laugardagur, desember 13, 2008

Þórðarbókin


Fyrir um það bil 2 vikum kom út Þórðarbókin. Ég fékk loksins í dag eintak í hendurnar. Bókin er safn 5 ljóðabóka eftir Þórð Helgason, fjórar eldri ljóðabækur og ein ný. Formáli er eftir Andra Snæ Magnason og Davíð A. Stefánsson. Flott bók með ótrúlega flottum ljóðum. Bókin er komin í dreifinu í allar helstu bókabúðir og nú er um að gera að næla sér í 5 ljóðabækur í einni bók.

Mæli með bókinni!!!

laugardagur, nóvember 29, 2008

Kostir þess að hlaupa


(að mínum dómi)
* Stórir skammtar af adrenalíni og endorfíni
* Líkamleg átök tæma hugann
* Maður fær að fylgjast með breytingum í umhverfinu: sjá jólaljósin birtast, jólaljósin fara, daginn lengjast, vorið koma, vorið fara o.s.frv.
* Hlusta á góða tónlist
* Sérstök ánægja að lesa bókina "What I talk about when I talk about running" eftir Haruki Murakami.

föstudagur, október 24, 2008

Skýrsla

Fór til Finnlands í byrjun mánaðarins. Fór í alvöru sauna, heimsótti Porvo, skoðaði Helsinki, naut þess að sitja alþjóðlega og andlega styrkjandi ráðstefnu og heimsótti síðan Tallin daginn áður en haldið var heim. Yndisleg ferð í alla staði!

Ég var vart komin með tærnar inn fyrir heima þegar hælarnir áttuðu sig á endalausum blaðamannafundum forsætisráðherra. Fer ekki frekar út í þá sálma.

Á meðan krónan veikist styrki ég mig með því að hlaupa um bæinn og hlusta á Gus Gus. Endorfin og adrenalín eru vinir mínir þessa dagana. Hlaupahópur Bibbu hefur orðið til þess að hlaupin verða leikur einn.

Ljóðabækurnar streyma frá Nykri þessa dagana og fljótlega fer Þórðarbók í prentun en sú bók hefur átt hug minn allan undanfarið - nánar um það síðar.

Þar fyrir utan þykist ég vera að undirbúa B.A. ritgerð sem fjallar um tónlist í ljóðum - efnið er þokukennt eins og er en vonandi skýrast línur eftir lestur á eins og 3-5 bókum. Það er freistandi að gera allt annað en að lesa og þess vegna hef ég frestað skilum til næsta vors.

Um fram allt er skemmtilegast af öllu að spjalla við dótturina sem er að uppgötva heiminn og alla hans flóknu en í senn einföldu þræði.

föstudagur, september 19, 2008

Í dag hef ég bara eitt að segja um veðrið í gær: Hryssingslegt!!!

Hefði ég í gær tjáð mig um veðrið í dag, hefði ég sagt það sama.

föstudagur, september 05, 2008


Ég nýt þeirra forréttinda að fá að fylgjast með þroska dóttur minnar sem er núna 4 ára.

Í leiðinni rifjast upp ýmislegt úr eigin æsku.

Rétt í þessu mundi ég þetta: Hver kannast ekki við nautnina af því að naga barbídúkkufætur?

laugardagur, ágúst 30, 2008



Tók þátt í 3 km skemmtiskokki í Reykjavíkurmaraþoni og var að rifna úr monti. Í gærkvöldi las ég ljóð á Sandgerðisdögum. Þar las líka Gunna Lísa frænka og Fríða og Smári úr Klassart (líka frændsystkini mín) tóku lagið. Skemmtilegt kvöld í gamla góða bænum mínum.

Mitt á milli skokksins og lestursins fylltist ég óvæntri sorg yfir því að John Lennon er ekki á lífi. Þar hefur heimildarmyndin um Annie Leibovitz sem var sýnd í sjónvarpinu í vikunni eflaust haft áhrif.

miðvikudagur, ágúst 06, 2008

,,Má bjóða þér afritið?"

er án efa sú spurning sem er spurð oftast á hverjum degi á Íslandi. Ég er spurð of oft.

fimmtudagur, júlí 31, 2008

Fjallganga á malbiki

Það getur tekið á að klífa gangstéttarkanta og forða sér undan bílum sem flæða um strætin eins og jökulár. Fyrir áhugasama um fjallgöngur á malbikinu í Reykjavík í bland við bókmenntir þá verður ganga í kvöld kl. 20. Sjá hér: www.bokmenntir.is
Staðalbúnaðurinn verður eflaust gps/áttaviti, gönguskór og hrein eyru.

Ferðin

á Vestfirði var einstök og ógleymanleg. Á fyrsta degi var brunað í Stykkishólm (stoppað í miðju Kerlingarskarði til að gæða sér á heimasmurðum samlokum) og tjaldvagn festur aftan í bílinn frá Tjaldvagnaleigunni sem ég mæli með: www.tjaldvagn.is. Þar sem bílferðin tók mun styttri tíma en við áætluðum skoðuðum við nýtjargað Norska húsið (og tjörulyktin fylgdi okkur í ferðinni) og rúntuðum um bæinn. Síðan tókum við Baldur til Brjánslækjar. Á myndinni sést hvernig húsmóðirin matreiðir kakósúpu í Flókalundi en þar gistum við fyrstu nóttina.

Á öðrum degi skildum við tjaldvagninn eftir í botni Patreksfjarðar og tókum stórgrýtta, snarbratta og þrönga veginn niður að Rauðasandi. Þessir vegir eru ekki fyrir lofthrædda. Á Rauðasandi var mikið rok en við skoðuðum samt fjöruna og fengum okkur síðan vöfflur á flotta kaffihúsinu við Saurbæ.
Á myndinni sést Rauðisandur til vesturs í áttina að Látrabjargi. Því næst sóttum við Tjaldvagninn og keyrðum beint að flug- og minjasafninu Hnjóti sem við skoðuðum í bak og fyrir. Skutbílinn mjakaðist í lágum gír yfir að Breiðuvík þar sem við gistum næstu nótt. Ótrúlega fallegur staður með gylltar sandstrendur. Þar náðu húsráðendur að heilla okkur upp úr skónum, mig með því að hafa 15 mínútna internet innifalið í gistingunni og Kidda með því að hafa ótakmarkað kaffi innifalið. Sá getur drukkið kaffi!
Á myndinni er Freyja í Breiðuvík að týna "fræ" til "gróðursetningar" en rauðu kornin á hundasúrublómunum voru efst á vinsældarlistanum til "gróðursetningar" og fuglafóðrunar.

Á þriðja degi vöknuðum við í brakandi blíðu og tókum stefnuna á Látrabjarg. Það er ólýsanlegt að koma að svona stóru bjargi sem yðar af lífi og gargi.
Krísuvíkurbjarg er reyndar við túnfótinn fyrir þá höfuðborgarbúa sem vilja upplifa brot af Látrabjargi. Yfir hádegisverði í Breiðuvík spurði ég húsráðendur,,Hvernig er heiðin?" (spurning sem varð einhvers konar þema fyrstu dagana enda ekkert nema grýttar heiðar á milli þorpa), svarið varð til þess að við hættum við að keyra heiðarnir við Trostansfjörð og fara frekar til baka að Flókalundi og þaðan yfir Tröllaháls að Dynjandisheiði. Við gerðum það en tókum smá útúrdúr með sjoppustoppi á Patreksfirði. Á leiðinni var hlustað á Mugison, Sigur rós, Gosa og Ávaxtakörfuna og aðstoðarbílstjórinn var alltaf tilbúinn með kortið í kjöltunni. Að lokum var ákveðið að gista við fossinn Dynjanda. Fossinn er einn sá fallegasti á landinu.
Þessi dagur var sá sólríkasti í ferðinni og skrýtið (fyrir Sandgerðing sem þekkir bara flatlendi) að verða vitna að því hvernig myrkrið skall á þegar sólin hvarf á bak við fjöllin.

Eftir að hafa pakkað saman hófum við fjórða daginn á kaffiheimsókn að Hrafnseyri, fæðingarstað Jóns Sigurðssonar. Hrafnseyrarheiði fékk blóðþrýstinginn til að stíga en þetta hafðist á 20-30 km hraða. Í Þingeyri átum við tjaldvagnasmurðar samlokur (sparnaðarráð í dýrtíðinni) og fórum í sund eftir að hafa skoðað víkingaslóðir. Eftir það var brunað beint á Ísafjörð. Við komum okkur fyrir í Tungudal, rúntuðum um bæinn og fengum okkur síðan sveitta og gómsæta hamborgara á Cafe Amma Habbý á Suðavík en ég mæli með þeim skemmtilega stað.
Fyrir háttinn var tekin stutt kvöldganga um Tunguskóg.

Á fimmta degi héldum við um hina frægu Óshlíð til Bolungarvíkur. Við rúntuðum um bæinn í rigningargráma og í sjoppunni var loksins hægt að skipta út kælikubbum en maturinn var við það að skemmast í hitanum í kæliboxinu. Önnur þemaspurning ferðarinnar var: ,,Skiptið þið út kælikubbum?"
Eftir kærkomið bað í Sundhöll Ísafjarðar var haldið til Flateyrar. Þar var okkur boðið í mat til Kidda Valda og Soffíu (föðurbróður Kidda míns) þar sem yrðlingurinn Týna vakti mikla kátínu hjá Freyju. Þaðan var haldið í kvöldkaffi til Grétars og Mundu en hann er föðurbróðir minn. Það var gaman að heimsækja loksins Flateyri og frændurnar þar, þetta litla þorpa á flatri eyri hjá stórum fjöllum. Við þökkum kærlega fyrir okkur!!

Sjötti dagur hófst á því að við fórum aftur til Flateyrar. Kiddi hafði spurt frænda sinn í hálfkæringi kvöldið áður hvort væri kayakleiga á Flateyri. Með það sama var síminn tekinn upp, hringt í rétt númer og bókaður tími. Kiddi hvarf á kayak í tvo klukkutíma. Við mægður veifuðum honum og komumst að því að bíllinn var orðinn rafmagnslaus. Planið var að fara í sund svo við vippuðum töskunum úr bílnum og röltum af stað. Á leiðinni í sund ákvað ég að fara frekar í kaffi til Soffíu sem ég og gerði. Soffía skutlaði okkur síðan til Mundu þar sem við fengum okkur kaffi og Grétar frændi kom og gaf bílnum start (en Soffía skutlaði mér áður að bílnum). Vegalengdir eru ekki miklar í svona litlu þorpi en samt keyrir fólk allt enda miklu fljótlegra. Það var skemmtilegt að koma aftur í Flateyri og hitta aftur frændurna. Eftir þetta óvænta ævintýri var brunað til Ísafjarðar og keyptur miði í bátsferð til Vigurs. Í Vigri var allt krökkt af uppstökkum Kríum (gestir fengu lífsnauðsynlegt prik til að verjast goggi).
Þar sáum við líka fullt af Lunda og Teistu. Gaman að sjá Teistuna í návígi og hennar heiðrauðu fætur en það kom mér á óvart hvað Teistan er stór. Sáum líka Kríuunga og Teistuunga. Síðan var dýrindis kaffihlaðborð í gula húsinu á myndinni eftir gönguferð um eyjuna. Áður en haldið var til skips fengum við að sjá dúnhreinsunina og minnsta pósthús á landinu. Eftir nokkra rigningu reyndist þurrt að mestu þennan dag og því grilluðum við kvöldmat við tjaldvagninn. Kvöldrúnturinn var til Suðureyrar þar sem við rúntuðum um bæinn.

Sjöundi dagur fór mest í heimför. Keyrðum beina leið til Flókalundar eftir sjoppustopp á Þingeyri. Þegar við komum að Flókalundi kom í ljós að við þurftum að bíða ansi lengi eftir Baldri. Því brunuðum við á Bíldudal, fengum okkur kaffi á matstofunni en gáfum okkur ekki tíma til að heimsækja ,,Melodíur minninganna" en gerum það bara næst. Fórum með Baldri til Stykkishólms og skiluðum tjaldvagninum. Brunuðum síðan heim með viðkomu í hefðbundinni vegasjoppu.

Fyrir þau ykkar sem eruð ennþá að lesa þá vil ég enda þetta á þremur atriðum sem ég sá að einkenna Vestfirði (og ég hef hvergi séð annars staðar):
* Yfirbyggðir fiskihjallar
* Skilti á húsum sem segja ,,Varúð, hætta á snjóhruni af þaki"
* Stólar, borð og kaffi við sundlaugarbakka

mánudagur, júlí 14, 2008

Vestfirðir framundan

Þá er fjögurra vikna sumarfrí hafið. Fríið byrjaði á því að tölvan mín losaði sig við öll forrit, þar með talið netið. Það er ótrúleg lífsreynsla að hafa kvöldið framundan og geta valið á milli lesturs, skrifs og sjónvarps. Lesturinn hefur haft yfirhöndina og nú er ekkert um annað að ræða en krota texta í skyssubókina. Það krefst útsjónasemi og nýrrar hugsunar að lifa án word, excel og netsins. Núna sit ég á Borgarbókasafni og kemst þar á netið, slík er fíknin.

Framundan er vikuferð um Vestfirði og spennan magnast. Vestfirðingar eiga hrós skilið fyrir flottan vef: www.vestfirdir.is.

Stefnan er tekin á Baldur, Rauðasand, Hnjót, Látrabjarg og síðan er algjört möst að skoða "Melodíur minninganna" á Bíldudal. Að öðru leyti er ekkert planað nema vonandi fáum við kaffi á Flateyri.

þriðjudagur, júlí 08, 2008

Ógn

Víða svitna ráðamenn yfir yfirvofandi hryðjuverkaógn og vissulega er sú ógn slæm. Einhvern veginn finnst mér stafa meiri ógn af siðblindum viðskiptamógúlum. Þegar fjársterkir aðilar og jafnvel hópur þeirra sér einhvers staðar gróðavon þá er hún nýtt hverjar sem afleiðingarnar verða fyrir almenning. Getur verið að almennum borgurum standi meiri ógn af því en hryðjuverkum?

Siðapostulinn

er kominn upp í mér þessa dagana. Kannski ég ætti að setja upp síðu sem bendir á hnignandi siðferði samborgaranna og fá ábendingar frá lesendum. Hver veit nema að ég fengi dálk um málefnið á síðum blaðanna. Siðapostulinn tekur til máls.

sunnudagur, júní 29, 2008

Þegar fólk fær dóm fyrir saknæmt athæfi og fer síðan í fjölmiðla og tjáir sig sem fórnarlömb mikils ranglætis finnst mér það bera vott um siðblindu.

þriðjudagur, júní 24, 2008

Skrásetjari

er starfsheitið mitt. Fyrir um ári síðan þegar ég hóf störf sem skrásetjari fannst mér þetta frekar hallærislegur titill og ekki flott fyrir ferilskrána. En nú þegar tíminn líður er mér farið að þykja undurvænt um þetta orð. Er bæði hreykin og stolt af þessu hlutverki. Því hvað gerir skrásetjari? Og hvað gerir skrásetjari ekki?

föstudagur, júní 06, 2008

Fyrir stuttu

dreymdi mig draum um að mig dreymdi draum um dagsetningu. Í draumnum (inni í draumnum) dreymdi mig dagsetningu fram í tímann og vísbendingarnar voru samúðarkort. Þegar ég vaknaði varð ég óendanlega glöð yfir því að draumurinn hafði bara verið draumur.

laugardagur, maí 17, 2008


Á tímum þegar ráðamenn fórna höndum, þegar Öryggisráð virðist skipta öllu máli, og þegar matar- og bensínverð vex samhliða græna litnum, er ekkert sem stöðvar skáldin í að bjóða upp á ókeypis menningu. Skáldafélagið Nykur stendur fyrir þéttri og öflugri ljóðadagskrá næstkomandi sunnudagskvöld, 18. maí, á efri hæð Barsins (með stóru b-i). Á boðstólum eru reynd skáld, hálfreynd skáld og fersk skáld; sannkölluð blóðljóðablöndun.

Nykurskáld:
Emil Hjörvar Petersen
Guðmundur Óskarsson
Halla Gunnarsdóttir
Oddur Sigurjónsson
Sigurlín Bjarney Gísladóttir
Sverrir Norland
Toshiki Toma

Gestaskáld:
Ísak Harðarson
Kristján Ketill Stefánsson

Skáldskapurinn hefst kl. 21:00 og verið öll velkomin!

þriðjudagur, maí 13, 2008

Hinn mikli leikhúsmánuður

Á sunnudaginn fór ég á leikritið Mammamamma og skemmti mér mjög vel. Flott leikrit fyrir alla sem eru mömmur, eiga eða hafa einhverntímann átt mömmu. Á mánudaginn var haldið á Skoppu og skrítlu með snúlluna og um næstu helgu skundum við mæðgurnar á Maximús Músíkús. Í lok mánaðar fer ég síðan á ,,Laddi 6tugur".

Annars er ennþá mikil hamingju í bænum þar sem öllum prófum lauk 2. maí og nýt þess að velja sjálf þær bækur sem ég les.

fimmtudagur, apríl 24, 2008

Fyrir nokkrum árum skrifaði ég sögu um reiðan vörubílstjóra. Þegar sagan fékk bæði verðlaun og birtingu sló að mér þeim ugg að nú myndi stétt vörubílstjóra taka sig saman og mótmæla. Ég sá fyrir mér að vera þvinguð út í kant af stórum vörubíl á miðri Reykjanesbraut þar sem ég fengi það óþvegið. Eins og svo oft áður var ótti minn ástæðulaus, sem betur fer. En það reyndist rétt sem mig grunaði: bílstjórarnir geta snúið bökum saman og verið harðir í horn að taka.

miðvikudagur, apríl 09, 2008

Póstkort frá Stokkhólmi

Hér sit ég á frábæru hóteli í miðborg Stokkhólmar og reyni að leysa heimaverkefni í íslensku máli að fornu. Hugurinn vill reika frá samræmdri stafsetningu frá 1300. Stundum eru þær furðulegar aðstæðurnar sem maður kemu sér í.

laugardagur, apríl 05, 2008

Rauður Fjallafálki


Ég tók áskörun Davíðs og gerðist þátttakandi í þessari Vínkeðju.

Fyrir páska fékk ég rauðvínsflösku að nafni Montefalco Rosso (af árgerð 2005) senda til mín í vinnuna frá Vín og mat. Vegna mikilla anna við skólalestur gafst því miður ekki tækifæri til að bjóða vínveittum vinum í mat til að deila bragðinu. Tók hins vegar þá stefnu (sem verður stundum þegar flott rauðvín bíður manns) að opna flöskuna, dreipa á hálfu glasi, setja tappann aftur í og geyma í ísskáp (það sagði eitt sinn vínsmetandi maður mér að væri hægt). Svo er flaskan dregin fram aftur við næsta tækifæri enda ætti flaska að geymast í ísskáp í um eina viku.

Fyrsta smakk fór fram yfir Kiljunni síðasta miðvikudag og í kvöld var þeim mikla áfanga fagnað að hafa lokið lestri á bókinni "The Medieval Saga" eftir Carol Clover fyrir lítið skólaverkefni.

Montefalco vínframleiðslan kemur frá samnefndum bæ í Ítalíu.

Ég veit eins lítið um vín og hugsast getur og þess vegna líður mér svolítið eins og dulbúnum veðurfræðingi í beinni útsendingu að reyna að rýna í veðurkort. Hér koma þær hugmyndir sem hafa sprottið fram við smakkið:

Það er ljósrautt, nei annars er það ekki meira út í vínrautt? Það er bragðsterkt og líka fullt af léttleika og þar af leiðandi örugglega gott með ítölskum mat eins og fiski, kjúklingi eða pasta. Er það sætt eða súrt? Hmm, kannski í súrari kantinum - getur verið að þessi spurning eigi betur við um hvítvín? Það er ríkt af tanníni því það situr eftir í glasinu þegar því er velt þar um. Dropar leka eftir barminum hægt og rólega eins og rigning á rúðu. Eftirbragðið er reykur, mold, gróður jarðar og tvítyngdar eikartunnur (nei hægan hægan).

Það er óhætt að mæla með flöskunni og bragðinu, hver veit nema ég bjóði góðum hópi kvenna á ítalskt kvöld með þessu víni (síðast þegar við hittumst var það Frida og Mexíkó). Hér er annars lærðari lýsing á víninu þó að mín flokkist vonandi undir meiri frumlegheit.

Ég skora hér með á Arngrím Vídalín, íslenskunema og ljóðskáld, að taka við keflinu!

Viðkvæm fegurð eða falleg viðkvæmni?


Veit ekki hvort á betur við um ,,Við og við". Eftir fjórðu til fimmtu hlustun er ég að átta mig á því að þessi diskur mun lifa með mér næstu ár. Sum laganna geta orðið kassagítars-stemmur í útileigum (með því að syngja áttund lægra). Þau mundu líka ganga fyrir stóra hljómsveit. Lék mér að því í dag að hlusta á lögin með það í huga að röddin væri þverflauta og gítarinn píanó.

Hér er sýnishorn og kaupið svo diskinn!!

mánudagur, mars 24, 2008

Af tónum



Allt of sjaldan fer maður á tónleika en það sem af er þessum mánuði hef ég farið á tvenna. Fyrst var það kammerverkið "Quator pour la fin du temps" eftir Messiaen - en 10. desember næst komandi verða 100 ár liðin frá fæðingu hans (þ.e.a.s. höfundarins, ekki kvartettsins).

Um páskana voru það síðan tónleikar með öllum helstu lögum Bítlanna - þar slógu KK og Daníel Ágúst í gegn. Daníel virðist hafa ótrúlega mikla hæfileika á ýmsum sviðum tónlistar.



Undanfarna daga hef ég síðan verið að endurnýja kynnin við "Second coming" Stone Roses - hér er upphafslag disksins, algjör snilld.

fimmtudagur, mars 20, 2008

Stokkhólmur - Ísafjörður - Helsinki

Framunda er heimsókn til kumpánlegra samstarfsfélaga hjá STIM í Stokkhólmi. Í sumar er stefnan tekin á Ísafjörð (því við höfum aldrei komið þangað, ótrúlegt en satt) með stuttri heimsókn til frænda á Flateyri (hinn frægi Grétar á Gröfunni). Hann veit reyndar ekki ennþá að við erum væntanleg en vonandi getum við kríað út eins og einn kaffibolla. Með haustinu verður síðan Helsinki skoðuð og skundað á áhugaverða ráðstefnu.

Eftir mikla páskafræðslu í sunnudagaskólanum síðasta sunnudag sagði sú 4 ára við mig: ,,Veistu á sunnudaginn langa þá breyttist Jesús í krossfisk"

sunnudagur, mars 09, 2008

Brautruðningur


Í vetrarhörkunni um daginn datt mér í hug hve dásamlega gaman það gæti verið að vinna hluta úr degi (eða heilan dag) á litlu snjóruðningstæki sem ryður gangstíga. Það hlýtur að vera þakklátasta starfið að ryðja öðrum braut.

mánudagur, febrúar 18, 2008

Sufjan

hefur verið í eyrunum á mér undanfarið eitt og hálft ár. Þegar ég hleyp, geng og strunsa, lafmóð og sveitt um stræti Kópavogs. Hér er eitt af lögunum. Mæli með honum og Illinois.

laugardagur, febrúar 09, 2008

Þegar Kiddi segir: ,,Þær mættu áðan vinkonur þínar" eða ,,Þær eru komnar, vinkonur þínar" þá veit ég að hann er að tala um gæsirnar sem eru farnar að venja komur sínar í garðinn. Núna liggja þér makindalegar í snjónum, mæna öðru hverju upp að svölunum. Það hljóta að vera fleiri en ég sem missa mola fram af svölum.

föstudagur, febrúar 08, 2008

Á kvöldum eins og þessu er fátt betra en ljóðalestur undir leslampa. Hægt að fá þrusugóðar ljóðabækur á nýjum vef Nykurs: www.nykur.is

sunnudagur, febrúar 03, 2008

Mig grunar að sunnudagsbíltúr

Björns Bjarnasonar hafi verið upp í Efstaleiti, þar sem hann ræddi við ýmsa hljóðnema. Fréttatími útvarpsins kl. 18 bar þess greinilega merki.

föstudagur, febrúar 01, 2008

Bara rétt til að gægast með höfuðið inn um gættina vildi ég benda þér á (þegar þú gægist hingað inn), að þrátt fyrir frosthörkur, er daginn farið að lengja!! Júhúúúú!!!!

þriðjudagur, janúar 08, 2008

Gleðilegt nýtt ár

Hér hefur verið rólegt að undanförnu. Upp úr jólapökkum gægðust tvær mjög góðar bækur sem ég las af áfergju yfir hátíðirnar. Fyrst las ég söguna um Bíbí og las hana eins og hverja aðra spennusögu fram á nótt. Síðan tók við Þúsund bjartar sólir og þegar ég lauk lestrinum fylltist á miklu þakklæti til þýðandans að koma þessum fjarlæga heimi til mín á íslensku. Þýðingar eru lífsnauðsynlegar fyrir menningu okkar og þýðendur eins og huldufólk sem laumar gulli í vasa fólks. Fyrir jólin náði ég að næla mér í Sandárbók Gyrðis Elíassonar á bókasafninu - bókin er rosalega góð og góð áminning um að framvinda og flókin flétta eru ekki alltaf nauðsynleg.

Síðasta laugardag prufaði ég að fara í svokallað "svett" með vinkonu minni (sjá lýsinguna hjá Sollu jöklasól) sem var einstök upplifun. Við sátum sem sagt í 3 klst. í tjaldi þar sem vatni var ausið á rauðglóandi steina og maður svitnaði heilu úthafi í fimm lotum. Þetta væri ég alveg til í að gera aftur, kannski svona einu sinni á ári.


Hversdeginum var tekið fagnandi í gær og framundan heil vinnuvika og lífið komið í gamla taktinn sinn. Framundan er mikil vinna þar sem enn eina ferðina er ég að álpast í fjarnám með fullri vinnu og öllum þeim pakka. Nú er ég að rýna í Færeyingasögu og mun velta mér upp úr öðrum eins kræsingum næstu mánuðina.