þriðjudagur, maí 29, 2012

Virkjun

Hef uppi virkjunaráform á sköpunarflæðið.

Ætla að koma mér upp miðlunarlóni með stífluveggjum. Þar með kemst jafnvægi á sköpunarkraftinn og ég kem í veg fyrir árstíðarbundnar sveiflur og ótímabær flóð.

Umhverfisstofnun hefur tekið málið til umfjöllunar og úrskurðað að ég þurfi ekki umhverfismat, bara mat og það nóg af honum. Brasaðan, sósaðan og feitan og ögn sykraðan.

Með þeim fyrirvara að ég hætti að fá hugmyndir undir stýri.

sunnudagur, maí 27, 2012

Lykt af mold

er ómótstæðileg.

Þá er komið að því að moka saman kartöflugarði. Svona karöfluvesen er himnesk afsökun til að synda um í mold, fá mold undir neglur, í augu og nef. Finna lyktina.


sunnudagur, maí 20, 2012

Lokað bréf til Péturs Gunnarssonar sem nú hefur verið opnað


(ritað um vetur en birt að vori)

Í fyrirlestri þínum Pétur, Skáldatali, þann 20. október síðastliðinn í Háskóla Íslands ræddir þú meðal annars tíðarandann. Eða öllu heldur andleysi tíðarandans. Eftir fyrirlesturinn sat ég eftir með örlítinn beyg. Ég fór að vona að þú hefðir rangt fyrir þér og að spádómar þínir myndu ekki rætast. Spádómar um að brátt myndi tækninýjunga-blaðran springa framan í okkur; að innan skammt yrðum við að endurskoða líf okkar og taka upp aðra lifnaðarhætti. Pétur, það er svo erfitt að skipta um gír; stilla á annan takt. Úr pontunni lastu fyrir okkur fyrsta ljóðið í fyrstu ljóðabók þinni, Splunkunýr dagur, sem segir svo margt um jörðina og fegurðina; segir allt sem þú vildir segja.
Pétur, ég vil segja þér að af jarðarinnar hálfu byrja allir dagar, punktur (punktur komma strik).  Jörðin snýst og alls staðar er nýr dagur að byrja með nýjum upphafspunkti, nýjum tækifærum. Dagurinn byrjar og ekkert meira en það. Jörðin fer sinn hring af innra lögmáli sem hún veit ekki af sjálf og hugsar ekki út í. Hvort eitthvað sé fagurt eða ekki kemur málinu ekki við,  af jarðarinnar hálfu.
Fugl flögrar upp á trjágrein og menn falla í stafi og mynda óteljandi tengingar í höfðinu um frelsi og fegurð, ástina og lífið og allt þar á milli. Fuglinn horfir yfir landið og hugsar: Þarna er vatn, þarna er tré, þarna er matur og þangað ætla ég að fara. Hvort vatnið er fagurt eða sólarupprásin einstök kemur málinu ekki við og slíkt hvarflar ekki að honum. Vonandi verður mannshugurinn aldrei svona. Vonandi horfir maðurinn aldrei á vatnið og tréð og hugsar: Þarna er vatn, þarna er tré, þarna eru fjárfestingarkostir, þarna get ég grætt og þangað ætla ég að fara, sama hvað það kostar. Pétur, það er af mannsins hálfu sem allir dagar byrja einhvern veginn og af minni hálfu byrja allar bækur þínar fallega. Er fegurðarskyn mannsins farið að minnka hættulega mikið? Er hægt að búa til vísitölu sem mælir fegurðarskyn þjóðar? Getur verið að þarna liggi hin raunverulega hætta mannsins, mesta tortímingarógn jarðar og alls lífsanda sem þyngdaraflið þrýstir niður á hana?
Á sama tíma og hvert mannsbarn fæðist með vísi að fegurðarskyni er maðurinn orðinn helsti ógnvaldur jarðar. Í því liggur átakanleg þversögn. Það þarf að hlúa að þessu fegurðarskyni og leyfa því að þroskast. Við þann þroska þarf að tengja færnina til að setja sig í spor annarra (manna og dýra) og skilning á viðkvæmni alls sem lífsanda dregur.
Dagarnir byrja, líða og enda. Árstíðir skiptast á og jörðin snýst sinn hring. Öll náttúran sinnir sínu hlutverki og kannski er í því fólgin mesta fegurðin; að sinna sínu hlutverki. Maðurinn þarf að finna hlutverk sitt og sinna því.
En ég vil segja þér Pétur að það er síðasta ljóðið í bókinni sem má ekki gleymast; þar eygi ég von. Haltu áfram að vera barnið sem lýst er í þessu ljóði og ég skal gera mitt til að boða mikilvægi fegurðarskynsins. Þá verða kannski dagar okkar ljóð.

Ps-3
um hvað tölum við
um hvað skulum við tala
því hugsunin hrópar á orð
sem lengi hafa verið falin
sem of lengi lágu undir snjó
vor!!
kom vor að bræða snjóinn
og fylla hjörtun grasi blómi og sól

hvenær verða dagar okkar ljóð
og draumar okkar hold og bein og blóð
hendur okkar fullar af veruleika
fullar með vídd og lit og hljóm
hvar er barn að hrópa við séum nakin
hver spinnur okkur loginn falskan vef
burt út!!
því lífið kveður dyra
og ryður af sér tímans logna fargi
of lengi barstu vatn í lekri fötu
og burðaðist með afskræmt tónvillt líf
nú skaltu frjáls og æska í hverju svari
orð þín vængjuð spinna nýjan sannleik
sjálft lífið er í vil
og ljós heimsins í hjörtum okkar

(Pétur Gunnarsson, 1973 Splunkunýr dagur. Heimskringla, Reykjavík, bls. 99-100.)

föstudagur, maí 18, 2012

Opið bréf til verðtryggingarinnar


Opið bréf til verðtryggingarinnar  | eða
 Pollýanna verður kaldhæðin   | eða
Tilraun til sjálfs-sefjunar

Kæra verðtrygging,
ég veit ekki hvar ég á að byrja eða hvað ég á að segja. Þú hefur fylgt mér undarnfarin ár og ég hef gert mitt besta til að styðja við þig og styrkja stöðu þína. Ég borga og borga og borga og þú stækkar og stækkar og stækkar. Þú stækkar hraðar en börnin mín en samt veita þau mér mun meiri hamingju en þú. Mér skilst að þú sért nauðsynleg til að bankar og lífeyrissjóðir geti lifað af. Bankinn þarf jú sitt. Það er allt orðið svo dýrt um þessar mundir. Einhvern veginn þarf bankinn að komast í gegnum mánuðinn. Kæra verðtrygging, þú gefur þeim tækifæri til að hafa belti og axlabönd og ef það dugar ekki til þá koma eflaust einhverjir aðrir til bjargar eins og ríkissjóður og samtakamáttur fólksins í landinu. Greiðsluvilji þorra þjóðarinnar ef allt um þrýtur. En þú ert víst nauðsynleg og ég vona svo heitt að allir peningarnir sem ég hef gefið þér hafi verið notaðir til góðs. Þeir hafa eflaust verið notaðir til að borga starfsfólkinu góð laun og notaðir til að hvetja fólk áfram til að vaxa og dafna og eflast í þroska og hugrekki og umburðarlyndi og allt heila klabbið sem er svo nauðsynlegt og allt of langt mál að telja upp í einni belg og biðu.

Kæra verðtrygging, þegar ég hugsa til þín þá fer ég stundum að velta því fyrir mér hversu klárt fólkið var sem fann þig upp. Og tel mér trú um að þetta hafi verið nákvæmlega sama fólkið og fann upp seðilgjöldin. Þvílík snilld. Þvílík trygging fyrir framvöxt og öryggi bankastofnana og lífeyrissjóða.

Kæra verðtrygging, núna er ég að selja íbúðina mína og hætti fljótlega að styrkja þig. En væntanlegur kaupandi tekur við þér og ég treysti því að hann muni sinna þér eins vel og ég hef gert hingað til. Hann á bara eftir að skrifa undir og taka þannig formlega við þér. Hann heitir Jens.
               
Kæra verðtrygging, ég ætla að hætta að eiga íbúðalán og skunda með bjartsýni á leigumarkaðinn á höfuðborgarsvæðinu. Hann er svo yndislegur, hef ég heyrt. Kæra verðtrygging, ég mun samt áfram sinna þér og viðhalda þér en bara óbeint. Ég treysti því að væntanlegur leigusali minn sé dyggur stuðningsaðili þinn. Og allir leigusalar framtíðarinnar. Og ég mun áfram styðja við þig, beint eða óbeint, fram á grafarbakkann. Börnin mín taka síðan við en nú þegar finna þau fyrir þér þegar buddan er rýr en bankinn þarf jú sitt, ekki satt.
               
Kæra verðtrygging, ég veit ekki hvað ég get sagt að lokum nema kannski þetta (ef ég mundi senda þér póstkort þá mundi ég skrifa þetta):

Kæra verðtrygging,
ég vona að tilvist þín hafi
á einhvern hátt,
sem mér er enn hulin,
auðgað lífið
í þessu fallega landi.

sunnudagur, maí 06, 2012


Nauðþurftir á Háskólatorgi

(um stöðu Háskóla Íslands í samfélagi þjóðanna - eða einföld tilraun til að vera sniðug)


Á neðri hæð Háskólatorgs er salernisaðstaða sem vekur athygli þegar inn er komið. Þarna er röð af alls 13 klósettum. Það sem stingur í stúf er að vaskarnir eru 12, sápustandar og ruslafötur eru 5 talsins en handblásarar bara 4. Hvaða hugmyndafræði liggur þarna að baki? Hvaða heimsmynd ákveður að handblásarar megi vera þrefalt færri en klósettin? Hvers eiga hendurnar að gjalda?

Ástæðurnar geta verið ýmsar eins og t.d. að klósett eru mun ódýrari en rafknúnir handblásarar. Hvort svo sé veit ég ekki og satt best að segja nenni ég ekki að rannsaka það í þaula. Sú skýring sem ég tel líklegasta er sú hugmynd að skárra er að bíða í röð eftir handblásara en klósetti. Þá hefur maður val, ef tíminn er naumur, að sleppa því að þurrka hendurnar. Maður getur síður kosið, ef klósettin væru bara fjögur og handblásararnir þrettán, að sleppa því bara að kúka þegar þörfin er knýjandi og fá bara blástur á hendurnar í staðinn. Þetta er kannski forgangsröðun á þörfunum. Ástæða þess að ég stíg inn fæti er jú sú að mér er mál (ekki að ég þurfi að þurrka eða þrífa hendur) og þeirri þörf þarf að sinna sem fyrst. Háskólinn getur státað sig af því að sinna þessari brýnu þörf af stakri prýði, sérstaklega á þessum hluta Háskólasvæðisins. Það er líka eitthvað fríkað við það að koma inn, alveg í spreng, og geta valið á milli þrettán hvítra hásæta og geta gert þarfir sínar í friði og ró, hugsandi til allra hinna tólf sem fengu ekki sinnt hlutverki sínu þetta skiptið en bíða engu að síður átekta. 

Ég er ekki að ýkja þegar ég segi: Háskóli Íslands er á meðal tíu bestu í heimi þegar kemur að því að ganga örna sinna.