til algild regla sem segir hvenær, hvar og hvers vegna fólk grætur. Bryndís Jónsdóttir byggði BA verkefni sitt í sálfræði á rannsókn á gráti íslenskra háskólastúdenta árið 1997 og hún segir að samskipti eða tengsl virðist algengasta ástæðan fyrir því að við grátum og „Flestir gráta aðeins í stutta stund, einir heima hjá sér að kvöldlagi.“ Ein af niðurstöðum hennar sýndi að konur grétu meira en karlar og þær töldu grát þjóna jákvæðara hlutverki. Fjórar algengustu tilfinningarnar sem bæði kynin höfðu upplifað þegar þau grétu síðast voru dapurleiki, vanmáttur, reiði og kvíði.

https://www.youtube.com/watch?v=Xezht3RGuSQ

Grátur kynjanna

Ólíkur grátur kvenna og karla hefur mikið verið rannsakaður. Kynin og tilfinningar þeirra eru tengdar svo mörgum klisjum og mýtum að mér finnst ég vera að hætta mér út á hálan ís. Ég er enginn sérfræðingur í gráti kynjanna, ég er bara forvitin.

Margar rannsóknir sýna að konur gráta meira, af meiri krafti og oftar en karlar. Það er þó ekki ljóst hvers vegna konur gráta meira, hvort það sé líffræðilegt eða frekar félagslega samþykkt. Getgátur eru uppi um að styrkur hormónsins prólaktíns í blóði hafi þar eitthvað að segja.

Ungabörn gráta jafn mikið hvort heldur um stelpur eða stráka er að ræða en hins vegar virðist verða breyting þar á um 13 ára aldur þegar strákar byrja að gráta minna en stelpur. Það er hugsanlegt að hormón hafi þar áhrif en þá eykst prólaktín í líkama stelpna og testósterón í líkama drengja.

Prólaktín og jafnvel önnur hormón gætu því verið svarið við því hvers vegna konur gráta meira en karlar þó að bæði kynin upplifi sterkar tilfinningar í sömu aðstæðum.

Brené Brown er bandarískur félagsfræðingur sem hefur lengi rannsakað berskjöldun (e. vulnerability). Eftir rannsóknir og viðtöl í fjölmörg ár komst hún að þeirri niðurstöðu að berskjöldun er eitt af lykilatriðum hamingjunnar. Það að geta gengist við skömm sinni, og sýnt hana, sé á einhvern hátt heilandi. Brené segir að til þess að tilfinningin geti kallast berskjöldun þurfi hún að vera óþægileg. Í berskjöldun afhjúpar maður sjálfan sig og sýnir hliðar sem maður skammast sín mikið fyrir og sá sem hlustar getur notað það gegn manni síðar. Til að byrja með rannsakaði hún bara konur en það breyttist þegar karlmaður spurði hana út í það og benti á að dætur sínar og eiginkona myndu frekar vilja sjá hann deyja en falla niður af hvíta hestinum. Þessi ummæli urðu til þess að hún fór að skoða berskjöldun og skömm út frá körlum. Í viðtölum viðurkenndu margar konur að þær fylltust viðbjóði þegar þær sáu eiginmenn sína gráta. Karlar eru hvattir til að gráta en svo þegar á hólminn er komið og þeir láta vaða þá eru viðbrögðin oft óþægindi og jafnvel reiði.

 

Í desember árið 2019 birtist grein í tímaritinu Frontiers in Psychology þar sem Heather J. MacArthur sagði frá niðurstöðum rannsóknar sinnar á gráti karla og kvenna. Þar kom í ljós að staður og stund skipta máli þegar grátur kynjanna fær jákvæð eða neikvæð viðbrögð. Þegar karlar eru í umhverfi þar sem þeir hafa þegar sannað karlmennsku sína eins og í íþróttum, kraftlyftingum, fótbolta og fleira eru þeir bæði líklegri til að sýna meiri breidd tilfinninga og gráta. Það er hálfpartinn reiknað með því að karlar gráti þegar þeir tapa fótboltaleik og það er félagslega samþykkt. Myndi þessi sami karl til dæmis gráta í störfum sínum sem hjúkrunarfræðingur, sem er talið „hefðbundið umhverfi kvenna“, þá fengi hann allt önnur viðbrögð. Í rannsókn MacArthurs voru borin saman viðbrögð ólíkra einstaklinga við gráti karls og konu í starfi sem slökkviliðsmaður og við gráti karls og konu í starfi sem hjúkrunarfræðingur. Viðbrögðin voru jákvæðari gagnvart grátandi karli sem var slökkviliðsmaður, tárin hans þóttu viðeigandi og ásættanleg í ríkari mæli en tár hjúkrunarfræðinga af báðum kynjum og tár konu í slökkviliðinu. Þessar niðurstöður eru víst í samræmi við fyrri rannsóknir sem sýna að karlmennska virðist í meira mæli en kvenleiki byggja á ákveðnu stigveldi, þar sem hinir ráðandi fá meira frelsi og aðgang að valdi en hinir lægra settu. Viðbrögðin við gráti karla virðist því byggja á því hve karlmannlegir eða kvenlegir þeir eru taldir vera.

Að lokum

Hér hef ég talað um þá hefð að rannsaka kynin tvö og velt því upp hvað aðgreinir þau og hvað ekki. Um leið er ég að taka þátt í og renna stoðum undir heimsmynd þar sem kynin eru bara tvö, en svo er ekki. Nú þarf að breyta öllum rannsóknum og skoða fleiri litbrigði kynsins. Gráta kynsegin einstaklingar og transfólk meira eða minna en aðrir? Erum við núna að búa til félagslegt kerfi sem segir hvar og hvenær transfólk má gráta og sýna tilfinningar yfir höfuð?

Minnihlutahópar búa við öráreiti sem fylgir jaðarsetningu þeirra og því fylgir djúp sorg og sorgin brýst út í reiði, pirring og gráti. Lífið er nógu erfitt og margt til að gráta yfir. Mennskunni fylgja vonbrigði, slys, sorgir, sjúkdómar og dauðinn sjálfur. Grátur, reiði og sorg jaðarsettra er afleiðing af ranglátu samfélagi og bætist ofan á lífsflækjuna. Við berum ábyrgð á að hugga jaðarsetta með réttlátara samfélagi.



---------------------------------------------

Heimildir:

Bryndís Jónsdóttir. 1997. Maðurinn, dýrið sem grætur. Óbirt BA ritgerð í sálfræði frá Háskóla Íslands. Umfjöllun með leyfi höfundar.

Lutz, Tom. 1999 (kilja 2001). Crying, The Natural & Cultural History of Tears. W.W. Norton & Company, New York, London.

MacArthur, Heather J. 2019. „Beliefs about Emotion are Tied to Beliefs about Gender: The Case of Men‘s Crying in Competitive Sports.“ Frontiers in Psychology. Vol.10, 2019. https://www.frontiersin.org/article/10.3389/fpsyg.2019.02765      

 Hér er pistillinn í Víðsjá, hefst á mínútu 26.

Engin ummæli: