sunnudagur, desember 23, 2012

Heimsendir í útvarpstækinu

Ég verð stöðugt þeirrar gæfu aðnjótandi að fá bíl með annað hvort biluðu eða skrítnu útvarpi. Þannig að úr verður að ég stafla geisladiskum í bílinn og hlusta á þá. Þessa aðventuna hefur Chet Baker fengið að óma um rennireiðina og skapað óvænta jólastemningu með sinni mjúku rödd. Þegar frumburðurinn óx úr grasi tók ég uppeldishlutverkið svo alvarlega að í bílnum ómaði stöðugt Útvarp Latibær en núna er ég blessunarlega laus við það gól og el börnin í staðinn upp með Tom Waits, Fleet Foxes og Oscar Peterson. Átta ára dóttirin á nú þegar uppáhalds lag á nýjasta disknum með P J Harvey. Í sumar ómaði úr aftursætinu oftar en ekki ósk um Pítuson frá þeim þriggja ára.

Í ljósi þess að ég hef eytt haustinu í að skoða leikrit og rembast eins og jólarjúpa við að skrifa nokkur slík fannst mér þessi klausa úr laginu ,,Not for me" með Chet Baker algjör snilld:


With love to lead the way
I've found more clouds of grey
than any Russian play could guarantee




Annars ætlaði ég að skrifa eitthvað viturlegt um heimsendi. En veit ekki hvað skal segja. Þegar dóttirin hringdi í angist til mín vegna yfirvofandi heimsendis þá sannfærði ég hana um að hann yrði ekki. Beit síðan í tunguna og vonaði heitt að ég gæti staðið við stóru orðin. Er ekki annars nokkuð hressandi að fá góða áminningu um að allt getur endað, einn daginn? Eilífðin er kannski bara þreytandi til lengdar. Það virðist líka fylgja okkur mannfólkinu að vilja vita allt fram í tímann, og þá látum við smámál eins og heimsendi ekki fara framhjá okkur. Eitt hefði ég hins vegar getað lofað dótturinni (en gleymdi því alveg) en það er að heimurinn mun breytast. Heimsmyndir breytast og enda. Á hverri mínútu deyr fólk sem var heimur út af fyrir sig. Þannig að með flókinni fabúleringu er hægt að færa góð rök fyrir því að heimsendir hafi orðið þann 21. des. Heimsendir verður á hverjum degi. Oft á dag.

Og á eftir heimsendi kemur jólaljósið. Þið fáu kuldastrá sem lítið hér inn, við ykkur hef ég bara eitt að segja: Gleðilegt jól!


laugardagur, desember 08, 2012

Lýst er eftir einfaldleikanum - síðast sást til hans í miðasölunni á BSÍ




Fæ reglulega sent í tölvupósti gullkorn dagsins og þar kennir ýmissa góðra grasa. Í október kom þetta: „Einfaldleiki er að sjá fegurð í því ósvikna í lífinu og hrífast ekki af sýndarmennsku".

Í kjölfarið fór ég að velta fyrir mér sýndarmennsku og hvað felst í henni. Í grunninn snýst sýndarmennska um að fela eða breiða yfir ákveðna hluti hjá sjálfum sér og draga fram eða ýkja aðra til að stýra áliti annarra og reyna að líta vel út í augum annarra. Hins vegar held ég að sýndarmennska geti laumað sér auðveldlega inn hjá manni t.d. þegar maður vafrar um og tjáir sig á fésbókinni og ég tala nú ekki um bloggið. Allt snýst þetta um framsetningu á sjálfinu og þá er spurning hvort framsetningin sé einhver önnur í vefheimum og raunheimum. Er maður kannski stöðugt að setja sjálfan sig á svið? Sýndarmennskan er út um allt í auglýsingadoðanum og lekur inn um minnstu glufur.

Kannski er eina leiðin til að komast undan sýndarmennskunni að vera sannur/sönn í kjarna sínum og leyfa heiminum að sjá mann eins og maður er með sinn sérstaka kokteil af kostum og löstum, brestum og bestum, styrkleikum og veikleikum. Eins og gullkornið segið „að sjá fegurð í því ósvikna í lífinu“ og þá þarf maður að leita hið ósvikna uppi og ákveða fyrir sig (ekki aðra eða heiminn) hvað er ósvikið og ekta. Með því að sækjast efir því sem er ekta færist maður sjálfkrafa í burtu frá sýndarmennskunni. Að sjá fegurð er líka afstaða og ákvörðun.


Ætla að rölta niður á BSÍ og taka næstu rútu sem stefnir á ósvikna ekta-landið. Það er svo gott að sitja í rútu. Í hvaða veðri sem er. 

Rútan mun fara beint upp að dyrum að heimili mínu og fegurðin verður bæði þar og hér. Einfalt.

sunnudagur, nóvember 18, 2012

Af æskilegum skyndilokunum

 
Á þessum tíma ársins verð ég alltaf óbærilega meyr yfir öllum þessum bókum. Á hverjum degi koma 
út margar spennandi bækur. Bækur sem höfundar hafa skrifað, endurskrifað og legið yfir til fjölda ára 
og blandað öllu svita og tárum. Tölvur þola ekki mikinn raka og því hlýtur kostnaðurinn að vera ærinn.
 Ég hef oft reynt að skilja þetta og komast til botns í því hvers vegna þetta er svona. En ég hef 
ekki ennþá komist að neinni niðurstöðu.
 Ég hef líka oft reynt að finna samlíkingar sem geta varpað ljósi á ástandið. En þær renna út í 
sandinn jafnóðum. Í augnablikinu dettur mér þó í hug að prufa veislusamlíkinguna. Þetta er eins og 
að vera boðið í nokkurra daga veislu þar sem maður getur troðið sig út af flottum og spennandi mat 
en síðan sveltur maður aðra daga ársins. Æ, þessi samlíking nær ekki langt því auðvitað grotnar matur 
hraðar niður en bækur. Þessa splunkunýju bækur verða ennþá til á næsta ári. Enn eitt árið þarf ég að 
sætta mig við þá bitru staðreynd að ég næ aldrei að læsa augntönnunum í alla þessa dásemd. 
 Þegar maður opnar kjaftinn (eða tölvuna) til að kvarta þá er það nánast heilög skylda að benda á 
úrlausnir. Hér kemur það sem mér finnst að eigi að gerast í hvert skipti þegar ný bók kemur út:
 
        * Veðurstofan leggi niður störf
 * Boðuð verði skyndlokun á öllum landgrunninum
 * Öllum verði gert að setja logandi kerti í glugga
 * Vistmenn öldrunarheimila dansi Óla skans
 * Kiljan og Víðsjá verði með beina útsendingu úr prentsmiðjunni
 * Forsetinn fer í náttföt og sest með bókina í hægindastól
 * Höfundurinn fer huldu höfði rétt á meðan þjóðin gleypir í sig textann og birtist ekki aftur fyrr en 
lesendur hafa náð að melta efnið
 * Esjan hættir, um stundarsakir, að sópa til sín allri þessari athygli
 
(hér er ég að lenda í miklu basli með línubil og línulengd - línurnar hafa tekið völdin í eigin hendur enda löngu
orðið tímabært)

sunnudagur, október 14, 2012

Gildra fyrir sokkaskrímsli



Það hangir sokkur í löngu bandi fram af svölunum mínum. Dótturinni var mikið niðri fyrir þegar hún útskýrði nauðsyn þess að festa hann. Sokkurinn á að veiða sokkaskrímslið sem hefur ákveðið að koma til jarðarinnar því það frétti að á jörðinni væri svo mikið af sokkum. Hún sá sokkinn hreyfast í dag og taldi að vindurinn hefði ekki verið þar að verki.

Vonandi hefur fólkið á neðri hæðinni umburðarlyndi gagnvart sokknum sem hangir núna við stofugluggann hjá því. Vonandi gera þau sér grein fyrir mikilvægu hlutverki þessa sokks.

Ímyndunaraflinu eru engar skorður settar en ef svo er - þá er það bara ímyndun. 

Þið sem eigið sokka getið sofið örugg í nótt!

laugardagur, október 13, 2012

Haustlauf



Hér er allt að fyllast af gulum laufblöðum og það rignir. Getur verið að fyrri hluti októbers sé einn af bestu tímum ársins? Þá er vetrarrútínan komin í gang og maður kominn í æfingu að skutla krakkagríslingnum á réttum tímum í hinar ýmsu tómstundir. Maður ratar í réttar skólastofur á næstum réttum tíma og farinn að venjast nýjum andlitum í Árnagarði. Haustið er staðreynd og ennþá örlítill ilmur af sumri í jörðinni, ef maður þefar vel. Veturinn getur brostið á hvað úr hverju og skammdegið er líka á næsta leyti með öllum sínum léttþunga. Og það besta er að jólin eru ekki ennþá orðin yfirvofandi spenna. Litadýrðin minnkar smám saman og maður sættir sig við að ef það er ekki frost þá er rigning. Hér er allt að fyllast af gulum laufblöðum og um leið og ég þramma yfir þau kasta ég kveðju: „Takk fyrir súrefnið í sumar.“ Það rignir.

Annars má ég ekki vera að þessu því sonurinn (3 ára) ber í mig pönnukökur, pylsur og banana úr leir og allt yfirmáta gómsætt. Þegar hann er spurður að því hvort hann sé litli kokkurinn þá þverneitar hann og segist verið stóri kokkurinn.

mánudagur, september 17, 2012

Drama

Það fylgdi því furðanlega lítið drama að klambra saman einu stykki drama í sumar. Sýnt verður brotabrot af afrakstrinum í kvöld í Þjóðleikhúskjallaranum kl. 19:30 (ásamt 10 öðrum verkum).

Búin að dvelja undanfarið inni í hausnum á Birnu sem hleypur í fyrsta skipti hálfmaraþon með ýmsum skemmtilegum afleiðingum. Reyndar kom smá stífla í skrifin í júlí og ágúst og þá fór mín bara út að skokka til að komast í burtu frá tölvunni. Var alvarlega farin að hugsa um að prufa að skrifa sveitt í hlaupagallanum, en það stig örvæntingar varð aldrei að veruleika. Á það bara inni.

Hef annars verið að glugga í bókina Tóma rýmið eftir Peter Brook og heilluð af skemmtilegum pælingum og vangaveltum. Hér er smá brot af bls. 60:

,,Leiklistin er líklega erfiðust allra miðla, eða ætti að vera það sé hún stunduð af alvöru. Hún er miskunnarlaus og leyfir ekki mistök eða að eitthvað fari til spillis. /.../ Tvær klukkustundir eru stuttur tími en jafnframt heil eilífð. Mikil list felst í því að geta eytt tveimur klukkustundum af tíma almennings. Samt sem áður er listin, sem einkennist af þessum skelfilega vanda, mestmegnis unnin í kæruleysi. Í hættulegu tómarúmi er ekki hægt að læra raunverulega list leikhússins víða, þannig að við hneigjumst að leikhúsi sem býður ást í stað vísinda." o.s.frv.

Lærdómurinn sem ég dreg af þessu öllu er að vissan er falskur vinur þegar kemur að leikhúsinu. Óvissan er föst breyta. Ég er alveg viss um það og þar af leiðandi á stöðugum villigötum, hlaupandi í hringi. Æ það hefur svo margt viturlegt og flott verið sagt um leikhús - best að hlusta bara og njóta.

mánudagur, september 10, 2012

Adieu

Fyrir rúmlega viku síðan skilaði ég lyklunum að íbúðinni í Engihjallanum. Það er óneitanlega furðuleg tilfinning að eiga ekki lengur erindi í Kópavoginn og vera ekki lengur brunandi eftir Nýbýlaveginum oft á dag. Núllpunkturinn hefur færst úr stað.

Þrátt fyrir það sem margir halda (já fordómarnir leynast víða) þá er alveg hreint yndislegt að búa í Engihjallanum, sérstaklega í þessari númer ellefu. Útsýnið út að Keili og nágrannarnir hver öðrum ljúfari og indælli. Abdesselam í A íbúðinni lagaði fyrir mig brotna Palesander borðið hennar ömmu og Guðrún í C var alltaf að bjóða mér í kaffi. Sómahjónin í númer C voru líka stöðugt að hleypa mér inn til sín þegar ég læsti mig úti og fékk að prufa smá loftfimleika og klifra á milli svala til að komast inn til mín. Þá jesúsaði hún sig alltaf á svölunum og varð guðslifandi fegin þegar ég komst yfir heil og höldnu. Svo er Rósa oft á svölunum í næsta húsi og þá var hægt að spjalla með því að kalla á milli eða bara skutlast yfir.

Þegar maður lítur út um gluggann í Engihjallanum er alltaf einhver að koma eða fara, öskrandi barnahópar og ólgandi orka. Eins og er þá er líka skemmtileg blanda af ungu fólki, gömlu fólki, frumbyggjum, drykkjuhrútum og góðtemplurum og alls konar öllu mögulegu.

Og þegar maður mætti á viðburði eins og þegar kveikt var á jólatrénu í Hamraborgðinni þá var skemmtilega þorpsleg stemning þar sem örfáar hræður mættu og allir virtust þekkja alla (nánast).

Það var sem sagt fröken verðtrygging sem sparkaði mér út, því miður auk þess sem endurstillingar á núllpunktum eru stundum nauðsynlegar.

Þá er ég mætt í Reykjavíkina sem ég er byrjuð að kalla Biðlistaborgina en það virðist vera raunin að öll grunnþjónusta er ódýrari í Reykjavík en en á móti kemur að skólabörn fá ekki öll pláss á frístundaheimilum og lenda á biðlista. Hvort ætli sé betra?

Hér er síðan hægt að lesa um fræga Engihjallaveðrið sem allir eru ennþá að tala um: http://www.skjaladagur.is/2010/101-01.html

Nú þarf ég bara að vera dugleg að bruna Nýbýlaveginn til að snapa mér kaffi í gamla hverfinu mínu og kynnast síðan nýjum nágrönnum á nýjum stað - spurning að banka upp á og biðja um kaffisopa :-)

þriðjudagur, ágúst 14, 2012

Örnefnaskrá hin nýja

Þegar síðsumarið læðist að manni í vaxandi hauströkkrinu birtist ný örnefnaskrá sem minnir á liðið sumar.

Suður af eldhúsvaskinum eru þurrkuð birkilauf í dalli sem minna mig á Birkitrén við Engihjalla.

Í hánorður út frá eldhúsborðinu eru tvær krukkur í skáp. Önnur er með Blóðberg frá Hamarsfirði og hin með Vallhumal frá Eggertsgötu. Sunnan við það kúra kartöflur frá Kjarrhólmanum í ísskáp en enn lengra í suður þar af situr þurrkaður þari í vasa sem hefur ferðast alla leið úr fjörunni við bæinn Urðarteig.

Þegar ég fór í fótabað í sumar við Maríuhöfn flæktist þari í peysunni minni sem nú prýðir baksýnisspegilinn í bílnum (sko þarinn, ekki peysan) og þess vegna hugsa ég svo oft um fótabað við aksturinn.

Svona ætla ég að taka sumarið með mér inn í veturinn og leyfa nýjum örnefnum að vekja minningar.

sunnudagur, ágúst 05, 2012

Solanum tuberosum

Krækti mér (bókstaflega) í nokkur jarðepli úr kartöflugarðinum áðan. Ég er ekki frá því að kærleikskveðjurnar sem útsæðið fékk í vor áður en moldinni var sópað yfir séu að skila sér.

Ef ég væri hagfræðingur mundi ég eflaust finna það út að kílóverðið á þessum kartöflum væri mun hærra en út úr búð. En það verður að taka með í reikningsdæmið ánægjuna sem hlýst af vappi um kartöflugarða. Að fara átta ferðir með vatnskönnuna eftir stígnum í grasi sem nær bráðum mjöðmum og sjá kvöldsólina leika við dansandi tré. Og lyktin...maður lifandi.

Henti alls konar í pott og úr varð svo góður réttur að hér fáið þið drög að uppskrift:

Slatti nýjar kartöflur
Ein stór gulrót (í bitum)
Hvítkál (í bitum)
Smá engifer
Slatti af pastaslaufum

Allt soðið í vatni
Vatninu helt af þegar soðið.

Kartöflurnar stappaðar í pottinum.
Slatti af kryddsmjöri
Meiri engifer
Smá karrý
Hálf dós af Sólskinssósu (fæst tilbúin í Bónus)

Gott að gúffa í sig yfir Ólympíuleikunum í sjónvarpinu!!

Bon appetit!

fimmtudagur, ágúst 02, 2012

Af Krísuvíkurleið

Stundum langar mann bara að tjá sig. Beint inn í tómið á þessu loftþétta neti. Þá biður egóið um eitthvað flott, eitthvað djúpt, eitthvað sniðugt og krassandi. En stundum (bara stundum) nær maður að dempa þetta freka egó, pakka því ofan í tösku og senda í næsta flug til Grænlands. En það kemur alltaf aftur. Taskan dúkkar alltaf uppi við útidyrahurðina og egóið laumar sér yfir þröskuldinn. Hefur ekki einu sinni fyrir því að sýna vegabréfið.

Það var ekki þetta sem ég vildi segja. Opnaði þetta til að tjá mig um Krísuvíkurleið. Mér finnst svo skemmtilegt hvað sú leið hefur náð að lauma sér inn í orðatiltæki og vona svo heitt og innilega að Vegagerðin geri þessa leið ekki auðvelda yfirferðar (kannski hefur það gerst nú þegar, hvað veit ég sem fer of sjaldan út af mínum slóða).

Um daginn sá ég fólk tjá sig á netinu um það hvað fólk er mikil fífl. En ég vildi segja ykkur, fólk er ekki fífl. Fólk er undursamlega fallegt. Fólk er nóg, núna. Við förum bara svo skemmtilegar Krísuvíkurleiðir í samskiptum. Og erum svo undursamlega skapandi þegar við flækjum þetta einfalda líf. Þá hafið þið það! (Ætlaði að setja inn mynd af draumkenndum fjöllum frá Krísuvík en Annie Hall heimtaði pláss)

miðvikudagur, ágúst 01, 2012

mánudagur, júlí 23, 2012

Villieldur


Hef meðal annars nýtt sumarið í að glugga í gegnum hina stórmerkilegu bók „Fjarri hlýju hjónasængur“ eftir Ingu Huld Hákonardóttur sem kom fyrst út árið 1992. Þrátt fyrir afar þungt og flókið efni þá er bókin mjög aðgengileg og auðveld aflestrar. Þarna er merkilegt sjónarhorn á afkima Íslandssögunnar þar sem ástin og greddan er í raun aðalefnið og það hvernig yfirvöld hafa í gegnum aldirnar reynt að hamla, hefta og stjórna þessum óstýrilátu kröftum í mannseðlinu.

Hvað varðar aftökur almennt eins og drekkingar og hálshöggvanir þá kom mér á óvart að í raun fóru þær ekki alfarið fram á Þingvöllum á 18. öld heldur líka að miklu leyti heima í héraði. Þetta veldur því að núna lít ég landið öðrum augum. Öll þessi saklausu og fallegu vötn fá á sig einhvern hrollkaldan og dimman blæ og ég spyr mig óneitanlega: Getur verið að konu hafi verið drekkt í þessu vatni? Í bókinni eru nokkuð þögull hópur sem vakti forvitni mína en það eru sjálfir böðlarnir. Hverjir gerðust böðlar og hvernig ætli þeim hafi liðið? Við lesturinn varð ég líka óendanlega þakklát fyrir að vera konutetur á 21. öld en ekki örvasa vinnukona á þeirri átjándu gagntekin af óæskilegri ást.

Það er mín niðurstaða eftir lesturinn að það hefur verið óttalegt basl að lifa af í þessu landi í gegnum aldirnar. Óbifanleg harka og ofbeldi hefur einkennt margt og hún viðist enn blunda í okkur. En harkan síast vonandi út með komandi kynslóðum.

Mér finnst ótrúlega flottur kjarni í þessum orðum Ingu Huldar á bls. 31 (í umfjöllun um Ágústínus og Miðaldakirkjuna):

Í raun reyndu stjórnendur að staðla og einfalda ástina, þetta margslungna undur sem ýmist hefur á valdi sínu að skapa beiska kvöl eða botnlausa sælu. Þegar hún læsir sig eins og villieldur um líkama og sál streyma áður ókunnar orkulindir fram úr djúpum sálarinnar, dularöfl losna úr læðingi og einstaklingurinn skynjar sinn sanna kjarna. Heit ást logar jafnt í huga sem hjarta og brennir bæði líkama og sál. Því má segja að ofstækisfull siðvendni og óhamið lauslæti séu tvær hliðar á sama fyrirbrigði: flóttanum frá einlægum og hlýjum tilfinningatengslum.