laugardagur, apríl 08, 2006

Gömul þrekraun á fjöllum


Í lok janúar árið 2003 fór ég í snjóhúsaferð til að geta orðið fullgildur félagi í hjálparsveitinni minni. Stefnan var tekin á Eyjafjallajökul og átti að gista eina nótt í snjóhúsi og halda svo aftur til byggða. Ég var klifjuð öllum vetrargræjum og hélt af stað upp brattann full eftirvæntingar, alls óviss um að broddar og exi yrðu mikið notuð næstu sólarhringa.

Við héldum góðum dampi upp snaran brattan og það var komið myrkur þegar loksins fannst snjóhúsavænn snjór við jökuljaðarinn. Og þá fyrst hófst vinnan. Moka, moka, moka og moka. Og halda áfram að djöflast á skóflunni. Síðan nærði maður sig og kom sér í poka. Hópurinn skiptist í tvö snjóhús og ég ákvað að troða mér í það snjóhús sem var fullt af mestu reynsluboltunum. Ég er rauðhærða manneskjan í brúnu lopapeysunni á myndinni - eitthvað að bardúsa við kvöldmatinn væntanlega.

Það var ósköp ljúft að sofa í snjóhúsinu og ekki sakaði að hafa loftgatið nálægt svo að ferskt loft barst til mín. Þangað til þakið byrjaði að bresta undan rigningunni kl. 6 næsta morgun.

Þá var mesta kúnstin að ná að klæða sig í full herklæði án þess að blotna of mikið. Smám saman stækkaði gatið og rigningin buldi á morgumatnum. Fólkið í næsta snjóhúsi svaf vært og ætlaði aldrei að drattast á lappir og út.

Þetta er síðasta myndin sem var tekin í ferðinni. Ég stóð í rigningunni og beið heila eilífð. Með snjóflóðaílinn innanklæða, snjóflóðastangir og línur á pokanum og ísexina tilbúna til höggs. Síðan val haldið af stað til baka. En þá fyrst byrjaði gamanið. Í stuttu máli komum við aftur til byggða snemma næsta morgun eftir stanslaust labb heilan dag og heila nótt. Við fórum sem sagt niður vitlaust gil og þurftum að príla upp mjög góðan bratta og fara nánast til baka. Nestið kláraðist fljótt og undir það síðasta deildu allir síðustu leyfunum. Aldrei hefur hnetujógurt bragðast eins vel og svalandi (vatnið kláraðist auðvitað líka). En það var sálfræðiþrillerinn sem reyndi meira á en hinar líkamlegu raunir. Því í hópnum voru óreyndir félagar sem höfðu aldrei lent í öðru eins, kveinkuðu sér, gáfust regluleg upp og heimtuðu að þyrlan yrði kölluð út. Undir það síðasta logaði á nokkrum höfuðljósum og við fikruðum okkur niður fjallið í myrkrinu og þurftum að leiða þá ljóslausu. Ég hélt við mundum aldrei ná aftur til byggða, þrammaði bara áfram og studdi ljóslausan félaga. Aldrei hefur verið jafn ljúft að komast í Seljavallalaug, klósett, kyndingu, mat og vatn.
Úr þessu varð til stuttur prósi sem ég set kannski hingað inn - þar sem tölvan mín er núna (sem fyrr) stödd á Reyðarfirði þá er allur slíkur texti víðsfjarri.

Engin ummæli: