fimmtudagur, október 14, 2021

Hugleiðingar um grát og tár - útvarpspistill nr. 4

 Hreinsun og huggun



Kaþarsis/hreinsun/útrás

Eru tár hreinsandi? Hvernig hættum við að gráta, hvaða hlutverki gegnir huggunin. Aristóteles talaði um catharsis í bók sinni Um skáldskaparlistina í tengslum við dramatík. Samkvæmt honum hefur harmleikurinn áhrif á tilfinningar áhorfenda. Grátur er oft tengdur við hreinsun og margir segja að tárin hafi græðandi lækningarmátt. Catharsis merkir samkvæmt orðabókinni: búkhreinsun; geðhreinsun og tilfinningaleg útrás, en ég kýs að nota orðið hreinsun. Hugmyndin um grát og tár sem hreinsandi afl á sér langa og hlykkjótta sögu. Ólíkar sálfræðikenningar nálgast tárin á ólíkan hátt. Til eru sálfræðimeðferðir þar sem litið er á grát sem ómerkilega aukaafurð í sálrænni úrvinnslu. Margar sálfræðimeðferðir byggja hins vegar á gráti sem forsendu andlegs heilbrigðis. Menn eins og Óvíð og Seneca töluðu um jákvæð og hreinsandi áhrif tára. Gamalt indverskt spakmæli segir að tárin séu góð fyrir útlitið og samkvæmt jiddísku spakmæli gerir gráturinn hjartað léttara. Hreinsunarhugmyndin fléttaðist saman við trúariðkun í gegnum aldirnar. Á 19. öld sagði Sir Henry Mudsley að sorg sem ekki fengi útrás með tárum myndi í staðinn láta önnur líffæri gráta. Á 20. öld útskýrði sálfræðingurinn Jeffrey A. Kottler að innra með okkur sé ákveðinn táraforði sem safnast fyrir þar til allt fyllist og þá spretta tárin fram. Kottler vildi meina að þessi losun á yfirfullum táraforða væri nauðsynleg því annars myndi byggjast upp þrýstingur innra með okkur sem kæmi af stað hugsýki eða geðflækjum. Hugmyndin um hreinsunar- og losunarmátt tára er lífseig og birtist okkur enn í dag í listum jafnt sem sjálfshjálparþerapíum.

Samhyggð (e. empathy) er hugtak sem kom fyrst fram á 20. öld. Þar er fjallað um getu okkar til að setja okkur í spor annarra og finna til með öðrum og sýna samkennd eða samhyggð. Það er líka vitað að í okkur eru spegilfrumur, þær eru til dæmis virkar þegar við mötum ungabarn og opnum okkar eigin munn um leið og barnið. Er Megas kannski að tala um spegilfrumur þegar hann segir: Ef þú smælar framan í heiminn þá smælar heimurinn framan í þig? Ég trúi því að spegilfrumur séu hluti af samkennd og ástæðan fyrir því að við brestum oft í grát við að sjá aðra gráta. Grátur kallar fram samkennd/samhyggð hjá öðrum.

Huggun

Öll tár eiga sér upphaf og endi. Þau safnast fyrir í augunum af ýmsum ólíkum ástæðum, hvort sem um er að ræða djúpa sorg eða mikla gleði. Í ljóðinu Tárin fjallar Ólöf frá Hlöðum um gleði- og sorgartár, þar segir:

Dýpsta sæla og sorgin þunga
svífa hljóðlaust yfir storð.
Þeirra mál ei talar tunga,
tárin eru beggja orð.

Gleðitárin eru alveg jafn merkileg og sorgartárin. Sumir segja að þegar við grátum af gleði séum við í raun að syrgja breytingu, syrgja það hvað tíminn líður hratt, syrgja fyrri erfiðleika sem nú eru að baki. Sjálf get ég ekki horft á verðlaunaafhendingar á Ólympíuleikum án þess að gráta viðstöðulaust. Kannski er ég að samfagna með sigurvegurunum, gráta yfir þeim hindrunum sem þau hafa þurft að ryðja úr vegi, öllu erfiðinu sem þau lögðu á sig og eygi þar með von um öðruvísi uppskeru í mínu eigin lífi. Ég veit í raun ekki alveg af hverju en ég græt mikið yfir sigrum annarra.

Öll tár þorna að lokum. Það er ekki hægt að tala um grát án þess að fjalla líka um huggun. Huggunin er mikilvæg og stór hluti af lífi okkar. Hvort sem það er meðvitað eða ómeðvitað sæki ég huggun í tónlist, ljóð, list og náttúruna. Hvað með þig hlustandi góður, hvað huggar þig? Hvað gerirðu, við hvern talarðu, hvert ferðu? Furuskógar og fjörur eru sérlega góðir huggarar. Ég hef reynt það á eigin skinni og endurtek: furuskógar og fjörur eru sérlega góðir huggarar. Að standa frammi fyrir einhverju æðra virðist veitir huggun, hvað sem það heitir: æðri máttur, foss, árstíðaskipti, öldurót, skógur, heiði eða fjall. Huggunin getur komið út af hlustandi eyrum, hughreistandi orðum annarra eða að við huggum okkur sjálf, hlustum eftir og hughreistum okkur sjálf. Við förum ein að ganga um furuskóg eða fjöru og látum sefast. Huggun og sefjun eru kannski, eftir allt saman, lognið á eftir storminum og á sama tíma lognið á undan næsta stormi.

Á vefnum Ísmús, íslenskum músík- og menningararfi, má heyra gamlar upptökur með viðtölum, ljóðaflutningi og söng eldra fólks. Oft er um að ræða lausavísur og þjóðkvæði sem þau hafa lært utanað í bernsku. Þegar leitarorðin grátur og tár eru slegin inn má sjá hve algengt það er að hugga og hvetja þann sem grætur til að hætta að gráta. Í þessum textum er aldrei hvatt til gráturs heldur þvert á móti sett fram bón um að hætta. Fyrir nútímamanninn getur þessi boðháttur, hættu að gráta, virkað svolítið hranalegur. Um leið er eitthvað ekta og kannski séríslenskt við það að segja umbúðalaus, hættu að gráta. Við þekkjum öll ,,Hættu að gráta hringaná.“ Í þessum vísum er sá sem grætur ávarpaður og hvattur til að hætta, láta huggast, fela grát sinn og hemja hann. Vísurnar heita til dæmis: Vetur kyrr og gráti gleym; Hættu að gráta litli Láfi; Við skulum ekki gráta; Gráttu ekki góða mamma; Hættu að gráta Mangi minn; Gnauðar mér um grátna kinn; Geturð ei dulið harminn þinn og Vertu ekki að gráta gluggi minn.“

Vertu ekki að gráta gluggi minn https://www.ismus.is/i/audio/id-1020849 (fyrstu 1,02 mín) 

Ólíkir menningarheimar hafa ólíka afstöðu til gráts, viðhorfin breytast með tímanum og líka í okkar eigin lífi. Tárin þjóna ólíkum tilgangi á ólíkum æviskeiðum og breytingin er augljósust þegar við umbreytumst úr ungabarni í barn og úr barni í ungling og úr unglingi yfir í fullorðinn einstakling. Við höldum áfram að breytast fram á síðasta dag og um leið þróast flókið samband okkar við þennan einfalda vökva sem bleytir kinnar okkar, hendur, kodda og pappírsþurrkur.

 


Og hér er hægt að hlusta á sjálfan pistilinn úr Víðsjá á Rás 1 þann 14. október 2021, hefst á 14. mínútu (og ég er ekki Kristjánsdóttir :-))


fimmtudagur, september 30, 2021

Hugleiðingar um grát og tár - útvarpspistill nr. 3

 Grátur í trúarbrögðum, goðafræði og bókmenntum



Við getum rakið táraslóð mannsins í gegnum aldirnar. Tár hafa verið tengd við heilagleika og hetjudáðir, þau eiga að sýna heilindi fólks og þeirra innri mann. Í Biblíunni er allt vaðandi í tárum. Í Davíðssálmi nr. 56 segir: ,,Þú hefur talið hrakninga mína, safnað tárum mínum í sjóð þinn, þau eru rituð í bók þína." Hér eru dæmi úr Harmljóðunum:


Hagar var egypsk ambátt sem átti soninn Ísmael með Abraham. Hún grét eftir að Abraham hafði sent hana í útlegð í eyðimörkina en Guð heyrði grát hennar og bjargaði henni. Hina grátandi Hagar má finna víða á málverkum allt frá 17. öld.

Heilagur Frans frá Assisí missti smám saman sjónina í elli sinni og ástæðan var talin ofgnótt tára. Þarna eru tárin tengd við heilagleika, heilagur Frans var sannur, án uppgerðar og bókstaflega grét úr sér augun.

Við grátmúr gyðinga er búist við gráti og hátíðleika eða alvörugefni. Að gráta við vegginn sýnir dýpt trúarinnar.

Í íslam er sérstakur hópur grátara í pílagrímsförinni til Mekka sem kallast ,,grátandi súfistar“ og tár þeirra endurspegla heilindi þeirra og dulræna upplifun.

Jesús grét þegar hann frétti andlát Lasarusar og í Jóhannesarguðspjalli segir einfaldlega: ,,Þá grét Jesús." (Jóh. 15.35)

Á miðöldum voru tár mikilvægur hluti af trúrækni og samkvæmt sögunni voru dæmi þess að sett væri skál af vatni á höfuðið á styttu af Maríu mey og til að tryggja táraflaum var settur spriklandi fiskur í vatnið. Reglulega spretta fram tár á styttum af Maríu mey víða um heim, hún grætur yfir dauða sonar síns en líka yfir syndum heimsins.




Flest grátum við sáran þegar við missum ástvin. Ef aðeins tár okkar gætu vakið ástvin okkar til lífsins, en við vitum af biturri reynslu að svo er ekki. Samt grátum við mikið og oft og það er leiðin sem við fetum í gegnum sorgina. Tárin leiða okkur aftur inn í lífið.

Elsta ritaða heimildin um grát er á leirtöflum frá Kanaanslandi sem eru frá fjórtándu öld fyrir Krist. Á einu brotinu segir frá gyðjunni Anat sem grætur þegar hún fréttir andlát bróður síns, Ba'als. Þegar Anat grætur mettar hún sig tárum og drekkur tárin eins og vín. Droparnir úr augum hennar vekja Ba'al aftur til lífsins.

Í norrænni goðafræði býðst Hel til að hleypa Baldri aftur í ríki lifenda ef allt lifandi og kvikt grætur Baldur. Gráturinn hefst og það er auðvelt að gera sér í hugarlund hvernig þetta hefur hljómað. Allt kvikt grét, allir menn, guðir, hlutir og svo framvegis. Allt og allir grétu, nema Loki í líki tröllkonunnar Þakkar. Sá forherti sem grætur ekki kemur í veg fyrir endurkomu Baldurs. Þegar manneskja deyr gráta ástvinir og þeim líður eins og allur heimurinn, allt kvikt, gráti með þeim en kannski er alltaf einhvers staðar þurreygur Loki sem kemur í veg fyrir endurkomu og endurfundi í lifanda lífi.

Í Ummyndunum (e. Metamorphosis) Óvíðs er fjallað um Kýönu, vatnadís sem leysist upp í tárum sínum (fimmta bók, s. 155):

En Kýana, sem harmaði rán gyðjunnar og vanvirtan rétt lindar sinnar, geymdi í hljóðu hjarta sér ólæknandi und. Hún leystist öll upp í tárum og rann saman við vatnið sem hún hafði fram að þessu búið í sem gyðja. Það mátti sjá limi hennar mýkjast, bein hennar svigna, neglur hennar linast. Og fyrst allra bráðnuðu fínlegustu líkamshlutarnir, blágrænt hárið, fingur og fótleggir, því að ekki er óravegur frá grönnum limum til kalds vatns. Næst á eftir þessu leysast aclir, bak, síður og brjóst upp í mjóar vantssprænur. Og loks, í stað lifandi blóðs, rennur tært vatn inn í holar æðar hennar, uns ekkert er eftir af henni sem festa má fingur á.

Finna má fleiri sambærileg dæmi í Ummyndunum Óvíðs. Þau sem bráðna með tárum eiga það sameiginlegt að vera óhuggandi og í viðkvæmri stöðu. Allt eru þetta konur sem leysast upp vegna yfirgangs karla.

Kannski er eitthvað svipað í gangi í sögunni um Lísu í Undralandi. Þar grætur Lísa svo mikið að það myndast pollur sem stækkar og að lokum svamlar hún um í eigin tárum, hún flýtur yfir í breyttan heim.

Stundum hræðist ég grátinn því ég er hrædd um að geta ekki hætt, að ég leysist upp í tárum, að tárin láti mig fljóta yfir á ókunnar slóðir því stundum er þar stjórnlaus óreiða og ofsi.

Í Njáls sögu kom Skammkell þeirri sögu af stað að Gunnar á Hlíðarenda hefði grátið undan Otkatli. Það var dropinn sem fyllti mælinn hjá Gunnari, hann hélt af stað og drap Otkel og Skammkel.

Í Njálsbrennu er Skarphéðinn spurður hvort hann gráti (kafli 130): „Gunnar Lambason hljóp upp á vegginn og sér Skarphéðin. Hann mælti svo: „Hvort grætur þú nú Skarphéðinn?“ „Eigi er það,“ segir Skarphéðinn, „en hitt er satt að súrnar í augunum.“....“

Á vefsíðunni Snöru er hægt að kalla fram leit að þeim stöðum í heildarverkum Halldórs Laxness þar sem grátur og tár koma við sögu. Dæmin eru fjölmörg. Í Sjálfstæðu fólki kemur fram að Bjarti leiðist grátur og hann verður ráðþrota þegar Ásta Sóllilja grætur og reynir af veikum mætti að hugga hana. Ég gæti trúað því að Ásta Sóllilja sé sú persóna sem grætur hvað mest í sögunni.

Stökkvum fram til nútímans. Árið 2020 kom út bókin Aprílsólarkuldi eftir Elísabetu Jökulsdóttir og þar eru þessar harmrænu línur um grát þegar sögupersónan áttar sig almennilega á andláti föður síns:

... þá ætlaði hún að gráta einsog Dettifoss yfir því en ýtti Dettifoss sorgarinnar aftur ofaní líkamann, það var einsog það væri orðið of seint að gráta, hún var búin að læra það einsog læstur stafur á bók, að heimurinn hrynur ofaná mann ef maður grætur. Og ef maður grætur yfir einhverju þá trúir maður því. Það verður raunverulegt. Þess vegna grét hún ekki. (bls. 30)

Eitt tár sprettur úr fyrsta tárakirtlinum í árdaga og flæðir frá manni til manns í gegnum aldirnar, rennur niður kinnarnar á Maríu Mey, Jesú, dýrlingum, vatnadísum, goðum og gyðjum, hetjum og andhetjum, okkur öllum, mér og þér. Tárið er það sem tengir okkur saman, blaut augu fylgja mennskunni. Tárakirtlarnir hafa ekki verið tæmdir, þeir verða aldrei tæmdir.

Ég ætla að enda þetta á eigin ljóði úr bókinni Bjarg, við erum stödd á 7. hæð í átta hæða blokk í íbúð 7a:

Fjóla raðar böngsum með hliðum

sér skrokk þjóða úti

setur sæng yfir haus

 

muldrar í koddann:

Þú sæla heimsins svala lind

 

Um þessar mundir

gráta læknar í

sár sjúklinga

 

Skurðlæknar opna

brynna músum

og sauma fyrir

 

Ljósmæður lauga

fæðingar í

tárum sínum

 

Sálfræðingar safna

í krukkur

 

Prestar bæta þeim

í kaleikinn

 

Leikskólakennarar hafa tekið

sér stöðu við rólurnar

 

Bara tár lækna

sár

 

Fjóla dregur sæng

frá níu ára

strikuðum

kinnum





Og HÉR er hægt að hlusta (mixað af Lydíu Grétarsdóttur), hefst á mínútu 11 :-)

Hugleiðingar um grát og tár - útvarpspistill nr. 2

 Tilfinningatár og grátur kynjanna



 


Tilfinningatár


Til forna trúðu menn því að tárin kæmu úr heilanum. Að heilinn yrði fyrir þrýstingi frá hjartanu og tárin væru til að ná jafnvægi. En svo voru tárakirtlarnir uppgötvaðir og annað kom á daginn.

Ekki eru öll tár eins því til eru þrjár tegundir tára: stöðug tár, viðbragðs- eða ertingartár og tilfinningatár. Stöðugu tárin eru hinn stöðugi raki augnanna, bleytan sem sér til þess að við sjáum og getum hreyft augun, þau renna yfir augun í hvert skipti sem við blikkum. Viðbragðstárin koma vegna ertingar þegar við fáum sandkorn í augun eða skerum lauk. Þessi tár vernda augun og hreinsa þau. Sálrænu tilfinningatárin eru af geðrænum toga og tjá tilfinningaástand. Þessar þrjár gerðir tára eru ólíkar að efnasamsetningu þegar kemur að hormónum og próteinum.

Tilfinningatár eru stærri og með 20% meira prótein en viðbragðstár skv. rannsókn Williams Frey frá um 1977.

William Frey fann það líka út að í tárum er hátt hlutfall mangans og líka ACTH hormónsins (adrenocorticotropic hormone). En hátt hlutfall mangans í heila fylgir víst þunglyndi auk þess sem ACTH hormónið er tengt stressi. Það að augun losi þessi efni út með tárum átti því að vera heilnæmt og sanna lækningamátt tára skv. niðurstöðum hans. Bent hefur verið á að í raun séu tár ekki gagnleg leið til að losa út efni þar sem megnið af þeim fer aftur inn í augun og þar með inn í líkamann. Þessar niðurstöður hafa því ekki staðist tímans tönn.

Margir segja að þeim líði betur eftir að hafa grátið. Einu sinni heyrði ég konu segja að það væri ,,gott að gráta smá skvettu,“ og halda svo áfram. Grátur getur verið tengdur uppgjöf en í sumum tilfellum hefði sá sami getað gert eitthvað í málunum í staðinn fyrir að gefast upp og gráta. Þannig sýna rannsóknir ekki endilega að þau okkar sem gráta meira en aðrir séu hamingjusamari, það er líklegra að við séum að glíma við þunglyndi eða depurð. Margar ólíkar kenningar hafa komið fram um tilgang gráts, sagt hefur verið að hann sé til þess að koma á jafnvægi og losa um spennu úr líkamanum, að sá sem gráti sé að kalla á athygli, að grátur hamli þunglyndi eða sé til þess að halda nefkokinu röku en svo hafa komið fram rannsóknir sem allar hrekja þessar kenningar.

Margir kannast eflaust við það að hafa einhvern tímann grátið yfir bíómyndinni Titanic. Vitað er um einstaklinga sem fóru oft að sjá myndina til að gráta. Þeir nutu þess að fá útrás og gráta í myrkum bíósalnum. Í einni rannsókn var fólk sem grét yfir sömu bíómyndinni spurt út í ástæður þess að þau grétu. Þá kom á daginn að þau grétu af ólíkum ástæðum. Við getum því verið saman grátandi í hóp, horfandi á það sama en ástæðurnar fyrir tárunum geta verið eins ólíkar og við erum mörg.

Það er ekki til algild regla sem segir hvenær, hvar og hvers vegna fólk grætur. Bryndís Jónsdóttir byggði BA verkefni sitt í sálfræði á rannsókn á gráti íslenskra háskólastúdenta árið 1997 og hún segir að samskipti eða tengsl virðist algengasta ástæðan fyrir því að við grátum og „Flestir gráta aðeins í stutta stund, einir heima hjá sér að kvöldlagi.“ Ein af niðurstöðum hennar sýndi að konur grétu meira en karlar og þær töldu grát þjóna jákvæðara hlutverki. Fjórar algengustu tilfinningarnar sem bæði kynin höfðu upplifað þegar þau grétu síðast voru dapurleiki, vanmáttur, reiði og kvíði.

https://www.youtube.com/watch?v=Xezht3RGuSQ

Grátur kynjanna

Ólíkur grátur kvenna og karla hefur mikið verið rannsakaður. Kynin og tilfinningar þeirra eru tengdar svo mörgum klisjum og mýtum að mér finnst ég vera að hætta mér út á hálan ís. Ég er enginn sérfræðingur í gráti kynjanna, ég er bara forvitin.

Margar rannsóknir sýna að konur gráta meira, af meiri krafti og oftar en karlar. Það er þó ekki ljóst hvers vegna konur gráta meira, hvort það sé líffræðilegt eða frekar félagslega samþykkt. Getgátur eru uppi um að styrkur hormónsins prólaktíns í blóði hafi þar eitthvað að segja.

Ungabörn gráta jafn mikið hvort heldur um stelpur eða stráka er að ræða en hins vegar virðist verða breyting þar á um 13 ára aldur þegar strákar byrja að gráta minna en stelpur. Það er hugsanlegt að hormón hafi þar áhrif en þá eykst prólaktín í líkama stelpna og testósterón í líkama drengja.

Prólaktín og jafnvel önnur hormón gætu því verið svarið við því hvers vegna konur gráta meira en karlar þó að bæði kynin upplifi sterkar tilfinningar í sömu aðstæðum.

Brené Brown er bandarískur félagsfræðingur sem hefur lengi rannsakað berskjöldun (e. vulnerability). Eftir rannsóknir og viðtöl í fjölmörg ár komst hún að þeirri niðurstöðu að berskjöldun er eitt af lykilatriðum hamingjunnar. Það að geta gengist við skömm sinni, og sýnt hana, sé á einhvern hátt heilandi. Brené segir að til þess að tilfinningin geti kallast berskjöldun þurfi hún að vera óþægileg. Í berskjöldun afhjúpar maður sjálfan sig og sýnir hliðar sem maður skammast sín mikið fyrir og sá sem hlustar getur notað það gegn manni síðar. Til að byrja með rannsakaði hún bara konur en það breyttist þegar karlmaður spurði hana út í það og benti á að dætur sínar og eiginkona myndu frekar vilja sjá hann deyja en falla niður af hvíta hestinum. Þessi ummæli urðu til þess að hún fór að skoða berskjöldun og skömm út frá körlum. Í viðtölum viðurkenndu margar konur að þær fylltust viðbjóði þegar þær sáu eiginmenn sína gráta. Karlar eru hvattir til að gráta en svo þegar á hólminn er komið og þeir láta vaða þá eru viðbrögðin oft óþægindi og jafnvel reiði.

 

Í desember árið 2019 birtist grein í tímaritinu Frontiers in Psychology þar sem Heather J. MacArthur sagði frá niðurstöðum rannsóknar sinnar á gráti karla og kvenna. Þar kom í ljós að staður og stund skipta máli þegar grátur kynjanna fær jákvæð eða neikvæð viðbrögð. Þegar karlar eru í umhverfi þar sem þeir hafa þegar sannað karlmennsku sína eins og í íþróttum, kraftlyftingum, fótbolta og fleira eru þeir bæði líklegri til að sýna meiri breidd tilfinninga og gráta. Það er hálfpartinn reiknað með því að karlar gráti þegar þeir tapa fótboltaleik og það er félagslega samþykkt. Myndi þessi sami karl til dæmis gráta í störfum sínum sem hjúkrunarfræðingur, sem er talið „hefðbundið umhverfi kvenna“, þá fengi hann allt önnur viðbrögð. Í rannsókn MacArthurs voru borin saman viðbrögð ólíkra einstaklinga við gráti karls og konu í starfi sem slökkviliðsmaður og við gráti karls og konu í starfi sem hjúkrunarfræðingur. Viðbrögðin voru jákvæðari gagnvart grátandi karli sem var slökkviliðsmaður, tárin hans þóttu viðeigandi og ásættanleg í ríkari mæli en tár hjúkrunarfræðinga af báðum kynjum og tár konu í slökkviliðinu. Þessar niðurstöður eru víst í samræmi við fyrri rannsóknir sem sýna að karlmennska virðist í meira mæli en kvenleiki byggja á ákveðnu stigveldi, þar sem hinir ráðandi fá meira frelsi og aðgang að valdi en hinir lægra settu. Viðbrögðin við gráti karla virðist því byggja á því hve karlmannlegir eða kvenlegir þeir eru taldir vera.

Að lokum

Hér hef ég talað um þá hefð að rannsaka kynin tvö og velt því upp hvað aðgreinir þau og hvað ekki. Um leið er ég að taka þátt í og renna stoðum undir heimsmynd þar sem kynin eru bara tvö, en svo er ekki. Nú þarf að breyta öllum rannsóknum og skoða fleiri litbrigði kynsins. Gráta kynsegin einstaklingar og transfólk meira eða minna en aðrir? Erum við núna að búa til félagslegt kerfi sem segir hvar og hvenær transfólk má gráta og sýna tilfinningar yfir höfuð?

Minnihlutahópar búa við öráreiti sem fylgir jaðarsetningu þeirra og því fylgir djúp sorg og sorgin brýst út í reiði, pirring og gráti. Lífið er nógu erfitt og margt til að gráta yfir. Mennskunni fylgja vonbrigði, slys, sorgir, sjúkdómar og dauðinn sjálfur. Grátur, reiði og sorg jaðarsettra er afleiðing af ranglátu samfélagi og bætist ofan á lífsflækjuna. Við berum ábyrgð á að hugga jaðarsetta með réttlátara samfélagi.



---------------------------------------------

Heimildir:

Bryndís Jónsdóttir. 1997. Maðurinn, dýrið sem grætur. Óbirt BA ritgerð í sálfræði frá Háskóla Íslands. Umfjöllun með leyfi höfundar.

Lutz, Tom. 1999 (kilja 2001). Crying, The Natural & Cultural History of Tears. W.W. Norton & Company, New York, London.

MacArthur, Heather J. 2019. „Beliefs about Emotion are Tied to Beliefs about Gender: The Case of Men‘s Crying in Competitive Sports.“ Frontiers in Psychology. Vol.10, 2019. https://www.frontiersin.org/article/10.3389/fpsyg.2019.02765      

 Hér er pistillinn í Víðsjá, hefst á mínútu 26.

miðvikudagur, september 29, 2021

Hugleiðingar um grát og tár - útvarpspistill nr. 1



Þú sæla heimsins svalalind,
ó, silfurskæra tár,
er allri svalar ýta-kind
og ótal læknar sár.

Æ, hverf þú ei af auga mér,
þú ástarblíða tár,
er sorgir heims í burtu ber,
þótt blæði hjartans sár.

Mér himneskt ljós í hjarta skín
í hvert sinn, er ég græt,
því drottinn telur tárin mín,-
ég trúi´ og huggast læt.

Þetta var ljóðið Tárið eftir Kristján Jónsson Fjallaskáld. Í ljóðinu er tárið silfurskært og ástarblítt, það læknar sár og ber sorgir heims í burtu. Skáldið biður tárið um að hverfa ekki af auganu og fagnar grátinum því huggunin kemur í kjölfarið. Þarna sjáum við fallega, tæra og jákvæða mynd af tárum. Það er þessi jákvæða afstaða til gráturs sem gerir ljóðið einstakt. En erum við alltaf svona jákvæð gagnvart rennandi tárum? Hvort sem tárin renna niður okkar eigin kinnar eða einhvers annars? Sumir eru alltaf að bresta í grát á meðan aðrir fella ekki stakt tár árum saman, hvað veldur?

Hvaða fyrirbæri er þetta: grátur? Dropar sem renna eða spýtast úr augunum og kallast tár? Af hverju lekur vökvi úr augum mannsins þegar hann upplifir öfgakennda tilfinningu á borð við sorg, trega og gleði? Hvernig umgöngumst við tár og grátur?

Hvað er þetta, til hvers er þetta og hvað gerum við við þetta fyrirbæri sem grátur er? Má hver sem er gráta hvar sem er?

Við eigum ríkt myndmál í tengslum við grátur og tár. Við tölum um: að brynna músum, öskurgrátur (nýtt), krókódílatár, að vökna um augun, að beygja af, að fella tár, að tárin/gráturinn brjótist fram (eins og stífla bresti), talað um að andlit afmyndist af gráti, að vera grátgjarn, sígrátandi, stutt í tárin, að gráta úr sér augun. Sagt er að tilfinningarnar báru hann/hana ofurliði, talað er um táradal og að vera í táraflóði. Til er lag sem heitir ,,Cry me a river.“ ,,Ég fékk kusk í augað“ segir fólk til að gefa í skyn að það hafi grátið. Kvikmynd getur verið tveggja vasaklúta mynd.


Hvernig þurrkum við tár? Oftast notum við hendurnar, við notum vasaklúta í jarðarförum, pappírsþurrkur á meðferðarstofum (þunnur pappír sem skrapar ekki augun) – á þessum stöðum er reiknað með gráti, þar er gráturinn hluti af heilunarmeðferð.

En tár eru ekki alltaf velkomin.

Af einhverjum flóknum sálrænum ástæðum brest ég oft í grát þegar einhver beinir reiði sinni gagnvart mér, ég tala ekki um ef ég hef brugðist eða klúðrað einhverju. Þá verða augun mín rauð, fyllast af vatni sem lekur niður kinnarnar. Yfirleitt reyni ég að stöðva strauminn, þurrka með vísifingri og jafnvel handabaki. Ég skammast mín fyrir þetta, ég missi stjórn. Nefið fyllist af slími og mér finnst ég afskræmd og ljót, rjóð og blaut og á valdi einhvers sem ég stjórna ekki. Helst vil ég fá að gráta í einrúmi, þannig að enginn sjái þessa afhjúpandi berskjöldun, svo enginn sjái sorg mína og úrræðaleysi.

Ég var 11 ára þegar báðar ömmur mínar létust með stuttu millibili. Ég veit ekki hvort það var þá eða síðar þegar afar mínir kvöddu þessa jarðvist en ég man eftir mér á hörðum kirkjubekk í Hvalsneskirkju að reyna að hemja tárin. Það fór mikil orka í það að reyna að halda aftur af tárunum, leyfa engum að sjá þau og ég sannfærði sjálfa mig um að seinna, þegar ég kæmi heim og yrði ein þá myndi ég leyfa þeim að streyma. Í gegnum tíðina hefur mikil orka farið í það að gráta ekki innan um aðra. Að bresta ekki í grát í miðri strætóferð, að fólk sem ég mæti á göngu sjái ekki rauð augun.

Af hverju upplifi ég mig eins og eitthvað afskræmt skrímsli þegar ég græt? Af hverju þessi feluleikur með tárin, þessa upplifun og tilfinningu? Erum við kannski fallegust þegar við grátum? Ég veit að þegar ég fékk börnin mín í fangið í fyrsta sinn þá var grátur þeirra það fallegasta sem ég vissi. Grátur ungbarna bjargar lífi þeirra, gefur foreldrum og öðrum í kring vísbendingar um að eitthvað þurfi að gera: gefa mat, losa loft úr maga eða knúsa og kjassa. Við komum í þennan heim með þann eiginleika að gráta svo að þörfum okkar verði mætt. Smám saman lærum við að hemja og bæla gráturinn, fela tárin.

Þegar við fæðumst verðum við að geta grátið því það bjargar lífi okkur. Af hverju er grátur ekki eitt af því sem hverfur með auknum þroska, af hverju fylgir gráturinn okkur lífið á enda? Hver er tilgangurinn með því?

Þegar opinber persóna brestur í grát fyrir opnum tjöldum ratar það gjarnan í fjölmiðla og grátsins getið í fyrirsögn. Í kosningabaráttunni árið 2017 grét Inga Sæland í beinni útsendingu yfir slæmum kjörum fátækra, öryrkja og aldraðra. Sitt sýndist hverjum. Árið 2019 varð það fréttaefni að forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, klökknaði í pontu á Alþingi eftir að hafa svarað athugasemdum þingmanna um heimild til að greiða bætur til sakborninga og aðstandenda í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum. Fyrr á árinu grét Sölvi Tryggvason í eigin hlaðvarpsþætti og Sigmar Vilhjálmsson birti mynd af sér grátandi að horfa á gráturinn. Sitt sýndist hverjum. Það var og er áhugavert að skoða breiddina í viðbrögðunum, allt frá samkennd og hluttekningu yfir til fordæmingar og reiði. Einstaklingar, hópar og samfélög hafa komið sér upp viðmiðum um það hver megi gráta og hvar, hvenær það sé viðeigandi að gráta. Vei þeim, sem grætur á röngum tíma og röngum stað.

Tár eru aldrei hrein, þau renna alltaf í samhengi við kinnina sem þau leka niður af, innri átök þess sem grætur og líka hvar og hvenær gráturinn á sér stað. Þau renna í samhengi við viðbrögð og líðan þess sem verður vitni að tárum. Tár eru alltaf blandaður kokteill, einföld en flókin í senn. Óbærilega flókin.


Hér er hægt að hlusta á sjálfan pistilinn sem var fluttur 2. september í Víðsjá á Rás 1, hann hefst á mínútu 30,25.

mánudagur, september 20, 2021

Tuttugasti september tvöþúsund og sautján




I

Fyrir nokkrum dögum dreymdi mig flugslys, var með börnunum í sumarhúsi og við sáum furðulega flugvél hrapa þar nálægt, horfðum á það út um gluggann. Í kjölfarið komu út úr vélinni hálfnaktir skuggalegir menn sem báru aðra menn á milli sín og gengu framhjá sumarhúsinu, þá áttaði ég mig á því að ég kærði mig ekki um að fá þá inn til okkar og var ekki viss um það hvort ég hefði læst. Varð að taka sénsinn og kanna það, rétt náði að ýta á hurðina og læsa um leið og einn reyndi að komast inn. Stuttu seinna dreymdi mig að ég væri í kofa með syninum og að við sáum flóð fara framhjá með fljótandi bílum. Þetta var held ég aðfararnótt sunnudagsins sem flóðadraumurinn kom. Sama dag spurði sonurinn: „Mamma hvernig gúggla ég tzunami“ og ég aðstoðaði hann við það en þá reyndist það tölvuleikur sem honum þótti spennandi.

II

Gærdagurinn, sá nítjándi var eftirminnilegur. Mig minnir að það hafi rignt um nóttina en svo þegar leið á daginn þá braust sólin fram og veðrið var kyrrt og stillt. Þegar ég keyrði eftir Hringbrautinni, nálægt kirkjugarðinum, á leiðinni að sækja soninn í skólann þá stóð sterkur og litríkur regnbogi norður af borginni. Ég fór í búð og rakst þar á son kærrar vinkonu sem lést í fyrra og nefndi við hann að ég hef verið með harmonikkuna hennar og vildi skila henni. Þá kom á daginn að hann á þessa harmonikku og hafði einmitt verið að furða sig á því hvar hún hefði endað. Á sama tíma hringdi síminn minn (þetta var á kassanum) og ég varð að skella á. Hringdi svo til baka þegar ég var komin út í bíl. Þá var verið að bjóða mér starf.

III

Fór heim að gramsa á netinu, lesa lokaverkefni og reyndi að leggja mig og náði smá hvíld án þess að sofna. Sótti soninn og fór með hann á fótboltaæfingu. Á meðan æfingin var í gangi skilaði ég harmonikkunni, einu samviskubitinu minna og kannski var vinkonan sjálf að vasast í þessu og merkilegt hvað þetta gerðist allt hratt. Heimsótti síðan aðra vinkonu og við áttum gott spjall, hún hefur dottið niður í þunglyndi en var að byrja aftur á lyfjum og þau voru strax farin að virka. Sótti síðan soninn og við brunuðum heim því við vorum að fara að passa vin hans og það gekk vel. Síðan fór sonur í pössun ég bauð kærastanum út að borða því hann átti afmæli. Sótti soninn og náði stuttu spjalli við vini mína. Á leiðinni inn í Hafnarfjörðinn um kl. 20 var myrkrið að leggjast yfir og birtan var svo undarleg og falleg. Eins og myrkrið væri komið yfir jörðina en himnarnir væru ennþá bjartir. Ljósin voru svo falleg, birta frá umferð og ljósastaurum.

IV

Þetta var óbærilega fallegur dagur, nítjándi,

nánast eins og sumardagur að hausti,

grasið ennþá grænt en samt komið haust.

 

Í gær var bilið á milli lífs og dauða þunnt,

sumar og haust skullu saman.

Ég var að lesa skilaboðin,

Sigurður Pálsson kvaddi í gær.

  Sigurlín Bjarney