föstudagur, febrúar 17, 2006

Strandir og norðurland vestra, úrkoma í grennd



Á vordögum 2003 fór ég í 3-4 daga gönguferð um Strandir ásamt fríðu föruneyti. Gangan norður í Reykjarfjörð var fullkomin, gott veður og forvitnir selir við hvert fótmál. Bakpokinn var reyndar farinn að síga í, fæturnir að detta undan manni og axlirnar dofnar þegar við komum í Reykjarfjörð. Svo skall austanáttin á og útséð með að nokkur bátur gæti sótt okkur. Þá var ekkert annað að gera en að galla sig upp, smyrja nesti frá hjónunum sem dvelja þarna á sumrin og halda á heiðina. Um miðja nótt.

Klukkan þrjú um nóttina tókum við hús á bænum Dröngum, á myndinni. Eftir að hafa gengið heiðina í beljandi rigningu og vaðið hverja ört vaxandi ána af annarri. Karlarnir í húsinu vissu reyndar af okkur, hjónin í næsta firði höfðu hringt í þá í NMT og við velkomin. Um miðja nóttina beið okkar kjötsúpa í bala, með stórskornum rófum og gulrótum í hlýju eldhúsi. Hún var elduð á eldavélina bak við fólkið á myndinni og bræðurnir á henni björguðu okkur frá vosbúð á Ströndum (reyndar svaf annar þeirra á meðan hinn stumraði yfir kjötsúpunni).



Næsta morgun (allt of snemma) tók við morgunmatur og sögur af liskrúðugu lífi á hjara veraldar. Að Dröngum gengur enginn vegur. Við vorum leyst út með matarkexi og öðrum kræsingum og beðin um að kvitta fyrir okkur í gestabókina. ,,Og eitt dróttkvæði takk fyrir" sögðu þeir og við hlógum. Ég er ennþá að naga mig í handabökin yfir því að hafa ekki skrifað eina dróttkvæðið sem ég kann eftir Egil gamla úr Höfuðlausn. En það er ekki aftur snúið.

Ég mæli annars með bókinni á myndinni, gott sýnishorn af manngerðum í útrýmingarhættu!!


Þetta er orðið eitt allsherjar endurminningablogg - og á fleiri til. Til dæmis mikla svaðilför við rætur Eyjafjallajökuls þar sem ein í hópnum heimtaði að við kölluðum út þyrlu, það kemur kannski síðar.

Engin ummæli: