mánudagur, maí 15, 2006

Sögur úr nóttinni



Stundum koma hversdagslegar en bragðgóðar sögur til manns úr óvæntum áttum. Eftir örstutt innlit í bæjarlífið síðustu helgi ákvað ég stuttu eftir miðnætti að taka enga áhættu og setjast inn í næsta leigubíl. Þar sem leigubílaspjall getur verið jafn skemmtilegt og það er þurrt þá prufaði ég að brjóta ísinn með því að spyrja ,,lítur ekki bara út fyrir rólegt kvöld?" og bílstjórinn svaraði: ,,jú það er öruggt þegar fréttist að þú hefur yfirgefið svæðið" - þar með náði hann að bræða mig.
Ég ræddi við gamla karlinn um samanburð á bílamenningu á Íslandi og Þýskalandi og ýmislegt fleira.
Þegar bíllinn keyrði inn í myrkrið á Nýbýlaveginum kom sagna-andinn yfir bílstjórann og hann rifjaði með hláturgusum upp þessa sögu:

Þegar ég var að keyra með konunni minni í Þýskalandi þá rákumst við eitt kvöldið á íslenskan bíl í miðju Þýskalandi. Það var augljóst að bílinn var frá Íslandi því hann var með gamalt og gott J númer. Svo skemmtilega vildi til að ég átti hjá mér gamlan sektarmiða í vasanum og ég laumaði honum undir bílþurrkuna á þeim íslenska (hláturgusa). Síðan biðum við átekta til að sjá viðbrögðin hjá eigandanum en ekkert bólaði á honum. Þar sem við vorum tímabundin urðum við að fara og gaman hefði verið að sjá svipinn á eigandanum (hlátur). Við vitum ekki enn hvort eigandinn var íslenskur eða þýskur.

Kannski er gamli íslenski sektarmiðinn sem rataði á íslenska bílinn í Þýskalandi ennþá stór ráðgáta í lífi einhvers.

Engin ummæli: