þriðjudagur, febrúar 28, 2006

Freyja litla


varð 2 ára síðasta föstudag (24. feb) og síðan þá hefur flest snúist um það. Hún heldur að hún eigi ennþá afmæli og mótmælir því hátt og snjallt ef einhver annar vogar sér að eiga afmæli. Á morgun verður hún annað hvort prinsessa (jakk segir mamman) eða maríuhæna (sem mömmunni líst betur á, enda allt of ung fyrir fyrirfram skilgreint kynhlutverk). En sem sagt nær öldungis ótrúlegt hvað þessi börn eru milljónfaldir gleðigjafar :-)

fimmtudagur, febrúar 23, 2006

Af fjallvegum

Vestur Eiríksgötu

Þegar þú færð fjallþunga í herðarnar veistu að þú ert þegar á fjallvegi og þarft að auka hraðann svo þunginn búi ekki til holu í veginn, og þú festist til frambúðar. Í óbyggðum í miðri borg er ekkert verra en hola á miðjum vegi og áttaviltur ökumaður í henni miðri.

En skammt undan er stuðlabergsturn með rauðaugu sem horfa inn í dagana og kljúfa næturnar geislum sínum. Í forgrunni að himni og skýjum í hæstu hæðum. Og á slaginu 16:05 á degi hverjum fyllist gatan af bílum á hægri ferð vegna vaktaskipta spítalans. Hundruðir hnúa um stýri með fjallrendur undir nöglunum og allan þann þunga sem því fylgir. Föl andlit á leið úr vinnu og ekkert í veröldinni sem minnir á rauðhærðan víking.

Þegar sumri tekur að halla og haustið leggst til svefns skaltu vera viðbúinn því versta. Því í fyrsta vetrarsnjónum muntu frá fjallþunga í herðarnar og spóla í skafli við umferðarljósin. Og þegar rafmagnið fer af, í sömu andrá, geturðu hætt að spóla og ráðið áttirnar af ljósinu í turninum.

Þessum vita í úthafi svamlandi skreiða.


(Lesbók janúar 2005)

mánudagur, febrúar 20, 2006

Hlymur er fundinn


Frá því ég datt niður á orðið hlymur fyrir þetta blogg hef ég hvergi rekist á orðið, hvorki í ræðu né riti. Þangað til í dag! Í upphafi kafla 49 í Sjálfstæðu fólki: ,,Járnmélaglamur? Hlymur við ís undir hóf? Er það ekki hann Blesi sem frýsar í myrkrinu útá skafli?..." Ég keppist við að klára bókina því ég þarf að semja lokapróf úr bókinni fyrir ÍSL-503, og þá er eins gott að hafa lesið bókina sjálf, þó það sé í þriðja skipti.
Annars er mér um megn að skilja þvílíkan orðaforða karlinn Kiljan hafði á valdi sínu við ritun bókarinnar. Og ótrúlega flott hvað hann gefur margt í skyn í bókinni en segir ekki beint.

föstudagur, febrúar 17, 2006

Strandir og norðurland vestra, úrkoma í grennd



Á vordögum 2003 fór ég í 3-4 daga gönguferð um Strandir ásamt fríðu föruneyti. Gangan norður í Reykjarfjörð var fullkomin, gott veður og forvitnir selir við hvert fótmál. Bakpokinn var reyndar farinn að síga í, fæturnir að detta undan manni og axlirnar dofnar þegar við komum í Reykjarfjörð. Svo skall austanáttin á og útséð með að nokkur bátur gæti sótt okkur. Þá var ekkert annað að gera en að galla sig upp, smyrja nesti frá hjónunum sem dvelja þarna á sumrin og halda á heiðina. Um miðja nótt.

Klukkan þrjú um nóttina tókum við hús á bænum Dröngum, á myndinni. Eftir að hafa gengið heiðina í beljandi rigningu og vaðið hverja ört vaxandi ána af annarri. Karlarnir í húsinu vissu reyndar af okkur, hjónin í næsta firði höfðu hringt í þá í NMT og við velkomin. Um miðja nóttina beið okkar kjötsúpa í bala, með stórskornum rófum og gulrótum í hlýju eldhúsi. Hún var elduð á eldavélina bak við fólkið á myndinni og bræðurnir á henni björguðu okkur frá vosbúð á Ströndum (reyndar svaf annar þeirra á meðan hinn stumraði yfir kjötsúpunni).



Næsta morgun (allt of snemma) tók við morgunmatur og sögur af liskrúðugu lífi á hjara veraldar. Að Dröngum gengur enginn vegur. Við vorum leyst út með matarkexi og öðrum kræsingum og beðin um að kvitta fyrir okkur í gestabókina. ,,Og eitt dróttkvæði takk fyrir" sögðu þeir og við hlógum. Ég er ennþá að naga mig í handabökin yfir því að hafa ekki skrifað eina dróttkvæðið sem ég kann eftir Egil gamla úr Höfuðlausn. En það er ekki aftur snúið.

Ég mæli annars með bókinni á myndinni, gott sýnishorn af manngerðum í útrýmingarhættu!!


Þetta er orðið eitt allsherjar endurminningablogg - og á fleiri til. Til dæmis mikla svaðilför við rætur Eyjafjallajökuls þar sem ein í hópnum heimtaði að við kölluðum út þyrlu, það kemur kannski síðar.

fimmtudagur, febrúar 16, 2006

Þennan dag fyrir tveimur árum sat ég heima með 40 vikna kúlu og beið eftir verkjum

þeir komu ekki fyrr en 8 dögum síðar og í kjölfarið öskrandi lífsblóm

fimmtudagur, febrúar 09, 2006

Jæja


Þennan dag fyrir mörgum árum fæddist þessi strákslega snót á myndinni. Í Hafnarfirði. Ekkert er vitað um meðgönguna, þaðan af síður fæðinguna né fyrstu æviárin. Fyrir því eru þó haldbærar sannanir að hún braggast vel í dag, drekkur kaffi í kassavís og bryður suðusúkkulaði á milli sopa.

sunnudagur, febrúar 05, 2006

Himbrimi


er orð dagsins á fugli dagsins. Fyrir nokkrum árum fór ég í könnunarleiðangur út fyrir borgarmörkin. Á Kleifarvatni synti einmana Himbrimi og ég fór út að Krísuvíkurbergi að skoða fugla. Maður þarf ekki að leggja á sig ferðalag þvert yfir landið (t.d. á Hornbjarg eða Látrabjarg) til að komast í almennilegt fuglabjarg - það er eitt rétt fyrir utan borgina. Í kjölfarið varð þessi texti til:

Í sama mund og Kolla reytir sig á Vigri situr Grágæsamóðir í makindum við Tjörnina og virðir aðvífandi skáldkonu ekki viðlits. Hún reytir sig alla svo næðingurinn smígur inn í holótt beinin en Grágæsamóðirin setur verndarvæng yfir ungana og þykist ekki sjá flugþrána í göngulagi skáldkonunnar.

Á sama tíma stígur Skarfur upp á stein við Stykkishólm, breiðir út vængina og messar yfir óhreinum sálum svartfugla. Hann minnist Súlunnar sem mistókst lending á Eldey vegna mergðarinnar og Geirfuglabeinsins undir fit Lundans á skeri skammt frá. Hann varar við ofbeldishneigðum Störrum sem slást í þakskeggi við Óðinsgötu á meðan einmana Himbrimi syndir um Kleifarvatn í leit að slagsmálum. Lofsamar varnarlist Fýlsins sem spúði á ferðamenn við Krísuvíkurberg og dyggðir Ritunnar sem veitti syndugri Álku sáluhjálp á næstu syllu.
Að lokum minnir hann á að Haftyrðillinn er farinn fyrir fullt og allt, flúinn undan skítugum hugsunum fugla á útskerjum.

Og þegar Skarfurinn setur vængina niður hvísla öldurnar amen og ungi sleppur undan væng Grágæsamóðurinnar.

Á Vigri brýtur goggur gat á heiminn og skáldkonan gengur um Tjörnina með hugann við sprungur í himninum og verður ekki vör við gæsaunga undir fæti.