Hafdís bjó í litlu húsi við sjóinn og þar var alltaf rok. Græn málningin var byrjuð að flagna af húsinu og axlirnar á snúrunum farnar að síga undan þvottinum sem sveiflaði sér í rokinu á hverjum degi. Stundum náðu svunturnar að losa sig af snúrunum og flugu út á haf. Hún var þybbin með rauðar kinnar og bjúg á puttunum. Hárið var þykkt og sítt og féll niður á bak eins og gruggugur foss sem ýfðist upp í rokinu. Stundum leit hún upp frá þvottinum og horfði á sjóinn froðufella, brjótast um í bylgjunum og taka heljarstökk að landi. En það var sama hvað sjórinn reyndi, hann sogaðist alltaf til baka. Og á hverjum degi var rok, en henni var alveg sama því hún vann og hamaðist eins og stormsveipur með rauðar varir. Hún skrúbbaði, skúraði, eldaði og saumaði. Hún stormaði um í sjóstormi við hafið. Karlinn hennar hét Hafliði og var langur og mjór og fölur. Alla daga formælti hann rokinu og þorði ekki út því þá fauk hann um eins og fjöður. Og hann kallaði konu sína Hafdísarmey og sá hana stundum storma framhjá. En á kvöldin lokkaði hún hann til sín með söng sem rétt heyrðist í vindinum. Og Hafliði var vindbarinn og stormsleginn eftir faðmlögin hennar sem voru eins og litlar rokrákir. Því svo var hún hlaupin aftur til starfa. Stundum gat fokið í hana þegar hann neitaði að mála húsið. Hann vildi frekar horfa á hana út um saltþveginn gluggann og formæla rokinu. Og hann var ekki glaður daginn sem hún læsti hann úti með græna málningu. Þá faðmaði hann snúrustaurana og hrópaði á hjálp framan í vindgusurnar. ,,Við búum á síprumpandi hjara í einhverju rassgati," sagði hann og vildi flytja á betri slóðir. Röddin hennar yfirgnæfði rokið, hún hrópaði ,,nei!" og við það sat.
Tímarit Máls og Menningar, september 2005
1 ummæli:
Gargandi snilld! Meira, meira!
Skrifa ummæli