fimmtudagur, desember 01, 2005

Af huldumanni


Það stefnir í að bókin Sumarljós og svo kemur nóttin eftir Jón Kalman Stefánsson verði jólabókin í ár frá mér til mín. Ég stökk hæð mína af gleði úr græna sófanum yfir Kastljósinu áðan þegar sú bók var tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna enda höfundurinn fantagóður. Reyndar hafði ég stokkið nokkrum sekúndum áður yfir bókinni Hrafninn eftir Vilborgu Davíðsdóttur, það verður nýársgjöfin frá mér til mín í ár. En aftur að Jóni. Allt frá því að Sumarið bakvið brekkuna kom út hef ég reynt að lesa allt eftir hann enda heillaði sá bókaflokkur mig það mikið að ég gaf sjóaranum föður mínum allar bækurnar og hann kolféll fyrir Sumrinu og vitnaði í ,,ekkert er jafn sorglegt og skurðir í rigningu" og fleira spaklegt í heilt ár á eftir. Þegar ég síðan þurfti aftur að lesa bókina í íslenskunámi fór ég og keypti loksins bókina og þá sagði forleggjarinn mér að sígandi lukka bókarinnar kæmi á óvart þar sem höfundur hafði bannað að bókin yrði auglýst. Það þótti mér mjög virðingarvert í auglýsingahelvítinu sem allir virðast knúnir til að taka þátt í.

Engin ummæli: