Er það eina sem mér datt í hug sem titill því mig langar að segja frá ýmsu merkilega ómerkilegu. Við mæðgurnar röltum í rokinu í morgunn á leikskólann. Á leiðinni var ekki þverfótandi fyrir ánamöðkum. Ábyrgðarfull móðirin benti dótturinni á undur náttúrunnar en átti síðan fullt í fangi með að vera góð fyrirmynd og trampa ekki á verslings skriðdýrunum. Hvað gerðist? Af hverju komu þeir upp í nótt/morgunn? Hvernig bárust boðin á milli þeirra?
Tilboðum um ókeypis skólagráður rignir hingað inn og hver veit nema maður láti freistast. Efast þó um að ég geti pantað kennsluréttindanám og leyfisbréf til að vera kennari á netinu. Það væri þó þægilegt að losna við þetta púl að þurfa að frumlesa um 80% af efninu og hamast við að leggja á minnið kenningar og karla fyrir prófið í næstu viku. Og komast upp með það, taka fínt próf og gleyma síðan herlegheitunum viku síðar. Þetta er dæmi um slæman vana sem maður heldur ósjálfrátt í af því að maður hefur komist upp með það hingað til. Vonandi verður raunin ekki önnur í ár.
Örlítið af orð-skrímslum sem ég hef heyrt. ,,Endursölugóður" er farið að heyrast í bíla-auglýsingum, hvað er nú það? Og ,,íbú(ð)alýðræði" er eitthvað sem frambjóðendur tönglast á og ég skil ekki heldur hvað þýðir. Sjálfstæðisflokkurinn lofar ,,fleiri gæðastundum" - hvað er nú það? er þetta kosningaloforð sem er hægt að standa við? Annars er orðskrímslið ,,heildarlausnir" að hjaðna í auglýsingum en það hefur valdið mér miklum kvölum að heyra það. Mikið hefur maður það gott þegar maður hefur ekki undan öðru að kvarta en furðulegum orðskrímslum sem mæta manni á stangli.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli