föstudagur, apríl 28, 2006
Þegar orðin taka völdin, á kvöldin
Ég hef óbeit á leiðinlegur ritgerður og leiðinlegur ritgerðarsmíðum. Þess vegna er ég að reyna hið ómögulega, þ.e. að gera ritgerð um hræðilega leiðinlegt efni að spennandi og skemmtilegum texta. Í ritgerðina eru komnar hugleiðingar um fræ (ekki bagalegt fyrir guðfræðinginn) og hún er byggð upp eins og ferðalag þar sem lesandanum er reglulega bent út um rúðuna til hægri eða vinstri handar (ekki bagalegt fyrir leiðsögumanninn). Skrifin eru líka óvissuferð því áfangastaðurinn er óljós og næsta setning ókannað land. Þetta stefnir í vitleysu. Endar með árekstri úti á víðáttu! Orðin eru að taka völdin.
mánudagur, apríl 24, 2006
Með dauðann á hælunum
Þessi hefur eflaust fengið beina þýðingu á orðinu Skaftárhlaup á engilsaxnesku (shaft-year-run kannski?) og haldið að áin mundi hlaupa hann uppi.
laugardagur, apríl 22, 2006
Hamfarahlaup í sálinni
Finn hvergi prósann um göngu við rætur Eyjafjallajökuls sem ég lofaði hér fyrr. Textar eiga það til að gufa upp úr tölvum - kannski sem betur fer. En í tilefni þess að hlaup er komið í Skaftá þá dustaði ég rykið af gömlum texta um hlaup í annarri á. Það er óttalegt svartnætti í þessum texta, en svona koma hann bara. Þessi prósi á heima í safni prósa sem allir fjalla um náttúruhamfarir á einhvern hátt - hefur allt legið í salti í 2 ár enda erfitt viðfangsefni.
Skeiðarárhlaup
Dill og aðrar viðkvæmar jurtir
Þegar dillið lafir og drýpur í átt að dauðanum, sækir hann vatn í ofboði, verður viðkvæmur og meyr í fjósinu og drýpur í átt að fjalli ofan af traktornum. Þá má ekkert koma upp á til þess að hann riðlist ekki úr jafnvægi, til þess það heyrist ekki smellur í höfðinu og flóðgáttir opnast, hamfarahlaup í jökulá hefjist. Þá er nóg að traktorinn þenji sig, hrúturinn sendi óræða augngotu eða að svart ský sveimi yfir fjallinu, þá brestur á. En þá daga sem dillið sperrir sig, horfir út um gluggann og bætir litlum sprota við sig, syngur hann fyrir hrútinn, mokar flórinn af gleði og heyrir ekki drunur og bresti traktorsins. Þá daga þrífur hann stígvélin og horfir með lotningu til fjallsins helga. Sendir því sterka strauma og jafnvel bænir, og kallar það sínaífjall sálarinnar. Og dillið heldur áfram að drjúpa og sperrast, á víxl.
Hann sparkaði af alefli í traktorsdekkið, sendi fjallinu puttann og meig ofan í ómokaðan flórinn. Danglaði stígvélunum af sér og lét þau þeytast inn í fatahengið og tók til við að hella upp á kaffi, með látum. Smellurinn í höfðinu var löngu þagnaður, mesti jökulruðningurinn farinn að sjatna. Mallið í kaffivélinni sefaði hann, lægði vindinn, svo hann settist við eldhúsborðið og nokkur tár hrundu. En síðan þurrkaði hann kinnarnar og harkaði af sér. Gerði sér ferð að stofuglugganum og sá að dillið var að jafna sig og að þau tvö virtust ætla að halda daginn út. Hann girti sig og hellti slurk af rommi út í kaffið og kom sér fyrir í slitnum stólnum. Í sjónvarpinu sá hann fréttir af hamfaraflóði, Skeiðarárhlaup sópaði vegi og brú á haf út, barðist áfram í sótsvörtum beljanda. Eitthvað bærðist innra með honum eins og hann vissi hvernig ánni liði, þekkti þær hömlur sem bresta fyrr eða síðar.
Uppsöfnunin í Grímsvötnum hafði gefið eftir, ruðst inn í síkvika ánna og lagt hana undir sig. Aurvatnið braut niður lönd og brýr en byggði upp sandsléttur og aura, í sárabætur. Og sandurinn stækkaði og tíbráin breikkaði á björtum dögum og ekkert fyrir Skúminn annað að gera en að hvílast á sandinum, setjast að á Ingólfshöfða og verja höfðann fyrir ágangi ferðamanna. Að lokum, mörgum dögum síðar, sjatnaði jökulhlaupið en dillið og maðurinn í slitna stólnum höfðu ekkert veður af því.
Því morguninn eftir upphaf hlaupsins svipti hann sænginni af sér og fór á brókinni beint fram í stofu. Dillið var dautt í stofuglugganum og hann fór út í fjárhús og skaut sig. Með kindabyssu og hrúturinn sendi óræða augngotu.
föstudagur, apríl 14, 2006
Ártúnsbrekka í vestur á aprílmorgni
Borgin stækkar og fjallvegum fjölgar. Og eftir því sem byggðin þéttist þá eykst fjarlægðin á milli fólks. Að keyra um borgina er eins og að keyra á afskekktum fjallvegi þar sem fjöllin gnæfa yfir og mannkynið í órafjarlægð. Hér kemur einn gamall:
Það er einhver móska í morgunskímunni þennan aprílmorgun. Ég keyri Ártúnsbrekku í vestur og umferðin svo mikil að mér finnst ég stödd í ókunnugri borg í öðru landi. Svona borg sem er eins og skímsli, dreifir úr sér um allt og sjóndeildarhringurinn ekkert nema hús. Og ég finn hvernig aksturslag forfeðranna seytlar um æðar mér. Mér finnst ég keyra traktor eftir troðningum. Rígheld með báðum höndum um stýrið, skima til beggja hliða svo ég festi dekkin ekki í holu eða missi jafnvægið á þúfu. Samstundis þykknar móskan í skímunni og ég finn aksturslag miðalda krauma í mergnum. Stýrið er beislið mitt, bremsan og bensíngjöfin ístöðin og hnakkurinn er með rafmagnshitarann í botni. Ég segi ,,hott, hott”, sparka í bensíngjöfina og rykki í beislið en hann stöðvar ekki þó að ég togi og togi í stýrið. Hnúarnir hvítna og blóðið hverfur úr höndunum og ég toga af öllu afli. Traktor eða hestur, skiptir það máli? Á hverjum morgni hef ég enga stjórn á ferð minni vestur Ártúnsbrekku.
Þá er best að stranda á umferðareyju, kyssa næsta stuðara eða stöðva bílinn á miðjum vegi og ganga út af göflunum.
Það er einhver móska í morgunskímunni þennan aprílmorgun. Ég keyri Ártúnsbrekku í vestur og umferðin svo mikil að mér finnst ég stödd í ókunnugri borg í öðru landi. Svona borg sem er eins og skímsli, dreifir úr sér um allt og sjóndeildarhringurinn ekkert nema hús. Og ég finn hvernig aksturslag forfeðranna seytlar um æðar mér. Mér finnst ég keyra traktor eftir troðningum. Rígheld með báðum höndum um stýrið, skima til beggja hliða svo ég festi dekkin ekki í holu eða missi jafnvægið á þúfu. Samstundis þykknar móskan í skímunni og ég finn aksturslag miðalda krauma í mergnum. Stýrið er beislið mitt, bremsan og bensíngjöfin ístöðin og hnakkurinn er með rafmagnshitarann í botni. Ég segi ,,hott, hott”, sparka í bensíngjöfina og rykki í beislið en hann stöðvar ekki þó að ég togi og togi í stýrið. Hnúarnir hvítna og blóðið hverfur úr höndunum og ég toga af öllu afli. Traktor eða hestur, skiptir það máli? Á hverjum morgni hef ég enga stjórn á ferð minni vestur Ártúnsbrekku.
Þá er best að stranda á umferðareyju, kyssa næsta stuðara eða stöðva bílinn á miðjum vegi og ganga út af göflunum.
laugardagur, apríl 08, 2006
Gömul þrekraun á fjöllum
Í lok janúar árið 2003 fór ég í snjóhúsaferð til að geta orðið fullgildur félagi í hjálparsveitinni minni. Stefnan var tekin á Eyjafjallajökul og átti að gista eina nótt í snjóhúsi og halda svo aftur til byggða. Ég var klifjuð öllum vetrargræjum og hélt af stað upp brattann full eftirvæntingar, alls óviss um að broddar og exi yrðu mikið notuð næstu sólarhringa.
Við héldum góðum dampi upp snaran brattan og það var komið myrkur þegar loksins fannst snjóhúsavænn snjór við jökuljaðarinn. Og þá fyrst hófst vinnan. Moka, moka, moka og moka. Og halda áfram að djöflast á skóflunni. Síðan nærði maður sig og kom sér í poka. Hópurinn skiptist í tvö snjóhús og ég ákvað að troða mér í það snjóhús sem var fullt af mestu reynsluboltunum. Ég er rauðhærða manneskjan í brúnu lopapeysunni á myndinni - eitthvað að bardúsa við kvöldmatinn væntanlega.
Það var ósköp ljúft að sofa í snjóhúsinu og ekki sakaði að hafa loftgatið nálægt svo að ferskt loft barst til mín. Þangað til þakið byrjaði að bresta undan rigningunni kl. 6 næsta morgun.
Þá var mesta kúnstin að ná að klæða sig í full herklæði án þess að blotna of mikið. Smám saman stækkaði gatið og rigningin buldi á morgumatnum. Fólkið í næsta snjóhúsi svaf vært og ætlaði aldrei að drattast á lappir og út.
Þetta er síðasta myndin sem var tekin í ferðinni. Ég stóð í rigningunni og beið heila eilífð. Með snjóflóðaílinn innanklæða, snjóflóðastangir og línur á pokanum og ísexina tilbúna til höggs. Síðan val haldið af stað til baka. En þá fyrst byrjaði gamanið. Í stuttu máli komum við aftur til byggða snemma næsta morgun eftir stanslaust labb heilan dag og heila nótt. Við fórum sem sagt niður vitlaust gil og þurftum að príla upp mjög góðan bratta og fara nánast til baka. Nestið kláraðist fljótt og undir það síðasta deildu allir síðustu leyfunum. Aldrei hefur hnetujógurt bragðast eins vel og svalandi (vatnið kláraðist auðvitað líka). En það var sálfræðiþrillerinn sem reyndi meira á en hinar líkamlegu raunir. Því í hópnum voru óreyndir félagar sem höfðu aldrei lent í öðru eins, kveinkuðu sér, gáfust regluleg upp og heimtuðu að þyrlan yrði kölluð út. Undir það síðasta logaði á nokkrum höfuðljósum og við fikruðum okkur niður fjallið í myrkrinu og þurftum að leiða þá ljóslausu. Ég hélt við mundum aldrei ná aftur til byggða, þrammaði bara áfram og studdi ljóslausan félaga. Aldrei hefur verið jafn ljúft að komast í Seljavallalaug, klósett, kyndingu, mat og vatn.
Úr þessu varð til stuttur prósi sem ég set kannski hingað inn - þar sem tölvan mín er núna (sem fyrr) stödd á Reyðarfirði þá er allur slíkur texti víðsfjarri.
föstudagur, apríl 07, 2006
Af lamandi leti, græjum og páskaeggjum
Ég hef ekki náð að hrökkva í skólagírinn frá áramótum. Geri öll verkefni með hangandi hendi, hef varla rekið nefið ofan í bók (nema þær sem ég þurfti að kenna) en fæ samt fínar einkunnir. Einhver lamandi leti í mér þessa dagana. Farin að hugsa að ég eigi ekki skilið að ljúka náminu með þessar óverðskulduðu einkunnir - ætti ég kannski að banka upp á hjá kennurunum og biðja um syndaaflausn?
Hvernig sem það fer allt saman þá eru páskarnir framundan með glimrandi spennandi ferilmöppuskrifum (je je je)! Einn skólafélagi minn mundi kalla slíkt tilfinningaklám - en ég er farin að hafa gaman af tilfinningaklámi (kannski er það aldurinn). Námið er farið að móta mig þannig að ég hef ímugust á fyrirlestrum en elska samvinnunám, félagslega hugsmíðahyggju og fleira flott í þeim dúr. Draumurinn núna er að skipuleggja heilan námsáfanga sem byggir á einum stórum ratleik (svona amacing race), eða (ef maður á að vera raunsær) að minnska kosti ratleik einu sinni í viku - þar með gæti maður afgreitt fjölgreindirnar átta.
Af auglýsingunum að dæma þá fylgir páskaegg nánast með hverri einustu græju sem maður kaupir í búðunum, nú eða möguleiki á græju ef maður kaupir páskaegg. Mér er alveg sama um græjurnar, svo framarlega sem ég fæ páskaegg og borða yfir mig af súkkulaði. Með von um munnangurslausa páska og þverrandi lamandi leti!
laugardagur, apríl 01, 2006
Tímamót
Þegar aldurinn færist yfir fækkar þeim hlutum sem maður gerir í fyrsta skipti. Í gær samdi ég í fyrsta skipti uppsagnarbréf. Með dynjandi hjartslætti gekk ég í fyrsta skipti á ævinni inn til forstjórans til að segja upp, 10 mínútum síðar var ég búin að fá ríflega launahækkun sem ég mun njóta í nokkra mánuði. Nú er bara að stíga inn í óttann og sjá hvaða starf rekur á fjörur mínar í haust. Og nú geta kokhraustir uppfinningamenn byrjað að syrgja brottför mína.
Datt inn á síðu með skemmtilegum skopmyndum (sem minna svolítið á Hugleik): http://www.toothpastefordinner.com/archives-spr03.php
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)