föstudagur, apríl 07, 2006
Af lamandi leti, græjum og páskaeggjum
Ég hef ekki náð að hrökkva í skólagírinn frá áramótum. Geri öll verkefni með hangandi hendi, hef varla rekið nefið ofan í bók (nema þær sem ég þurfti að kenna) en fæ samt fínar einkunnir. Einhver lamandi leti í mér þessa dagana. Farin að hugsa að ég eigi ekki skilið að ljúka náminu með þessar óverðskulduðu einkunnir - ætti ég kannski að banka upp á hjá kennurunum og biðja um syndaaflausn?
Hvernig sem það fer allt saman þá eru páskarnir framundan með glimrandi spennandi ferilmöppuskrifum (je je je)! Einn skólafélagi minn mundi kalla slíkt tilfinningaklám - en ég er farin að hafa gaman af tilfinningaklámi (kannski er það aldurinn). Námið er farið að móta mig þannig að ég hef ímugust á fyrirlestrum en elska samvinnunám, félagslega hugsmíðahyggju og fleira flott í þeim dúr. Draumurinn núna er að skipuleggja heilan námsáfanga sem byggir á einum stórum ratleik (svona amacing race), eða (ef maður á að vera raunsær) að minnska kosti ratleik einu sinni í viku - þar með gæti maður afgreitt fjölgreindirnar átta.
Af auglýsingunum að dæma þá fylgir páskaegg nánast með hverri einustu græju sem maður kaupir í búðunum, nú eða möguleiki á græju ef maður kaupir páskaegg. Mér er alveg sama um græjurnar, svo framarlega sem ég fæ páskaegg og borða yfir mig af súkkulaði. Með von um munnangurslausa páska og þverrandi lamandi leti!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli