Borgin stækkar og fjallvegum fjölgar. Og eftir því sem byggðin þéttist þá eykst fjarlægðin á milli fólks. Að keyra um borgina er eins og að keyra á afskekktum fjallvegi þar sem fjöllin gnæfa yfir og mannkynið í órafjarlægð. Hér kemur einn gamall:
Það er einhver móska í morgunskímunni þennan aprílmorgun. Ég keyri Ártúnsbrekku í vestur og umferðin svo mikil að mér finnst ég stödd í ókunnugri borg í öðru landi. Svona borg sem er eins og skímsli, dreifir úr sér um allt og sjóndeildarhringurinn ekkert nema hús. Og ég finn hvernig aksturslag forfeðranna seytlar um æðar mér. Mér finnst ég keyra traktor eftir troðningum. Rígheld með báðum höndum um stýrið, skima til beggja hliða svo ég festi dekkin ekki í holu eða missi jafnvægið á þúfu. Samstundis þykknar móskan í skímunni og ég finn aksturslag miðalda krauma í mergnum. Stýrið er beislið mitt, bremsan og bensíngjöfin ístöðin og hnakkurinn er með rafmagnshitarann í botni. Ég segi ,,hott, hott”, sparka í bensíngjöfina og rykki í beislið en hann stöðvar ekki þó að ég togi og togi í stýrið. Hnúarnir hvítna og blóðið hverfur úr höndunum og ég toga af öllu afli. Traktor eða hestur, skiptir það máli? Á hverjum morgni hef ég enga stjórn á ferð minni vestur Ártúnsbrekku.
Þá er best að stranda á umferðareyju, kyssa næsta stuðara eða stöðva bílinn á miðjum vegi og ganga út af göflunum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli