Það var þokumóða við ströndina þegar hann gekk frá sjoppunni í verbúðina. Sjávarmistur við landganginn þegar hann færði töskuna frá þreyttu höndinni yfir á þá sprækari. Og svo aftur til baka. Það sem átti að vera ein vertíð í litlu þorpi, eitt ævintýri áður en landshlutaflakk hæfist, varð að fimmtíu árum í þessu þorpi. Súlka, eiginkona, barn, hús og grafa. Fimmtíu ár af vinnu, með fjallið yfir sé og þokumóðu í nösunum, á stöku stað.
Þetta vissi hann ekki þegar hann gekk yfir í verbúðina og hugsaði að nú þyrfti hann að venjast því að hafa fjall austan megin við sig, ekki vestan, og haf vestan megin við sig, ekki austan. Og þokumóðan minnti á heimaslóðir en seinna, fimmtíu árum síðar, vissi hann sem er: þoka er óalgeng í þessum landshluta.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli