laugardagur, desember 17, 2005

Ég var einu sinni tónlistarnörd

Heillaðist af Messiaen og keypti ævisögu hans í erlendri bókabúð. Límdi upp á vegg mynd af honum þar sem hann stendur með alpahúfu í miðjum frönskum skógi að skrifa niður fuglasöng.
Gekk svo langt að kaupa viðtal við hann á geisladiski og þegar diskurinn var kominn í tækið kom í ljós að viðtalið fór fram á frönsku sem ég skildi lítið í.


Fór ein á tónleika sinfóníuhljómsveitar Bournemouth til að hlusta á Vorblót eftir Stravinsky, átti erfitt með mig því mig langað að hoppa úr sætinu og dansa. Rútan sem flutti mig á tónleikana var full af ellilífeyrisþegum með silfurgrátt hár í kollum. En þetta var fyrir rúmlega 10 árum síðan.

Og ég missti mig í brit-poppinu í kringum 1994-1997. Heillaðist af Elastica og fannst Justin Frischermann söngkonan ansi kúl, þar sem hún var þáverandi kærasta Damons í Blur og fyrrverandi hans Brett Anderson í Suede - ansi kúl stelpa. Hvað ætli hún sé að gera núna? Ætli Elastica sé ennþá til? Kannski er hún að troða upp í kvöld á pub í Sheffield, heimabæ Pulp.


Komst á snoðir um Kristin Hersh og uppgötvaði Blond on Blond og Desire með karlinum Bob. Að ógleymdu Waits æðinu sem hefur enn ekki hjaðnað. Hann átti afmæli 7. des síðastliðinn. Verst hvað mann langar alltaf í viskí þegar maður hlustar á hann. Og verst hvað ég og viskí eigum stutta en slæma sögu saman. Verst að mér finnst viskí ekkert sérstaklega gott.

Verst hvað hausinn á mér er fullur af gagnslitlum tónlistarupplýsingum.

Engin ummæli: