mánudagur, maí 30, 2005

Þrjóska fram í rauðan dauðann

Jæja best að halda áfram að tala við daufdumban heiminn - öskra inn í þögnina í logninu en það heyrir enginn í mér því allir eru staddir í hávaðaroki sem ýlfrar fyrir eyrum þeirra. Sé að þessi bloggheimur er flókinn - sumir maka krókinn á því að vitna í aðra bloggara (sem elska sjálfir að í þá sé vitnað og lesa því slík blogg) og út um allt eru blogg um önnur blogg. Tilvísanakerfi þar sem maður upphefur sjálfan sig (og aðra í leiðinni) með því að vitna í mæta menn (karlmenn eru sérstaklega góðir í þessu, þ.e. að vitna í hverja aðra) og þar með opinbera eigin kúlheit.
Er gremja í orðum mínum? Má vera, þá er best að renna fyrir trantinn og halda í háttinn. Góða nótt! Megirðu eiga góðar hlymfarir í nótt.

sunnudagur, maí 15, 2005

Hlymur var einn í heiminum!!

Úff ég kann ekkert á þetta bloggbull. Kann ekki að finna önnur blogg, kann ekki að leita eftir nöfnum eða innihaldi eða nokkru gagnlegu. Mér finnst ég ein í heiminum. Búin að stofna síðu sem enginn veit af og enginn les - eins og ég standi í mannþröng í miðri borg og það sér mig enginn og heyrir enginn hvað ég segi. Sama þó ég segi fallegustu orð sem til eru, með klámkjaft eða dómsdagsorð á vörunum þá sér mig enginn. Því ég er ósýnileg. Hlymur sem heyrist ekki.
Er þetta kannski hámark sjálfshyggjunnar - að tala við sjálfan sig fyrir framan alheiminn í þeirri öruggu trú að enginn heyri - ég get alveg eins dáðst að spegilmynd minni og ekki samkjaftað við gyðjuna hinum megin!

Útgáfudraumar

Jæja þá halda draumarnir áfram að herja á mann - súrrealískir og fjarstæðukenndir eins og draumum er einum lagið. Mig langar að gefa út litla bók í sumar eða haust - helst í sumar svo ég drukkni ekki í flóðinu. Er með handrit sem er langt komið en þarf að snurfusa heilmikið - þarf bara að gefa mér tíma í snurfus (ekki bloggbull). Kemur í ljós hvort buddan eða bankinn fjármagni þetta eða hvort ég gugni á endasprettinum!!

föstudagur, maí 13, 2005

Það er nýr hlymur í skrokknum

Ef skrokkurinn er bloggheimurinn þá er nýr hlymur kominn fram!! Það þarf ekki að fara í grafgötur með það mikið lengur hlymur þýðir hljómur.
Búinn að klóra mér í höfðinu í margar vikur ,,núna verð ég að prufa svona blogg-bull" en bíddu bíddu ,,hvað á bloggið að heita???" Og þar hefur allt stoppað. Álíka stór spurning og ,,hvað á barnið að heita?"
Tók skyndiákvörðun áðan og opnaði íslenska orðabók og HLYMUR hljómaði af síðunni.